Anton Logi Lúðvíksson var í gær kynntur sem nýr leikmaður Breiðabliks en uppeldisfélagið fær hann til baka í sínar raðir eftir eitt ár hjá Haugesund í Noregi.
Fótbolti.net spurði Halldór Árnason, þjálfara Breiðabliks, út í Anton Loga í viðtali fyrir viku síðan en þá benti ekkert til þess að Anton væri að snúa aftur heim.
Fótbolti.net spurði Halldór Árnason, þjálfara Breiðabliks, út í Anton Loga í viðtali fyrir viku síðan en þá benti ekkert til þess að Anton væri að snúa aftur heim.
„Það var ekki einu sinni í umræðunni á þeim tímapunkti að hann kæmi aftur, þetta gerðist mjög hratt," segir Dóri.
Varð óvænt að möguleika
En hvernig er aðdragandinn því það hafði í vetur spurst út að Breiðablik væri með augastað á Antoni?
„Hann hefur spilað minna en hann ætti að hafa gert, að mínu mati, þarna úti. Við höfðum tekið stöðuna á Haugesund, hvort það væri einhver möguleiki á því að fá hann heim eða hvort hann væri yfir höfuð falur. Að sama skapi höfum við alltaf stutt það að hann yrði áfram úti ef eitthvað spennandi myndi bjóðast. En það er svolítið erfitt að sanna sig þegar maður spilar ekki nógu mikið."
„Svo mjög óvænt opnuðu Haugesund á það fyrir örfáum dögum að þetta gæti verið möguleiki. Gluggarnir voru margir að loka um mánaðamótin og við fengum leyfi til að tala við hann. Hann var mjög spenntur að koma heim og við að sjálfsögðu mjög spenntir að fá hann. Í kjölfarið tók þetta ekki langan tíma."
Alltaf pláss fyrir afburðafótboltamenn
Ef horft er í leikmannahópinn þá sér maður að tveir varnarsinnaðir miðjumenn eru farnir úr hópnum. Það eru þeir Oliver Sigurjónsson og Alexander Helgi Sigurðarson. Það var því ágætis pláss í hópnum fyrir hann.
„Oliver og Alexander eru farnir og svo líka Patrik (Johannesen) sem var að spila vinstra megin á miðjunni. Anton Logi getur og hefur spilað margar stöður fyrir okkur, getur leyst ýmis hlutverk þó að hann sé að upplagi sexa. Það er alltaf pláss fyrir afburðafótboltamenn og frábært að fá hann í hópinn."
Anton er seldur út í fyrra, er hann fenginn til baka á sömu upphæð?
„Það er eitthvað sem er á milli félagana og svo sem aðrir en ég sem eru í þeim málum."
Undir honum komið
Veistu hvernig hugur hans er varðandi heimkomuna, er hann að koma heim til að fara aftur erlendis?
„Hann gerir fjögurra ára samning sem er auðvitað skuldbinding af beggja hálfu. Hann á að geta verið einn allra besti leikmaður deildarinnar á næstu árum. Hann er líka það einstakur leikmaður að hann myndi alltaf vekja mikla athygli á sér. Hann þarf bara að meta það sjálfur hvernig hann hugsar þetta, hann er allavega miklu meira en nógu góður til þess (að spila erlendis). Það er því alltaf möguleiki. Fyrst og fremst þarf hann bara að finna gleðina af því að spila fótbolta aftur og sjá hvert það leiðir hann og okkur."
Frábært ef Ísak verður í hlutverki hjá Rosenborg
Breiðablik er í miðvarðar- og framherjaleit. Eruð þið einhverju nær þar?
„Nei, allt mjög rólegt þar."
Það hefur heyrst að undanförnu að Blikar fylgist með þróun mála hjá Ísaki Snæ Þorvaldssyni hjá Rosenborg. Er eitthvað samtal þar í gangi?
„Nei, ekkert samtal. Hann er bara úti núna og er að spila á Atlantic Cup í dag. Hann byrjaði inn á í fyrsta leik hjá þeim og er held ég eins og staðan er núna inni í myndinni hjá þeim. Það yrði bara frábært ef hann næði í gegn þar. Við myndum hins vegar alltaf skoða það vel að fá Ísak heim aftur ef það yrði möguleiki. En við erum hvorki að ýta á hann né Rosenborg núna. Við erum bara, eins og með alla leikmenn sem fara út frá okkur, að fylgjast vel með þeim. Ef það er staður og stund, og hlutverk í hópnum sem hentar hverju sinni, þá er auðvitað draumur að þegar þessir strákar koma heim að þeir komi til okkar."
Engar áhyggjur þrátt eftir tap í fyrsta leik Lengjubikarsins
Ein lauflétt að lokum, Breiðablik tapaði gegn Fram í Lengjubikarnum í vikunni. Er það áhyggjuefni?
„Nei, ég hef ekki áhyggjur. Við erum bara á miðju undirbúningstímabili og í þeirri þreytu, þyngslum og meiðslum sem því fylgir. Leikirnir eru aukaatriði, æfingarnar og álagið er það sem skiptir máli," segir Dóri.
Athugasemdir