Arsenal hyggst gera annað tilboð í Kóreumanninn - Al-Hilal undirbýr tilboð í Bruno Fernandes - Tah undir smásjá Newcastle
   mið 07. maí 2025 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Kristófer kominn til baka: Var á gjörgæslu í eina viku
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristófer Ingi Kristinsson snéri aftur á fótboltavöllinn í fyrsta sinn síðan í lok október þegar Breiðablik heimsótti KR í Bestu deildinni á mánudaginn.

Lestu um leikinn: Breiðablik 3 -  3 KR

KR var 3-2 yfir þegar Kristófer Inga var skipt inn á lokamínútunum og slapp hann einn í gegn skömmu síðar. Hann skoraði úr færinu til að jafna leikinn og tryggja stig.

Frá lokum síðasta tímabils hefur Kristófer Ingi farið í gegnum erfitt ferli eftir aðgerð sem hann þurfti á báðum ökklum. Hann fékk slæma sýkingu í annan ökklann og var meðal annars lagður inn á gjörgæslu í eina viku þegar hann var orðinn fárveikur og kominn með blóðsýkingu.

„Sem betur fer fór ég nógu tímanlega á spítalann þannig að sýklalyfin náðu að snúa hlutunum við og komu í veg fyrir enn frekari vandamál. Eftir það hófst langt endurheimtar ferli þar sem hlutirnir voru teknir frá degi til dags í von eftir því besta," segir Kristófer meðal annars í færslu á Facebook.

„Í gær tókst mér að komast aftur á völlinn eftir mikla vinnu og er ég gífurlega þakklátur fyrir þann stuðning og hjálp sem ég hef fengið í gegnum þessa vegferð. Maður veit aldrei hvað getur gerst í lífinu og er þessi lífsreynsla mjög mikill “eye opener” fyrir mig og hvað maður má vera þakklátur fyrir heilsuna og þeim forréttindum sem fylgja henni."

Kristófer gekk til liðs við Breiðablik sumarið 2023 en þar áður lék hann meðal annars fyrir VVV-Venlo og Sönderjyske eftir að hafa alist upp hjá Stjörnunni. Hann var mikilvægur hlekkur upp yngri landslið Íslands en hefur ekki fengið að spreyta sig í keppnisleik með A-landsliðinu.

Kristófer skoraði 4 mörk í 19 deildarleikjum með Blikum í fyrra en hann spilar sem framherji að upplagi og getur einnig leikið úti á köntunum.


Athugasemdir
banner