Elvar Geir Magnússon skrifar frá Lettlandi
Hér í Riga leikur íslenska landsliðið sinn annan leik í undankeppni EM á föstudag en mótherjinn er Lettland.
Ekki er við öðru að búast en að Ísland stilli upp óbreyttu byrjunarliði frá því í fyrsta leik gegn Tyrkjum sem endaði með 3-0 sigri.
Ekki er við öðru að búast en að Ísland stilli upp óbreyttu byrjunarliði frá því í fyrsta leik gegn Tyrkjum sem endaði með 3-0 sigri.
Liðið átti þar afskaplega góðan leik og í raun það góðan leik að Lars Lagerback talaði um hann meðal þeirra bestu á hans 37 ára þjálfaraferli.
Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason eru báðir í hópnum en hafa verið að glíma við meiðsli og eru ekki komnir á fullt með sínum félagsliðum. Það má búast við því að þeir byrji leikinn á bekknum.
Það er allavega engin ástæða til að taka Jón Daða Böðvarsson af velli en hann sló rækilega í gegn í sínum fyrsta landsleik. Varnarlínan var öll gríðarlega öflug, bakverðirnir frábærir, Emil og Aron mjög góðir, Kolbeinn ógnandi en Gylfi Þór Sigurðsson var stjarna sýningarinnar. Hann fór einnig hamförum í síðasta deildarleik Swansea og leikmaður sem Lettarnir óttast klárlega á föstudaginn.
Ísland hefur sterkari einstaklinga en lettneska liðið og gerir maður væntingar til sigurs á föstudag. Líka í ljósi þess að erfiðara ætti að vera að fá eitthvað úr Hollandsleiknum á þriðjudag.
Ekki er hægt að segja að lettneska liðið sé stjörnum prýtt. Þeirra þekktasti einstaklingur er sjálfur þjálfarinn. Marians Pahars, sem unnendur enska bolta muna eftir úr Southampton í kringum aldamótin síðustu.
Heimir Hallgrímsson fór aðeins yfir lettneska liðið á fréttamannafundi þegar hópurinn var kynntur. Liðið byggir mikið upp á vinnusemi og skipulagi varnarlega. Menn eru varkárir út úr varnarstöðum og fljótir til baka og framherjarnir mjög vinnusamir.
Á góðri íslensku virkar lettneska liði hundleiðinlegt og vill hægja á leiknum. Það eru alltaf tíu menn fyrir aftan bolta. Menn eru klókir og þekkja sín takmörk og spila upp á sína styrkleika. Í síðustu leikjum hefur liðið leyft andstæðingi að halda bolta og spilað upp á skyndisóknum. Liðið hefur spilað síðustu fjóra leiki án þess að fá á sig mark.
Á fréttamannafundinum á dögunum minntist Heimir einnig á síðustu undankeppni þegar íslenska liðið var rifið úr skýjaborgunum eftir að hafa lagt Norðmenn sannfærandi í fyrsta. Næst á eftir kom tapleikur gegn Kýpur.
Íslandi hefur ekki tekist að vinna Letta í síðustu fjórum viðureignum liðanna. Nú er lag að breyta því.
Athugasemdir