Bakvörðurinn Ásta Eir Árnadóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild Breiðabliks.
Ásta Eir er Bliki í húð og hár og kom fyrst inn í meistaraflokkinn árið 2009, þá 16 ára gömul. Síðan þá hefur hún spilað 172 leiki í öllum keppnum fyrir liðið og skorað í þeim tíu mörk.
Eftir að hafa spilað sinn fyrsta A-landsleik í fyrra kom Ásta Eir alls við sögu í átta leikjum með landsliðinu fram á haust. Áður átti hún að baki 25 leiki með yngri landsliðunum.
Ásta Eir hefur verið einn mikilvægasti leikmaður liðsins síðustu ár, en hefur ekkert verið með í ár þar sem hún eignaðist dreng í sumar.
„Blikar óska Ástu og fjölskyldu innilega til hamingju og eftirvæntingin er mikil að sjá hana aftur úti á vellinum í græna búningnum," segir í tilkynningu Blika.
Bakvörðurinn Ásta Eir Árnadóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild Breiðabliks....
Posted by Knattspyrnudeild Breiðabliks on Föstudagur, 9. október 2020
Athugasemdir