Argentínumenn öflugir á heimavelli
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.
HM í Argentínu 1978
Leikið var í fimm borgum í Argentínu; Buenos Aires, Mae del Plata, Rosario, Cordoba og Mendoza. Ástandið í landinu var ótryggt vegna andstöðu almennings við herforingjastjórnina. Nokkur lið íhuguðu að mæta ekki til leiks og rætt var um að færa keppnina til Brasilíu, Mexíkó eða Spánar. Það varð hinsvegar ekkert af því.
Ekki yfirgefa okkur Johan
Besti fótboltamaður heims á þessum tíma, Johan Cruyff, tilkynnti óvænt að hann gæfi ekki kost á sér á mótið. Hollendingar reyndu allt til að fá hann til að skipta um skoðun. Hann fékk yfir 50 þúsund áskorunarpréf og gefið var út sérstakt lag sem hét „Ó Johan, ekki yfirgefa okkur." Án árangurs.
Vandræði komu upp fyrir leik Frakklands og Ungverjalands í riðlakeppninni þegar í ljós kom að bæði lið mættu aðeins með hvíta búninga. Tafir urðu á leiknum meðan dómararnir redduðu búningasetti sem þeir fengu lánað frá Club Atlético Kimberley. Búningarnir sem Frakkar léku í voru með grænum röndum.
Brasilía tapaði ekki leik
Annað mótið í röð mistókst Englendingum að komast í gegnum undankeppnina og sátu heima. Grannar þeirra frá Skotlandi voru hinsvegar mættir til Argentínu og voru gríðarlega bjartsýnir fyrir mótið. Óvænt tap fyrir Perú í riðlinum gerði það að verkum að þeir komust ekki áfram í milliriðil en leikið var með sama fyrirkomulagi og 1974.
Holland vann milliriðil A eftir sigur gegn Ítalíu. Arie Haan tryggði sigurinn með þrumufleyg. V-Þjóðverjar hlutu aðeins tvö stig í milliriðlinum en mikil endurnýjun hafði átt sér stað í liðinu.
Í millriðili B börðust Argentínumenn og Brasilía en fyrir mótið voru Brassarnir taldri sigurstranglegastir. Liðin gerðu markalaust jafntefli en 6-0 sigur Argentínu gegn Perú gerði það að verkum að liðið vann riðilinn á markatölu. Brasilía vann Ítalíu 2-1 í leiknum um þriðja sætið og tapaði því ekki leik á mótinu.
Kvartað rétt fyrir úrslitaleikinn
Fimm mínútum fyrir úrslitaleikinn lögðu Argentínumenn fram kvörtun sem gerði það að verkum að leikurinn hófst ekki á tilsettum tíma. Þeir gerðu athugasemd við umbúðir sem Rene van der Kerkhof hafði á hendi eftir að hafa meiðst í byrjun HM. Hollendingar voru brjálaðir yfir hegðun Argentínumanna.
Úrslitaleikur: Argentína 3 - 1 Holland
1-0 Mario Kempes ('37)
1-1 Dick Nanninga ('82)
2-1 Mario Kempes ('105)
3-1 Daniel Bertoni ('115)
Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma í úrslitaleiknum en rétt fyrir leikslok átti Rob Rensinbrink stangarskot og var næstum búinn að tryggja Hollandi sigurinn. Argentína var sterkara liðið í framlengingunni og tryggði sér sigur á heimavelli. Eftir leikinn báðu Argentínumenn Hollendinga afsökunar á hegðun sinni fyrir leik.
Leikmaðurinn og markahrókurinn: Mario Kempes
Kempes var valinn besti leikmaður mótsins og var einnig markakóngur með sex mörk. Þessi magnaði markaskorari skoraði 20 mörk í 43 landsleikjum á ferlinum og var valinn einn af 125 bestu núlifandi fótboltamönnum á 100 ára afmæli FIFA. Hann lék á sínum tíma með Valencia á Spáni við góðan orðstír. Hann er 68 ára í dag og starfar við fótboltalýsingar.
Leikvangurinn: Estadio Monumental
Stærsti leikvangur Argentínu var tekinn í notkun 1938 og stækkaður fyrir HM. 72 þúsun manns sáu úrslitaleik Argentínu og Brasilíu á vellinum. River Plate leikur heimaleiki sína á vellinum. Leikvangurinn hefur einnig verið notaður fyrir tónleika en Bruce Springsteen, Guns N' Roses, Paul McCartney, Rolling Stones, Madonna og David Bowie eru meðal þeirra sem þar hafa komið fram.
Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954
HM í Svíþjóð 1958
HM í Síle 1962
HM á Englandi 1966
HM í Mexíkó 1970
HM í Vestur-Þýskalandi 1974
Svipmyndir frá úrslitaleiknum 1978:
Heimild: Bókin 60 ára saga HM í knattspyrnu eftir Sigmund Ó. Steinarsson og ýmsar vefsíður
Athugasemdir