Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 03. nóvember 2022 07:15
Elvar Geir Magnússon
17 dagar í HM - HM í Sviss 1954
Kraftaverkið í Bern
Stórskemmtileg mynd frá mótinu í Sviss.
Stórskemmtileg mynd frá mótinu í Sviss.
Mynd: Getty Images
Í fyrsta sinn var sjónvarpað frá HM.
Í fyrsta sinn var sjónvarpað frá HM.
Mynd: Getty Images
Frá úrslitaleiknum í Bern.
Frá úrslitaleiknum í Bern.
Mynd: Getty Images
Vestur-Þjóðverjar fagna sigri.
Vestur-Þjóðverjar fagna sigri.
Mynd: Getty Images
Ferenc Puscas var valinn maður mótsins.
Ferenc Puscas var valinn maður mótsins.
Mynd: Getty Images
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.

Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.



HM í Sviss 1954
Sextán þjóðir tóku þátt í mótinu og leikið var í fjórum riðlum. Ungverjaland og V-Þýskaland voru talin með bestu liðin fyrir mótið. Ungverjar mættu til Sviss án þess að hafa tapað landsleik í fjögur ár með markatöluna 104-25 í 25 landsleikjum. Allir nema einn í byrjunarliði Ungverjalands komu frá liði hersins, Honved.

Rigndi allt mótið
Í fyrsta skipti var sjónvarpað frá HM og færði það FIFA mikla peninga vegna sjónvarpsréttar. Fótboltaáhugamenn í Sviss blotnuðu vel því það rigndi nánast alla dagana sem mótið stóð yfir.

Það rigndi líka mörkum. Það var líf og fjör á þessu móti enda flest mörk að meðaltali í leik af öllum Heimsmeistarakeppnunum (5,38). Suður-Kórea var fyrsta Asíulandið til að taka þátt en liðið steinlá 9-0 gegn Ungverjum í Zurich.

Settur í herbergi með sprelligosanum
Rétt fyrir mót kom í ljós vandamál innan herbúða V-Þýskalands. Fyrirliðinn Fritz Walter, útsjónarsamir og marksækinn framherji, reyndist vera taugaveiklaður og hafa hlotið sálrænan skaða í seinni heimsstyrjöldinni. Þjálfarinn Sepp Herberger var afar klókur og leysti vandamálið með því að láta helsta sprelligosa liðsins, Helmut Rahn, í herbergi með Fritz. Þeir herbergisfélagar fóru á kostum á mótinu.

V-Þýskaland tefldi fram varaliði í riðlakeppninni gegn Ungverjalandi og tapaði 8-3. Herberger taldi að leikurinn skipti litlu máli. Markatalan skipti ekki máli og þar sem V-Þýskaland og Tyrkland voru jöfn að stigum mættust liðinu í aukaleik um sæti í 8-liða úrslitum. Þar unnu V-Þjóðverjar örugglega 7-2. Fritz og bróðir hans Otmar Walter urðu fyrstu bræðurnir til að skora í sama leiknum á HM, þeir skoruðu tvö mörk hver í þeim leik.

Puskas kastaði flösku í höfuð andstæðings
V-Þýskaland vann 2-0 sigur á Júgóslavíu í 8-liða úrslitum á meðan Ungverjaland vann Brasilíu 4-2 í miklum hitaleik í Bern. Tapsárir Brasilíumenn réðust að Ungverjum á ganginum við búningsklefana eftir leik. Mikil áflog áttu sér stað en stærsta stjarna Ungverja, Ferenc Puskas, var kærður fyrir að hafa kastað flösku í höfuðs Pinheiro hjá Brasilíu.

Ungverjar mættu ríkjandi meisturum í Úrúgvæ í undanúrslitum og þar var búið að auka öryggisgæslu til mikilla muna eftir lætin í Bern. Staðan var 2-2 eftir venjulegan leiktíma en tvö mörk Ungverja í framlengingu gerðu fyrsta ósigur Úrúgvæ á HM að staðreynd. Í hinum undanúrslitaleiknum vann V-Þýskaland 6-1 gegn Austurríki.

Úrslitaleikur: V-Þýskaland 3 - 2 Ungverjaland
0-1 Ferenc Puskas ('6)
0-2 Zoltán Czibor ('8)
1-2 Max Morlock ('10)
2-2 Helmut Rahn ('18)
3-2 Helmut Rahn ('84)

Draumaúrslitaleikur og dramatíkina vantaði ekki. Leikurinn hefur verið kallaður „Kraftaverkið í Bern". Puscas var meiddur fyrir leikinn og ákvað að spila þvert á ráðlagningu lækna, Hann skoraði fyrsta markið eftir aðeins fimm mínútna leik.

V-Þjóðverjum leist ekki á blikuna tveimur mínútum síðar þegar Ungverjar bættu við marki. En áður en 18 mínútur voru liðnar af leiknum var staðan orðin jöfn 2-2. Áður en sigurmark V-Þýskalands kom áttu Ungverjar skot í stöng og slá. Rahn, þessi mikli leiðtogi, skoraði sitt annað mark sex mínútum fyrir leikslok þegar hann lék á tvo Ungverja og skoraði með föstu skoti.

Leikmaðurinn: Ferenc Puscas
Puscas var major í her Ungverjalands. Hann var einnig afar fær fótboltamaður og raðaði inn mörkum á ferli sínum, þar á meðal 156 fyrir Real Madrid. Oft nefndur meðal bestu leikmanna allra tíma. Hann var valinn besti leikmaðurinn á HM 1954 en tveimur árum áður varð hann Ólympíumeistari með Ungverjalandi.

Markakóngurinn: Sandor Kocsis
Skoraði ellefu mörk á mótinu fyrir Ungverjaland. Varð fyrsti leikmaðurinn til að skora tvær þrennur á HM. Hann skoraði að meðaltali 2,2 mörk í leik á mótinu, met sem enn stendur. Kocsis lék með Barcelona 1958-65. Árið 1974 greindist hann með krabbamein og lést svo fimm árum síðar eftir að hafa fallið af svölum á sjúkrahúsi sínu í Barcelona. Talið er líklegt að hann hafi framið sjálfsmorð.

Leikvangurinn: Wankdorf Stadium
Wankdorf Stadium í Bern var byggður 1925 en svo endurbyggður rétt fyrir HM. 55 þúsund áhorfendur fylltu leikvanginn á úrslitaleiknum. Hann var rifinn 2001 en nútímalegri leikvangur byggður á sama svæði, Stade de Suisse sem notaður var á EM 2008. Á þeim leikvangi skoraði Jóhann Berg Guðmundsson einnig þrennuna sína frægu.

Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950

Sjáðu frá úrslitaleiknum:


Heimild: Bókin 60 ára saga HM í knattspyrnu eftir Sigmund Ó. Steinarsson og ýmsar vefsíður
Athugasemdir
banner
banner