Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   lau 05. nóvember 2022 09:20
Elvar Geir Magnússon
15 dagar í HM - HM í Síle 1962
Orrustan í Santiago
Leikmanni Ítalíu vísað af velli af lögreglumönnum eftir að hafa fengið brottvísun gegn Síle.
Leikmanni Ítalíu vísað af velli af lögreglumönnum eftir að hafa fengið brottvísun gegn Síle.
Mynd: Getty Images
Garrincha var besti maður mótsins.
Garrincha var besti maður mótsins.
Mynd: Getty Images
Brasilíumaðurinn Didi lyftir verðlaunabikarnum.
Brasilíumaðurinn Didi lyftir verðlaunabikarnum.
Mynd: Getty Images
Brasilíumenn unnu HM í annað skiptið í röð.
Brasilíumenn unnu HM í annað skiptið í röð.
Mynd: Getty Images
Santiago National Stadium.
Santiago National Stadium.
Mynd: Getty Images
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.

Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.



HM í Síle 1962
HM hafði verið haldi í Evrópu tvisvar í röð og félög í Ameríku hótuðu að sniðganga keppnina ef hún yrði ekki haldin í Suður-Ameríku. Síle varð fyrr valinu. Ákveðið var í fyrstu að keppa í átta borgum í landinu en skipuleggjendur þurftu að taka beygju þegar gríðarmikill jarðskjálfti reið yfir landið 1960. Fjórir leikvangar eyðilögðust í skjálftanum og var á endanum aðeins leikið á fjórum völlum.

Blaðamaður tekinn í misgripum og barinn
Sögufrægur leikur Ítalíu og Síle í riðlakeppninni fékk nafnið „Orrustan í Santiago" en skrif tveggja ítalskra blaðamanna höfðu gert heimamenn bálreiða. Blaðamennirnir skrifuðu pistla þar sem þeir gagnrýndu skipulagningu mótsins, sögðu innfædda ekki vera gestrisna og að höfuðborgin Santiago væri skítug.

Áður en mótið hófst þurftu blaðamennirnir að yfirgefa landið þar sem óttast var um öryggi þeirra. Einn argentínskur blaðamaður var heldur betur óheppinn, hann var laminn á bar í borginni þar sem hann var tekinn í misgripum fyrir ítalskan blaðamann.

Hitinn í leiknum sjálfum var gríðarlega mikill, Lögreglan þurfti að hafa afskipti þrívegis. Sílemaðurinn Leonel Sanchez nefbraut Mario David með vinstri krók en enski dómarinn Ken Aston rak hann ekki af velli. Tveir leikmenn Ítalíu misstu stjórn á skapi sínu og voru sendir í sturtu í lögreglufylgd. David Coleman, íþróttafréttamaður BBC, lýsti leiknum sem „heimskulegri, hræðilegri og svívirðilegri fótboltasýningu. Kannski þeirri verstu í sögu leiksins.". Síle vann á endanum 2-0.

Varnarbardagi
Ferenc Puskas frá Ungverjalandi varð fyrstur Evrópubúa til að leika með tveimur þjóðum á HM. Hann lék með Ungverjum 1054 en með Spáni á mótinu í Síle. Hann sagði í viðtali að HM í Síle hefði verið „varnarbardagi". Í fyrsta sinn var markatalan komin inn í riðlakeppnina og í fyrsta sinn voru færri en þrjú mörk að meðaltali í leik.

Tékkóslóvakía kom á óvart á mótinu. Forráðamenn liðsins bókuðu hótelið bara út riðlakeppnina. Tékkarnir fóru hvergi því liðið fór alla leið í úrslitin. Það vann Ungverjaland 2-1 í 8-liða úrslitum og Júgóslavíu 3-1 í undanúrslitunum. Aðeins 6.000 áhorfendur voru á undanúrslitaleiknum.

Brassar með svipað lið
Heimsmeistarar Brasilíu mættu með nánast sama lið og lyfti bikarnum í Svíþjóð. Liðið lék 4-3-3 leikkerfið í Síle, fór taplaust í gegnum riðlakeppnina og lagði svo Englendinga 3-1 í 8-liða úrslitum.

Heimavöllurinn reyndist Sílemönnum drjúgur en þeir komust lengra en búist var við. Í undanúrslitunum voru þeir lagðir af Brasilíu sem vann 4-2 sigur. Garrincha, aðalstjarna mótsins, fékk brottvísun í lok leiksins og bjuggust margir við því að hann yrði í banni í úrslitaleiknum. Forseti FIFA gaf út að Garrincha færi ekki í leikbann.

Úrslitaleikur: Brasilía 3 - 1 Tékkóslóvakía
0-1 Josef Masopust ('15)
1-1 Amarildo ('73)
2-1 Zito ('69)
3-1 Vava ('78)

Tékkar pökkuðu í vörn gegn Brasilíumönnum í úrslitaleiknum sem þótti ekki mikil skemmtun. Það var þó í seinni hálfleik sem Brasilíumenn náðu að brjóta vörn Tékkana á bak aftur. Vava innsiglaði sigurinn með eftirminnilegu marki sem hann skoraði eftir að markvörðurinn Viliam Schrojf blindaðist af sólinni.

Brasilía notaði aðeins tólf leikmenn í keppnina og varð fyrsta þjóðin til að leika þrjá úrslitaleiki. Vava varð fyrstu til að skora í tveimur úrslitaleikjum.

Leikmaðurinn: Garrincha
Manuel Francisco dos Santos gekk undir nafninu Garrincha eða „litli fuglinn". Æska Garrincha var erfið, hann var mikið veikur og fæddist með annan fótinn styttri. Kóngurinn Pele meiddist snemma móts 1962 og steig þá Garrincha upp og skein skært. Hann skoraði tvö mörk í 3-1 sigrinum gegn Englandi í 8-liða úrslitum og endurtók leikinn í 4-2 sigri gegn Síle í undanúrslitum. Hann var valinn besti maður mótsins. Utan vallar átti Garrincha í erfiðleikum eins og lesa má um í þessari frétt.

Markakóngurinn: Sex leikmenn jafnir
Sex leikmenn voru jafnir í markaskorun á mótinu. Það voru Brasilíumennirnir Garrincha og Vava, Sílemaðurinn Leonel Sanchez, Júgóslavinn Drazen Jerkovi, Valentin Ivanov hjá Sovétríkjunum og Ungverjinn Florian Albert gerðu fjögur mörk hver.

Leikvangurinn: Þjóðarleikvangurinn í Santiago
Leikvangurinn opnaði 1938 og er enn í dag stærsti íþróttaleikvangurinn í Síle. Í stríðinu var hann notaður sem fangabúðir. Fyrir nokkrum árum gekk þetta mannvirki í gegnum miklar endurbætur og er nú talið einn nútímalegasti leikvangur Suður-Ameríku.

Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954
HM í Svíþjóð 1958

Markaveisla frá 1962:


Heimild: Bókin 60 ára saga HM í knattspyrnu eftir Sigmund Ó. Steinarsson og ýmsar vefsíður
Athugasemdir
banner
banner
banner