Óstöðvandi sambalið
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.
HM í Mexíkó 1970
Sú ákvörðun FIFA að láta Mexíkó um að halda HM 1970 var umdeild. Ljóst var að hæð keppnisstaða yfir sjávarmáli myndi hafa áhrif á keppnina. Mörg af þeim liðum sem tóku þátt undirbjuggu sig með því að fara í æfingabúðir upp í fjöll eða til Suður-Ameríku. Sem dæmi var 39 stiga hiti þegar England og Brasilía áttust við.
Varamenn notaðir í fyrsta sinn
Á HM 1970 mátti í fyrsta skipti setja inn varamenn í leikjum og dómarar notuðust við gul og rauð spjöld í fyrsta sinn. Ekkert rautt spjald fór þó á loft í keppninni.
Besta markvarsla sögunnar?
Bobby Moore leikmaður Englands var handtekinn í Kólumbíu rétt fyrir HM. Var hann sakaður um að hafa stolið demantsarmbandi. Moore mætti dögum á eftir liðsfélögum sínum til Mexíkó þar sem honum var haldið í fangelsi í fjóra daga. Málið er enn óupplýst en grunað er að sökum hafi verið logið upp á fyrirliða enska liðsins.
Einn stærsti leikur riðlakeppninnar var viðureign Brasilíu og Englands. Nóttina fyrir leik söfnuðust þúsundir Brasilíumanna fyrir utan hótel enska liðsins og héldu þar flugeldasýningu til að skemma svefn ensku leikmannana.
Markvörðurinn Gordon Banks tók markvörslu í leiknum sem er af mörgum talin besta varsla allra tíma. Varði hann þá skalla frá Pele með annarri höndinni og rétt náði að slá knöttinn yfir slánna. Banks kom engum vörnum við þegar Jairzinho skoraði eina mark leiksins á 59. mínútu.
England komst upp úr riðlinum en Banks gat ekki spilað gegn V-Þýskalandi í 8-liða úrslitum vegna matareitrunar. Grunsemdir voru um að eitrað hafi verið fyrir honum. Varamarkvörðurinn Peter Bonetti varði mark Englands og átti afleitan dag, þetta reyndist hans síðasti landsleikur. V-Þýskaland vann 3-2 og England fór heim.
Rekinn rétt fyrir mót
Brasilía flaug í gegnum undankeppnina fyrir HM. Liðið vann alla leiki sína undir stjórn Joao Saldanha, fyrrum íþróttafréttamanns, sem óvænt var ráðinn landsliðsþjálfari. Samt sem áður var Saldanha rekinn rétt fyrir mót. Hann þótti erfiður í samstarfi og ofan á það var forseti Brasilíu ósáttur við liðsval hans.
Mario Zagalo tók við stjórnartaumunum en hann vann HM sem leikmaður með Brasilíu 1958 og 1962. Undir hans stjórn hélt sigurgangan áfram og Zagalo varð sá fyrsti til að vinna HM bæði sem leikmaður og þjálfari.
Brasilía vann alla leiki sína í riðlinum, vann 4-2 sigur gegn Perú í 8-liða úrslitum og 3-1 gegn Úrúgvæ í undanúrslitum. Í úrslitaleiknum var leikið gegn Ítalíu sem komst í leikinn með mun meiri herkjum.
Einn fjörugasti leikur í sögu HM
Ítalía vann V-Þýskaland 4-3 í einum fjörugasta leik í sögu HM fyrir framan 110 þúsund manns á Azteka-leikvangnum. Ítalía skoraði fyrsta markið og lá svo til baka en liðið var þekkt fyrir hæfileika sína í því að halda forystu. Þjóðverjarnir sóttu og áttu tvívegis að fá vítaspyrnu en slakur dómarinn dæmdi ekkert. Rétt fyrir leikslok náðu Þjóðverjar að jafna.
„Ógleymanlegi hálftíminn" tók þá við en það er framlengingin kölluð. Markaflóðið hófst á því að V-Þýskaland komst yfir, Ítalía náði að snúa leiknum sér í vil með tveimur mörkum áður en Gerd Müller skoraði annað mark sitt í leiknum og jafnaði 3-3. Gianni Rivera reyndist hetja Ítalíu með sigurmarkinu.
Úrslitaleikur: Brasilía 4 - 1 Ítalía
1-0 Pele ('18)
1-1 Roberto Boninsegna ('37)
2-1 Gerson ('66)
3-1 Jairzinho ('71)
4-1 Carlos Alberto ('85)
Ítalía var auðveld bráð fyrir Brasilíu í leiknum. Sambataktar Brassana með Pele, Jairzinho og Tostao fremsta í flokki heilluðu fótboltaunnendur um allan heim. Unnu þeir HM í þriðja sinn og þar með verðlaunagripinn, Jules Rimet-styttuna, til eignar.
Leikmaðurinn: Pele
Pele stóð sem betur fer ekki við þau orð sín 1966 að hann hefði leikið á sínu síðasta Heimsmeistaramóti. 29 ára gamall fór Pele á kostum í Mexíkó og var valinn besti maður mótsins. Skoski landsliðsmaðurinn Pat Creran sagði að stafa ætti nafn Pele sem G-U-Ð.
Markakóngurinn: Gerd Müller
Þjóðverinn Müller skoraði tvær þrennur á mótinu og endaði sem markakóngur með tíu mörk. Síðar þetta ár var hann valinn besti knattspyrnumaður Evrópu enda skoraði hann eins og enginn væri morgundagurinn, bæði fyrir félag sitt Bayern München og fyrir þýska landsliðið. Á ferlinum skoraði hann 398 mörk í 453 leikjum fyrir Bayern og 68 mörk í 62 landsleikjum fyrir V-Þýskaland.
Leikvangurinn: Azteka
Fimmti stærsti leikvangur heims var opnaður 1966 og er svo sannarlega í sögubókunum. Í dag tekur hann 105 þúsund manns í sæti. Hann átti eftir að vera notaður í öðrum úrslitaleik á HM (1986) og þá voru Ólympíuleikarnir 1968 haldnir þar. Einnig hafa verið tónleikar með U2, Michael Jackson og Elton John auk þess sem páfinn hélt þar ræðu.
Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954
HM í Svíþjóð 1958
HM í Síle 1962
HM á Englandi 1966
HM 1970 - Lið aldarinnar:
Heimild: Bókin 60 ára saga HM í knattspyrnu eftir Sigmund Ó. Steinarsson og ýmsar vefsíður
Athugasemdir