Þjóðarsorgin í Brasilíu
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.
HM í Brasilíu 1950
Vegna seinni heimsstyrjaldarinnar liðu tólf ár milli HM í Frakklandi og næstu keppni sem var í Brasilíu 1950. Margir af þeim leikmönnum sem unnu keppnina 1938 í París dóu í stríðinu. Aðeins þrettán þjóðir mættu og þar af aðeins fjórar sem léku á HM í Frakklandi; Brasilía, Sviss, Svíþjóð og Ítalía.
Ósáttir við að skylda væri að spila í skóm
Ungverjaland, Tékkóslóvakía, Austurríki og V-Þýskaland tóku ekki þátt þar sem þjóðirnar höfðu ekki náð sér eftir heimsstyrjöldina. Kalda stríðið var í algleymingi og Sovétmenn mættu því ekki. Argentína mætti ekki vegna deilna við Brasilíu og Skotar ákváðu að hætta við þátttöku eftir að hafa tapað fyrir Englendingum í Bretlandseyjariðli undankeppninnar.
Frakkar afþökkuðu boð á mótið þar sem þeim þótti of kostnaðarsamt að taka þátt. Þá hætti Indland við að taka þátt þar sem skylda var að leika í fótboltaskóm en Indverjar léku berfættir á þessum tíma. Ítalía mætti með hálfgert B-lið þar sem átta landsliðsmenn höfðu farist í flugslysi 1949.
Sigurlagið sem aldrei var spilað
Flavio Costa, þjálfari Brasilíu, lét sína menn lifa klausturslífi fyrir mótið. Þeir dvöldu fyrir utan Rio ásamt lænum, nuddurum og matreiðslumönnum. Leikmenn drukku aðeins vítamíndrykki og fóru að sofa klukkan tíu á kvöldin. Þeir máttu ekki umgangast konur sínar fyrr en eftir mótið.
Hið sókndjarfa lið Brasilíu spilaði sambabolta af bestu gerð á þessum tíma. Brasilíumenn voru það sigurvissir fyrir mót að samið var sigurlag sem átti að spila eftir að bikarinn færi á loft. Það lag var aldrei spilað eftir HM.
Englendingar fengu súrefnisgjöf
Englendingar tóku þátt í fyrsta sinn en þeir voru óvanir að leika í þunnu lofti og í miklum hita. Þeir þurftu að fá súrefnisgjöf í hálfleik þegar 2-0 sigur vannst gegn Síle.
Englendingar töpuðu svo gríðarlega óvænt 0-1 fyrir Bandaríkjunum og komust ekki áfram. Úrslitin voru það óvænt að ensk dagblöð héldu að úrslitin hefðu verið 10-0 sigur Englands þegar þau voru send til þeirra.
Úrslitaleikur: Brasilía 1 - 2 Úrúgvæ
0-1 Friaça ('47)
1-1 Juan Alberto Schiaffino ('66)
1-2 Alcides Ghiggia ('79)
Í þessari keppni var leikið í fjórum riðlum og svo í úrslitariðli. Hann spilaðist þannig að leikur Brasilíu og Úrúgvæ var úrslitaleikur. Allir veðjuðu á heimamenn fyrir leikinn enda með hið stórhættulega sóknartríó Zizinko, Jari og Ademir í leikkerfinu 2-3-5.
Brasilíu gekk þó illa að finna leiðina framhjá Roque Maspoli sem var í ham í rammanum hjá Úrúgvæ og varði eins og berserkur. Áhorfendur urðu þrumu lostnir þegar Úrúgvæ jafnaði og skoraði svo sigurmarkið í leiknum. Líkja má ástandinu í Brasilíu við þjóðarsorg eftir úrslitin.
Leikmaðurinn: Juan Alberto Schiaffino
„Við stöðvuðum spil Brasilíu með því að brjóta á þeim hvað eftir annað. Við vissum að af hverjum hundrað leikjum gætum við kannski unnið einn gegn Brasilíu á þessum tíma og gáfum okkur alla í þetta," sagði Schiaffino þegar hann rifjaði úrslitaleikinn leikinn upp en hann skoraði fyrra mark Úrúgvæ. Þessi útsjónarsami sóknarmaður lék 149 leiki fyrir AC Milan á sínum tíma.
Markakóngurinn: Ademir
Þessi 26 ára leikmaður skoraði sjö mörk á mótinu og fór á kostum í sóknarleik Brasilíu. Fyrsti maðurinn til að skora mark í keppnisleik á Maracana-vellinum. Á ferlinum skoraði hann 32 mörk í 39 landsleikjum. Hann var þó ekki valinn besti maður mótsins, það var leikstjórnandinn Zizinho sem hlaut þann heiður.
Leikvangurinn: Maracana
Þetta ótrúlega mannvirki var reist fyrir mótið 1950. Talið er að áhorfendur á úrslitaleiknum hafi farið yfir 205 þúsund manns. Leikvangurinn hefur gengið í gegnum talsverða endurnýjun og tekur nú 72 þúsund manns í sæti. Úrslitaleikur HM 2014 fór þar fram.
Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
Innslag um úrslitaleikinn sögulega 1950:
Heimild: Bókin 60 ára saga HM í knattspyrnu eftir Sigmund Ó. Steinarsson og ýmsar vefsíður
Athugasemdir