„Ég bjargaði lífi ellefu manna
Guiseppe Meazza, fyrirliði Ítalíu, heilsar Gyorgy Sarosi, fyrirliða Ungverjalands, fyrir úrslitaleikinn.
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.
HM í Frakklandi 1938
Fimmtán mánuðum eftir HM í Frakklandi braust út heimsstyrjöld. Skuggi hennar grúfði yfir keppninni. Spánn tók ekki þátt þar sem fótbolti í landinu lá niðri vegna borgarastyrjaldar og ekkert landslið var lengur í Austurríki. Fimmtán lið tóku þátt í keppninni sem var með útsláttarfyrirkomulagi eins og á Ítalíu.
Argentínumenn mættu ekki
Argentínumenn voru ósáttir við að HM væri tvisvar í röð í Evrópu. Til að mótmæla því mættu þeir ekki til leiks. Almenningur í Argentínu var ósáttur með þá ákvörðun og voru kröftug mótmæli fyrir utan höfuðstöðvar argentínska knattspyrnusambandsins.
Ríkjandi heimsmeistarar Ítalíu heilsuðu að hætti fasista fyrir leik gegn Noregi í fyrstu umferð. Áhorfendur bauluðu og slepptu Ítalir þessum sið í öðrum leikjum sínum á mótinu. Ítalía vann 2-1 sigur á Noregi.
Bannað að vera berfættur á HM
Brasilíumaðurinn Leonidas fannst völlurinn blautur þegar Brasilía mætti Póllandi. Hann brá a það ráð að leika berfættur við litla hrifningu dómarans sem stöðvað leikinn. Leonidas var skipað að fara aftur í skóna.
Leikurinn endaði með 6-5 sigri Brasilíu þar sem tveir leikmenn skoruðu fjögur mörk hvor. Leonidas Da Silva fyrir Brasilíu og Ernst Willmowski fyrir Pólland.
Menn hvíldir í undanúrslitum
Ítalía mætti Brasilíu í undanúrslitum. Menn ráku upp stór augu þegar leikskýrslur voru opinberaðar. Þjálfari Brasilíu, Adhemar Pimenta, ákvað að hvíla tvo lykilmenn sína; markahæsta mann mótsins, Leonidas, og sóknarmanninn Tim. Ætlaði hann að hafa þá 100% klára í úrslitaleikinn. Brasilía tapaði fyrir Ítalíu 1-2.
Ungverjaland vann öruggan sigur gegn Svíþjóð 5-1 í hinum undanúrslitaleiknum. Fyrir úrslitaleikinn var Dr. Dietz rekinn sem þjálfari liðsins eftir að fjölmiðlar gagnrýndu liðsval hans. Málið vakti mikla athygli en Alfréd Schaffer stýrði Ungverjalanadi í úrslitaleiknum.
Úrslitaleikur: Ítalía 4 - 2 Ungverjaland
1-0 Gino Colaussi ('6)
1-1 Pál Titkos ('8)
2-1 Silvio Piola ('16)
3-1 Gino Colaussi ('35)
3-2 György Sárosi ('72)
4-2 Silvio Piola ('82)
Colaussi varð fyrstur til að skora tvö mörk í úrslitaleik. Vittorio Pozzo varð fyrsti þjálfarinn til að stýra liði tvívegis til sigurs á HM. Guiseppe Meazza og Giovanni Ferrari urðu fyrstir til að fagna heimsmeistaratitli tvisvar en þeir voru þeir einu frá sigurliðinu 1934 sem léku í Frakklandi.
„Þetta var einn ánægjulegasti dagur í lífi mínu. Ég bjargaði lífi ellefu manna," sagði Antal Szabo, markvörður Ungverja eftir leikinn. Sagt var að ítalski hópurinn hefði fengið skeyti frá Róm fyrir leikinn þar sem stóð: „Vinnið eða deyið".
Leikmaðurinn: Silvio Piola
Hetja Ítalíu í keppninni. Skoraði sigurmarkið gegn Noregi, tvö mörk gegn Frökkum og tvö mörk í úrslitakeppninni. Piola er þriðji markahæsti leikmaður ítalska landsliðsins frá upphafi en hann lék meðal annars fyrir Lazio og Juventus.
Markakóngurinn: Leonidas
Kallaður „Svarti demanturinn" og "Gúmmíkallinn" vegna liðleika hans. Talað er um að hann hafi fundið upp á hjólhestaspyrnunni. Hann skoraði alls 21 mark í 19 landsleikjum fyrir Brasilíu. Sú ákvörðun að hvíla hann í undanúrslitunum 1938 reyndist dýrkeypt. Ein undarlegasta þjálfaraákvörðun í sögu HM. Leonidas var markakóngur og valinn besti maður mótsins.
Leikvangurinn: Stade Olympique de Colombes
Var fyrst opnaður 1907 í París og var stærsti leikvangur Frakklands þar til Parc des Princes var tekinn í notkun 1972. Var Ólympíuleikvangurinn 1924. Hefur gengið í gegnum miklar endurbætur og er enn notaður í fótbolta og ruðningi. Alls mættu 45 þúsund áhorfendur á úrslitaleik HM 1938.
Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
Markaveisla frá mótinu 1938:
Heimild: Bókin 60 ára saga HM í knattspyrnu eftir Sigmund Ó. Steinarsson og ýmsar vefsíður
Athugasemdir