Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   sun 30. október 2022 07:15
Elvar Geir Magnússon
21 dagur í HM - HM í Úrúgvæ 1930
Draumurinn varð að veruleika
Jules Rimet forseti FIFA lætur verðlaunagripinn í hendur formanns úrúgvæska knattspyrnusambandsins.
Jules Rimet forseti FIFA lætur verðlaunagripinn í hendur formanns úrúgvæska knattspyrnusambandsins.
Mynd: Getty Images
Belgíski dómarinn var í sínu fínasta pússi í úrslitaleiknum.
Belgíski dómarinn var í sínu fínasta pússi í úrslitaleiknum.
Mynd: Getty Images
Einhenta hetjan Hector Castro átti stórleik í úrslitaleiknum.
Einhenta hetjan Hector Castro átti stórleik í úrslitaleiknum.
Mynd: Getty Images
Fyrstu Heimsmeistararnir.
Fyrstu Heimsmeistararnir.
Mynd: Getty Images
Estadio Centenario. Leikvangurinn þar sem fyrsti úrslitaleikur HM fór fram.
Estadio Centenario. Leikvangurinn þar sem fyrsti úrslitaleikur HM fór fram.
Mynd: Getty Images
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, ætlar Fótbolti.net að rifja upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.

Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.

Við byrjum að sjálfsögðu á því að fjalla um fyrsta Heimsmeistaramótið en það var 1930 í Úrúgvæ.



HM í Úrúgvæ 1930
Þegar FIFA, alþjóða knattspyrnusambandið, var stofnað 1904 kom upp sú hugmynd að halda heimsmeistaramót í fótbolta. 26 ár tók að láta drauminn rætast en þar sem Úrúgvæ var ríkjandi Ólympíumeistari var ákveðið að halda fyrsta mótið þar og fóru allir leikir mótsins fram í höfuðborginni Montevideo.

Tveggja vikna skipsferð
Aðildarfélögum FIFA var boðið að taka þátt og voru þrettán þjóðir sem mættu til leiks, léku þau í fjórum riðlum áður en komið var að undanúrslitum. Evrópuþjóðirnar voru í fýlu yfir því að mótið færi fram í Úrúgvæ og stefndi í að ekkert lið frá álfunni myndi mæta til leiks.

Ítalía og Þýskaland, þá bestu lið Evrópu, mættu ekki en Rúmenar, Frakkar og Belgíumenn tóku sig saman og fóru á skipi frá Evrópu. Skipið kom við í Brasilíu þar sem Brasilíumenn stukku um borð. Skipsferðin tók tvær vikur og æfðu menn um borð í skipinu. Júgóslavía tóku einnig þátt í mótinu.

300 áhorfendur sáu fyrsta rauða spjaldið
Fyrstur til að skora á HM var Frakkinn Lucien Lauren, það gerði hann í 4-1 sigri gegn Mexíkó. Frakkar léku lengst af með útispilara í markinu í þeim leik þar sem markvörðurinn meiddist og ekki voru notaðir varamenn á þessum tíma.

Fyrstur til að fá brottvísun á HM var Mario de Las Casas, fyrirliði Perú, í leik gegn Rúmeníu. Perú vann leikinn 3-1 fyrir framan 300 áhorfendur en aldrei hafa færri áhorfendur verið á leik í sögu mótsins.

Flaska með klóróformi brotnaði í mótmælum
Argentínumaðurinn Guillermio Stabile, var fyrstur til að skora þrennu á HM. Hún kom í skrautlegum leik gegn Mexíkó. Fimm vítaspyrnur voru dæmdar í leiknum og klúðruðu Argentínumenn þremur af þeim en unnu samt 6-3.

Argentína komst í undanúrslit og vann öruggan 6-1 sigur gegn Bandaríkjunum. Læknir bandaríska liðsins var ósáttur við dómgæsluna og mótmælti með því að kasta sjúkratösku sinni inn á völlinn. Flaska með klóróformi brotnaði og læknirinn veiktist svo styðja þurfti við hann til að koma honum af vellinum. Hinn undanúrslitaleikurinn fór einnig 6-1. Úrúgvæ vann Júgóslavíu.

Úrslitaleikur: Úrúgvæ 4 - 2 Argentína
1-0 Pablo Dorado ('12)
1-1 Carlos Peucelle ('20)
1-2 Guillermo Stábile ('37)
2-2 Pedro Cea ('57)
3-2 Santos Iriarte ('68)
4-2 Héctor Castro ('89)

Það var mikil stemning fyrir nágrannaslagnum í úrslitum. Heimamenn unnu 4-2 sigur og í kjölfarið var slegið upp þjóðhátíð í landinu í marga daga. Tveimur mánuðum fyrir mótið fóru leikmenn Úrúgvæ í hálfgerðar fangabúðir og það skilaði sér.

Mikil spenna var í kringum leikinn og voru leikmenn beggja liða undir lögregluvernd fyrir leikinn. Deilt var um með hvaða bolta átti að leika og var það leyst með því að leika með bolta Argentínumanna í fyrri hálfleik en bolta Úrúgvæja í þeim síðari.

John Langenus frá Belgíu dæmdi leikinn. Hann fékk fylgd lífvarða og dulbjó sig þegar hann yfirgaf leikvanginn, með röndótt bindi og dádýrahúfu á höfðinu.

Leikmaðurinn: Hinn einhenti Héctor Castro
Castro átti stórleik í úrslitaleiknum og skoraði síðasta markið með þrumuskoti upp í þaknetið. Hann hafði þá þegar afrekað að skora fyrsta markið á Estadio Centenario, leikvangnum sem úrslitaleikurinn fór fram á. Castro gekk undir nafninu El manco eða sá einhenti eftir að hafa misst aðra höndina í rafmagnssög þegar hann var þrettán ára gamall. Í heimalandinu var hann sigursæll leikmaður og síðar sigursæll þjálfari áður en hann lést vegna hjartaáfalls 55 ára gamall.

Markakóngurinn: Guillermo Stábile
Argentínumaðurinn skoraði átta mörk á mótinu og var þar með fyrsti markakóngur HM. Genoa á Ítalíu fékk hann til sín eftir keppnina og síðar átti hann eftir að þjálfa Agentínu og stýra liðinu til sigurs í Suður-Ameríkukeppninni.

Leikvangurinn: Estadio Centenario
Tók 100 þúsund áhorfendur en aðeins 90 þúsund miðar voru seldir á úrslitaleikinn af öryggisástæðum. Það tók aðeins átta mánuði að byggja þennan leikvang en hann var sérstaklega reistur fyrir mótið. Hann var þó ekki alveg tilbúinn fyrir fyrstu leikina sem fóru því fram á öðrum völlum í borginni. Völlurinn stendur enn og spilar Penarol heimaleiki sína á honum auk þess sem hann hefur verið notaður fyrir tónleika.

Svipmyndir frá mótinu


Heimild: Bókin 60 ára saga HM í knattspyrnu eftir Sigmund Ó. Steinarsson og ýmsar vefsíður
Athugasemdir
banner
banner