Tveir miðverðir orðaðir við Liverpool - Graham Potter næsti landsliðsþjálfari Englands? - Arsenal líklegast til að fá Merino - Man City vill fá...
banner
   þri 08. nóvember 2022 07:00
Elvar Geir Magnússon
12 dagar í HM - HM í Vestur-Þýskalandi 1974
Keisarinn gegn Hollendingnum fljúgandi
Keisarinn með verðlaunagripinn.
Keisarinn með verðlaunagripinn.
Mynd: Getty Images
Maður mótsins. Johan Cruyff.
Maður mótsins. Johan Cruyff.
Mynd: Getty Images
Frá úrslitaleiknum í München.
Frá úrslitaleiknum í München.
Mynd: Getty Images
Heimsmeistararnir.
Heimsmeistararnir.
Mynd: Getty Images
Holland tekur forystuna í úrslitaleiknum.
Holland tekur forystuna í úrslitaleiknum.
Mynd: Getty Images
Gerd Müller og Paul Breitner.
Gerd Müller og Paul Breitner.
Mynd: Getty Images
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.

Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.HM í V-Þýskalandi 1974
Keppt var um nýja FIFA-verðlaunagripinn í fyrsta sinn í V-Þýskalandi 1974. Mótið fór fram í níu borgum; Stuttgart, Hannovr, Dusseldorf, Gelsenkirken, V-Berlín, Frankfurt, Hamborg, Dortmund og auðvitað München þar sem úrslitaleikurinn fór fram.

Austrið vann vestrið
Á þessu móti var leikið í tveimur milliriðlum eftir riðlakeppnina og sigurvegararnir úr þeim léku svo til úrslita.

Sögulegur leikur var í riðlakeppninni þegar V-Þýskaland og A-Þýskaland mættust í fyrsta skipti í sögunni í landsleik. Leikið var í Hamborg þar sem A-Þjóðverjar unnu 1-0 með marki Jürgen Sparwaser. Ljóst var fyrir leikinn að sigurvegararnir myndu leika gegn Hollandi, Argentínu og Brasilíu og fóru sögusagnir af stað um að V-Þýskaland hefði tapað viljandi.

Skotland fór heim eftir riðlakeppnina þrátt fyrir að tapa ekki leik. Þeir voru með verra markahlutfall en Brasilía og Júgóslavía og sátu eftir. Nágrannar þeirra í Englandi komust ekki einu sinni á mótið þar sem þeir voru slegnir út af Pólverjum í undankeppninni.

Í fyrsta sinn var notast við lyfjapróf á HM og tveir leikmenn úr hvoru liði prófaðir á hverjum leik. Enst Jean-Joseph leikmaður féll á sínu prófi og var sendur heim.

Pele vildi ekki vera með
Í milliriðli A stóð baráttan milli Hollands og Brasilíu um sigur. Liðin mættust í Dortmund í leik sem var lítið fyrir augað. Áhorfendur gátu þó glaðst yfir mörkum Johann Neeskens og Johan Cruyff í 2-0 sigri hollenska liðsins.

Pele var 33 ára þegar keppnin fór fram en hann ákvað að gefa ekki kost á sér og var sárt saknað. Hann mætti þó til V-Þýskalands á mótið og tók þátt í setningarhátíðinni.

Í milliriðli B voru það V-Þjóðverjar og Pólverjar sem börðust um að komast í úrslitaleikinn, Pólska liðið fékk fleiri færi í leiknum en markvörður þeirra varði vítaspyrnu frá Uli Höness. Gerd Müller reyndist hetja þýska liðsins þegar hann skoraði eina markið á 76. mínútu.

Úrslitaleikur: V-Þýskaland 2 - 1 Holland
0-1 Johan Neeskens (víti '2)
1-1 Paul Breitner (víti '25)
2-1 Gerd Müller ('43)

Tæplega 80 þúsund manns voru mættir á Ólympíuleikvanginn í München til að sjá úrslitaleik V-Þjóðverja og Hollendinga. Fyrir mótið var talað um einvígi keisarans Franz Beckenbaer og Hollendingsins fljúgandi Johan Cruyff. Mótið bauð því upp á draumaúrslitaleik.

Áhorfendur voru enn að koma sér fyrir þegar Uli Höness braut af sér og vítaspyrna var dæmd. Heimamenn höfðu ekki snert knöttinn og Holland komið yfir. En V-Þýskaland fékk líka víti og jafnaði í 1-1.

Sigurmarkið kom á markamínútunni miklu, 43. mínútu, og það skoraði markahrókurinn Gerd Müller efttir sendingu Rainer Bonhof.

Franz Beckenbauer átti frábæran úrslitaleik og var allstaðar á vellinum. Hann tók við nýja verðlaunagripnum í leikslok og þótti það viðeigandi þar sem hann fæddist aðeins fimm kílómetrum frá Ólympíuleikvangnum í München.

Leikmaðurinn: Johan Cruyff
Hollendingurinn Johan Cruyff fékk gullknöttinn fyrir að vera besti leikmaður mótsins. Hann var reyndar í strangri gæslu Berti Vogts í úrslitaleiknum og náði þá ekki að láta ljós sitt skína. Cruyff hafði ótrúlegt auga fyrir spili og hlaut Ballon d'Or verðlaunin þrívegis á ferlinum. Hann var valinn í úrvalslið allra Heimsmeistaramóta. Á ferlinum lék hann 48 landsleiki og skoraði 33 mörk en hann lék fyrir Ajax og Barcelona.

Markahrókurinn: Grzegorz Lato
Pólverjinn Lato hlaut gullskóinn með því að skora sjö mörk á mótinu. Pólland vann Brasilíu 1-0 í bronsleiknum. Stærstan hluta ferilsins lék Lato fyrir Stal Mielec í heimalandinu og er talað um hann sem vanmetnasta leikmann í sögu fótboltans í Evrópu. Eftir að ferlinum lauk var hann forseti pólska knattspyrnusambandsins um tíma.

Leikvangurinn: Ólympíuleikvangurinn í München
Leikvangur sem byggður var fyrir Ólympíuleikana 1972. Hann var heimavöllur Bayern München þar til Allianz Arena var byggður fyrir HM 2006. Ólympíuleikvangurinn var byggður í sprengigíg sem varð til í seinni heimsstyrjöldinni og hjálpaði það til við framkvæmdina. Í dag er leikvangurinn notaður fyrir íþróttir af ýmsu tagi, þar á meðal skíðaíþróttir og kappakstur.

Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954
HM í Svíþjóð 1958
HM í Síle 1962
HM á Englandi 1966
HM í Mexíkó 1970

Frá úrslitaleiknum 1974:


Heimild: Bókin 60 ára saga HM í knattspyrnu eftir Sigmund Ó. Steinarsson og ýmsar vefsíður
Athugasemdir
banner
banner