Mark eða ekki mark?
HM 1966 var eitt fyrsta íþróttamót heims með lukkudýr. Lukkuljónið fær sér hér te með leikmönnum V-Þýskalands.
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.
Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.
HM á Englandi 1966
Þegar HM fór fram á Englandi var keppnin að þróast í þá átt sem hún er orðin í dag. Fjölmiðlaumfjöllun var orðin miklu meiri og augu heimsbyggðarinnar beindust að Englandi. Margar stjörnur fæddust á mótinu, þar á meðal Portúgalinn Eusebio og V-Þjóðverjinn ungi Franz Beckenbauer.
Fótboltamenn í Norður-Kóreu kallaðir í herinn
Afríkuþjóðirnar ákváðu að sniðganga mótið í mótmælaskyni vegna ákvörðunar FIFA um að þær þyrftu að leika umspilsleiki við Asíuþjóðir um sæti á mótinu. Tvær þjóðir tóku þátt í mótinu í fyrsta sinn, önnur þeirra er Norður-Kórea sem lét heldur betur til sín taka.
Norður-Kóreumenn kölluðu 40 bestu fótboltamenn sína upp í herinn fyrir mótið þar sem undirbúningur fór fram. 22 leikmenn voru valdir í lokahópinn, bara ógiftir bindindismenn. Meðalhæð leikmanna liðsins var 1,65 m.
Norður-Kórea kom svo sannarlega á óvart á mótinu. Liðið vann einn fræknasta sigur í sögu HM þegar Ítalía lá í valnum 1-0. Norður-Kórea komst í 8-liða úrslitin, eitthvað sem enginn bjóst við. Þar komst liðið þremur mörkum yfir gegn Portúgal áður en Eusebio tók til sinna ráða, skoraði fjögur mörk og Portúgal vann 5-3.
Dauðanóttin á Ítalíu
Eftir tapið skammarlega gegn Norður-Kóreu var komið að ítalska liðinu að halda heim. Lent var í Genoa að næturlagi og hafði mannfjöldi safnast saman á flugvellinum til þess að kasta úldnum ávöxtum í leikmenn. Heimkoman hefur verið kölluð „Dauðanóttin" á Ítalíu.
Brasilía komst heldur ekki upp úr sínum riðli. Þjálfarinn Vicente Feola varð þjóðhetja þegar hann gerði Brasilíu að meisturum 1958 en breyttist skyndilega í skúrk. Hann fór á taugum eftir tap gegn Ungverjalandi á mótinu og gjörbreytti öllu liðinu. Brasilía lá fyrir Portúgal og sat eftir í riðlinum. Feola gat ekki látið sjá sig í Brasilíu í einhverja mánuði eftir mótið.
Pele sagði eftir mótið að þetta hefði verið hans síðasta HM. Hann var ósáttur við að andstæðingar kæmust upp með að brjóta á sér trekk í trekk. Í tapleiknum gegn Portúgal haltraði Pele um allan völl.
Pissaði fyrir framan klefa Englands
„England verður heimsmeistari," sagði Alf Ramsey þegar hann tók við enska landsliðinu. England mætti Argentínu í 8-liða úrslitum og vann þar 1-0 sigur í leik þar sem allt var á suðupunkti. Antonio Rattín, fyrirliði Argentínu, var rekinn af velli eftir hálftíma leik en neitaði að fara af velli. Það tók ellefu mínútur að koma honum inn í klefa og lögregluaðstoð þurfti til. Eftir leik pissaði leikmaður Argentínu fyrir framan búningsklefa Englands og Ramsey sagði í viðtali að Argentínumenn væru villidýr.
England vann Portúgal í undanúrslitum þar sem Bobby Charlton var hetjan og skoraði bæði mörk Englendinga í 2-1 sigri. Portúgal komst nálægt því að jafna í lokin en Gordon Banks varði meistaralega og Eusebio gekk grátandi af velli.
Vestur-Þjóðverjar unnu Sovétmenn í undanúrslitum 2-1. Beckenbauer skoraði magnað mark í leiknum með þrumuskoti af 25 metra færi. Lukkan var ekki með Sovétmönnum í liði, þeir luku leik níu eftir brottvísun og meiðsli.
Úrslitaleikur: England 4 - 2 Þýskaland (eftir framlengingu)
0-1 Helmut Haller ('12)
1-1 Geoff Hurst ('18)
2-1 Martin Peters ('78)
2-2 Wolfgang Weber ('89)
3-2 Geoff Hurst ('101)
4-2 Geoff Hurst ('120)
Heimamenn unnu sigur í einum sögulegasta og skemmtilegasta úrslitaleik sem fram hefur farið. Þjóðverjar jöfnuðu í 2-2 rétt fyrir lok venjulegs leiktíma og framlengja þurfti leikinn.
Geoff Hurst skoraði þá mark sem enn er deilt um í dag. Skot hans fór í slá og niður, dómarinn dæmdi ekki mark en það gerði línuvörðurinn. Upptökur af markinu hafa svo leitt í ljós að það hefði að öllum líkindum ekki átt að standa. Nokkrir leikmenn Englands sögðu í viðtölum eftir mótið að boltinn hefði ekki farið inn.
Þjóðverjar lögðu allt í að reyna að jafna leikinn eftir markið umdeilda en Hurst refsaði og innsiglaði sigur Englands og þrennu sína í leiknum. Hann varð þar með fyrstur til að skora þrennu í úrslitaleik HM. Eftir mótið sló Elísabet Engladsdrottning Ramsey þjálfara til riddara.
Leikmaðurinn: Bobby Charlton
Miðjumaðurinn Bobby Charlton hjá Manchester United var valinn maður mótsins þó hann hafi lítið látið fyrir sér fara í úrslitaleiknum. Hann og Beckenbauer áttust við í þeim leik og „núlluðu" hvorn annan út. Þessi mikla goðsögn fæddist 1937 og lék 106 landsleiki fyrir England þar sem hann skoraði 49 mörk.
Markakóngurinn: Eusebio
Talinn einn besti leikmaður sögunnar. Eusebio skoraði níu mörk á HM 1966 fyrir Portúgal sem hafnaði í þriðja sætinu. Þetta reyndist eina Heimsmeistaramótið sem hann tók þátt í. Þegar kom að því að kjósa um besta leikmann heims 1966, Ballon d'Or gullknöttinn, lenti Eusebio einu stigi á eftir Bobby Charlton. Portúgalskur blaðamaður setti Charlton númer eitt á sínum lista og fékk hann aldrei viðtal við Eusebio eftir þetta.
Leikvangurinn: Wembley
Leikið var í átta borgum á Englandi en úrslitaleikurinn var að sjálfsögðu á gamla Wembley. Pele hefur sagt völlinn vera kirkju fótboltans í heiminum. Leikur Úrúgvæ og Frakklands í riðlakeppninni gat þó ekki farið fram á Wembley þar sem búið var að leigja völlinn út fyrir hundaveðhlaup. Sá leikur var því færður á White City Stadium.
Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954
HM í Svíþjóð 1958
HM í Síle 1962
Svipmyndir frá úrslitaleiknum:
Heimild: Bókin 60 ára saga HM í knattspyrnu eftir Sigmund Ó. Steinarsson og ýmsar vefsíður
Athugasemdir