Birgir Jóhannsson segir að félögin séu að bíða eftir því að þetta fyrirkomulag komist í gagnið og stefnt sé að því að það gerist sem allra fyrst.
HK, sem dæmi, gæti fengið leikmenn frá félögum í efstu deild og gæti á sama tíma flutt leikmenn í deildirnar fyrir neðan.
Á ársþingi KSÍ 2024 var samþykkt að skipaður yrði starfshópur til að skoða möguleika á rýmri heimildum til tímabundinna félagaskipta yngri leikmanna með það í huga að auka möguleika þeirra leikmanna til þátttöku í leikjum í meistaraflokki karla og kvenna.
Á ársþinginu í síðasta mánuði kynnti svo ÍTF (Íslenskur Toppfótbolti) fyrirkomulagið. Hvert félag getur að hámarki „flutt" fjóra útileikmenn á aldrinum 16-21 árs og einn markmann, að hámarki 23 ára, frá sér eins og því hentar. Hvert félag þarf að staðfesta fyrir lok félagaskiptagluggans hvaða fimm leikmenn verða á listanum og hægt er að gera eina breytingu á þeim lista eftir sumargluggann. Það er ekki krafa á að félög nýti öll fimm mögulegu plássin á listanum.
Á ársþinginu í síðasta mánuði kynnti svo ÍTF (Íslenskur Toppfótbolti) fyrirkomulagið. Hvert félag getur að hámarki „flutt" fjóra útileikmenn á aldrinum 16-21 árs og einn markmann, að hámarki 23 ára, frá sér eins og því hentar. Hvert félag þarf að staðfesta fyrir lok félagaskiptagluggans hvaða fimm leikmenn verða á listanum og hægt er að gera eina breytingu á þeim lista eftir sumargluggann. Það er ekki krafa á að félög nýti öll fimm mögulegu plássin á listanum.
Ekki er um eiginlegt lán að ræða, því leikmaðurinn mætti fara úr félagi A (félag sem leikmaður er samningsbundinn) í félag B (félag í neðri deild sem fær leikmanninn) eins oft og félag A vill. Leikmaðurinn mætti þess vegna spila með liði A annan daginn og svo liði B hinn daginn, án þess að hafa félagaskipti. Umræddur leikmaður mætti líka vera á listanum fyrri hluta tímabils, en fara svo á láni í annað félag seinni hlutann.
Leikmennirnir verða að vera samningsbundnir og ekki er hægt að „flytja" þá innan sömu deildar eða upp um deild. Þeir leikmenn sem eru á listanum þurfa ekki að fara í sama félagið.
Öll félög sem taka þátt í keppnum UEFA á árinu, Breiðablik, Víkingur, Valur og KA karlamegin, og Breiðablik og Valur kvennamegin, mega ekki nýta sér þetta fyrirkomulag. Þau félög geta að sjálfsögðu samt lánað leikmenn frá sér á hefðbundinn hátt.
ÍTF mun hafa umsjón með leikmannalista frá hverju félagi og verður hægt að nálgast listana á heimasíðu samtakanna.
Fótbolti.net ræddi við Birgi Jóhannsson, framkvæmdastjóra ÍTF, um þetta fyrirkomulag. Hann segir að félögin séu að bíða eftir því að þetta fyrirkomulag komist í gagnið sem allra fyrst.
„Við köllum þetta „Flutning afreksleikmanna". Þetta er af norskri og sænskri fyrirmynd, verið þar í nokkur ár. Hver leikmaður má fara í mismunandi félög, ef við köllum þetta félag A þá má félag A „flytja" leikmennina í fimm mismuanndi félög ef því er að skipta. Leikmaðurinn færi í félag B eins og um hefðbundið lán væri að ræða, hann má spila fyrir félag B, en er alltaf skráður í félag A. Félögin geta alltaf flett upp listanum og séð hvar menn eru skráðir," segir Biggi.
„Það hefur stundum verið þannig að bestu ungu leikmennirnir fara ekki á láni frá félögunum því þau meta þá leikmenn of góða og telja sig sjálf mögulega geta nýtt þá, þora ekki að lána þá í burtu. Svo kannski spila þeir bara örlítið með liðunum. Þessir leikmenn eru kannski komnir yfir það stig að spila með 2. flokki og þurfa á meiri meistaraflokksbolta að halda."
„Þetta fyrirkomulag eykur líkurnar á að þessir leikmenn fái að spila meira. Þetta er allt gert með hag leikmannsins í huga. Ef það svo koma upp meiðsli eða leikbönn, þá eru þessir leikmenn áfram til taks fyrir félag A."
„Hugmyndin er þannig að leikmaðurinn yrði á þessu tímabili leikmaður félags B, hann væri þar og æfði þar, en það væri hægt að kalla í hann í neyð yfir í félag A."
„Yfirgnæfandi meirihluti félaganna er að bíða eftir því að þetta fyrirkomulag fari í notkun, einhver félög vildu óska eftir aðeins meiri upplýsingum. Það er von mín að þetta verði afgreitt í þessari viku. Félögin eru öll að lána leikmenn, sá tími er byrjaður, og eru að bíða eftir því að þetta verði formgert. Þá verður hægt að keyra þetta af stað strax. Það er í forgangi hjá okkur að koma þessu í loftið."
„Þetta á bæði við um karla- og kvennadeildirnar. Lengjudeildarfélögin mega t.d. „flytja" leikmenn niður í 2. deild o.s.frv.. En þetta á eingöngu við um leikmenn sem eru með skráðan KSÍ samning."
„Listinn verður aðgengilegur á okkar heimasíðu. Það er flækjustig í þessu að þetta fyrirkomulag samræmist ekki reglugerð FIFA. FIFA gefur út keppnisreglur og félagaskiptareglur sem gilda um öll samböndin. Þetta fyrirkomulag gerir það ekki þar sem leikmaðurinn gerir ekki félagaskipti. Svíar og Norðmenn hafa gert þetta til fjölda ára og í nánu samstarfi við sitt knattspyrnusamband. Þeirra regluverk er til að mynda aðgengilegt á heimasíðu sambandsins og þar af leiðandi eitthvað sem UEFA og FIFA hljóta að hafa einhverja vitneskju um. Það hefur verið litið framhjá því þar sem þetta er fyrirhugað fyrir þróun ungra leikmanna og eingöngu gert og hugsað fyrir leikmennina. Við munum vinna þetta í samstarfi með KSÍ en listinn verður aðgengilegur hjá okkur."
Af hverju eru þetta fjórir útileikmenn og einn markmaður, af hverju eru einhver takmörk á fjöldanum?
„Við erum að prófa þetta, prófum þetta í eitt ár. Svíar og Norðmenn lána fleiri en við viljum byrja svona. Við viljum ekki taka yfir hefðbundin lán hjá félögunum, hefðbundin lán munu ekki hætta," segir Biggi.
Athugasemdir