Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 11. maí 2022 20:14
Ívan Guðjón Baldursson
Danmörk: Ísak með bæði mörkin í mikilvægum sigri
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ísak Bergmann Jóhannesson hefur ekki fengið mikinn spiltíma með FC Kaupmannahöfn upp á síðkastið en í dag var komið að tækifærinu. 


Ísak var í byrjunarliðinu í mikilvægum leik gegn Silkeborg í dag þar sem Kaupmannahöfn þurfti sigur í titilbaráttunni. Ísak byrjaði á hægri kanti, við hlið Hákons Arnars Haraldssonar sem var fremsti sóknarmaður.

Silkeborg hafði unnið sex deildarleiki í röð, þar á meðal var 3-1 sigur gegn FCK, fyrir leikinn í dag á meðan FCK var aðeins með tvö stig úr síðustu þremur leikjum sínum.

Ákvörðun Jess Thorup að byrja með Ísak á kantinum átti heldur betur eftir að borga sig því hann skoraði fyrstu tvö mörkin í þessum mikilvæga slag.

Hann var snöggur að koma FCK yfir og skoraði eftir aðeins tvær mínútur, sænski landsliðsmaðurinn Viktor Claesson átti stoðsendinguna. FCK var betri aðilinn í fyrri hálfleik en gestirnir voru betri eftir leikhléð. Stefán Teitur Þórðarson kom inn í lið Silkeborg í hálfleik og átti flottan leik.

Ísak tvöfaldaði forystuna í síðari hálfleik eftir stoðsendingu frá Peter Ankersen, landsliðmanni Dana, og var skipt útaf á 68. mínútu. Skömmu síðar náðu gestirnir að minnka muninn.

Nær komst Silkeborg þó ekki og tryggði tvenna Ísaks þrjú dýrmæt stig til Kaupmannahafnar. Hákon Arnar spilaði í 85 mínútur.

Kaupmannahöfn er á toppi dönsku deildarinnar með fjögurra stiga forystu á Midtjylland sem á leik til góða.

Kaupmannahöfn 2 - 1 Silkeborg
1-0 Ísak Bergmann Jóhannesson ('2)
2-0 Ísak Bergmann Jóhannesson ('59)
2-1 Sören Tengstedt ('74)

Ísak var ekki eini Íslendingurinn sem kom við sögu í dönsku toppbaráttunni í dag því Guðmundur Þórarinsson spilaði fyrsta klukkutímann í fjörugu jafntefli AaB gegn Randers.

Gummi og félagar frá Álaborg komust yfir í fyrri hálfleik en misstu forystuna niður eftir leikhlé. 

Það var mikil spenna í síðari hálfleik og eftir að Gumma var skipt útaf misstu heimamenn í Randers mann af velli og gerði Iver Fossum jöfnunarmark skömmu síðar.

AaB var óheppið að krækja ekki í sigurinn á lokakaflanum gegn tíu leikmönnum Randers en lokatölur urðu 2-2. 

Liðin eru að berjast um sæti í Sambandsdeildinni í haust. Álaborg situr í sætinu með tveggja stiga forystu þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.

Randers 2 - 2 AaB
0-1 M. Makaric ('18)
1-1 T. Kehinde ('48)
2-1 B. Johnsen ('58)
2-2 I. Fossum ('70)
Rautt spjald: S. Graves, Randers ('65)


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner