„Ég er feginn að fá þrjú stigin, það er alltaf gott. Núna erum við búnir að setja saman tvo sigra eftir að hafa ekki unnið þrjá fyrir það. Það er alltaf gott að ná í þessi þrjú stig.“ sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkinga, eftir 3-1 sigur á FH í kvöld.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 1 FH
„Við erum komnir aftur á toppinn en það er hellingur eftir. Við ætlum að halda áfram að gera betur. Við stjórnuðum þessum leik allt í lagi og vorum meira með boltann en þeir. En mér fannst við geta verið aðeins meira klínískri þegar við komum upp að teig andstæðinganna. Það vantaði oft upp á síðústu sendinguna, það var lítið um færi hjá okkur, það er eitthvað sem við getum bætt okkur í.“
Víkingar fóru í gegnum tvö erfið töp gegn Aftureldingu og ÍBV í upphafi móts í deild og bikar en hafa verið mjög flottir eftir þá leiki, Sölvi sér bætingu á Víkingsliðinu milli leikja.
„Við reynum alltaf að bæta okkur á milli leikja. Við skoðum hvar við þurfum að bæta okkur og það er klárt mál að það voru nokkrir hlutir eftir ÍBV sem við þurftum að fara yfir og sömuleiðis Aftureldingu. Það er ekkert óeðlilegt þegar það eru þjálfaraskipti, mikið um meiðsli og nýir leikmenn að koma inn í þetta, þá er það ekkert óeðlilegt. Við lærum af þessu og höldum áfram að þróa okkar leik.“
Nýi leikmaður Víkinga, Ali Basem Almosawe, er að heilla Sölva fyrstu dagana hans í Fossvoginum.
„Hann er að koma flott inn í þetta hjá okkur. Það tekur tíma að komast inn í kerfið okkar, hann fékk fleiri mínútur í kvöld en hann fékk í seinasta leik. Vonandi heldur þetta áfram að vera jákvæð þróun. Þetta er spennandi leikmaður sem við þurfum að koma meira inn í hlutina.“
Víkingar skora seinustu tvö mörkin sín upp úr góðum pressum.
„Þetta var góð pressa, við vissum að FH vildu spila út með þriðja manninn þannig við breyttum aðeins í fyrri hálfleik að fara aðeins stífara í pressuna á þeim og það skilaði tveimur mörkum.“
Ingvar Jónsson, markvörður Víkinga, var ekki í hóp í dag en styttist eitthvað í hans komu?
„Það ætti að styttast í hann ég held að þetta sé ekki alvarlegt. Síðan veit maður ekki, það gæti lengst eitthvað í þetta en þetta á ekki að vera slæmt.“
Viðtalið við Sölva má finna í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir