Sunnudaginn 6.september síðastliðinn skráði íslenska karlalandsliðið sig í sögubækurnar með því að tryggja sér sæti á stórmóti í fyrsta skipti. Það að tryggja sig af öryggi inn á EM skrifast sem stærsta afrekið í íslenskri íþróttasögu að mínu mati. Allar þjóðir Evrópu taka þátt í undankeppninni og hjá þeim langflestum er iðkendafjöldinn margfaldur á við Ísland. Afrekið er því magnað. Stemningin í kringum íslenska landsliðið hefur verið stigvaxandi undanfarin ár og mun ná hápunkti í Frakklandi í júní á næsta ári þegar lokakeppnin sjálf fer fram. Mörg þúsund Íslendingar ætla þá til Frakklands að sjá strákana okkar keppa við bestu lið álfunnar á stóra sviðinu. Fólk úr öllum áttum í íslenska fótboltasamfélaginu mun skella sér til Frakklands til að fylgjast með þessum sögulega viðburði. Dómarar, leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn, stuðningsmenn, vallarstjórar, sjúkraþjálfarar, starfsfólk, boltasækjarar...og svo mætti lengi telja. Þetta mun að sjálfsögðu hafa áhrif á Íslandsmótið en KSÍ hefur þrátt fyrir allt ekki ennþá gefið neitt út um hvernig fyrirkomulaginu verður háttað á Íslandi næsta sumar.
Það líður ekki sá dagur að ég lendi ekki á spjalli við fólk sem er að velta fyrir sér hvort það verði ekki örugglega gert frí á Íslandsmótinu í tólf daga í kringum EM, enda virðist almannaálit vera að það sé eina vitið. Ég ræð engu um það en ég vona svo sannarlega að KSÍ hugsi um fótboltasamfélagið á Íslandi í heild og geri hlé á mótinu þannig að allir sem vilja geti farið út til Frakklands og séð að minnsta kosti einn leik með íslenska liðinu. Þarna er ég að tala um algjört hlé í öllum deildum og öllum flokkum, íslenskur fótbolti verði í fríi frá 10-22. júní (ca, fer eftir leikdögum) til að hægt verði að fylgjast með íslenska landsliðinu spila.
Þetta mun ekki hafa stórvægilegar breytingar í för með sér á Íslandsmótinu. Mótið sem slíkt heldur sér alveg. Leikirnir verða að sjálfsögðu áfram 22 hjá hverju liði í efstu deildum karla og 18 í efstu deild kvenna. Það eina sem þarf að gera er að gera smávægilegar breytingar á leikjaniðurröðun, bara í þetta eina skipti. Leikjaniðurröðun á Íslandsmótinu breytist nánast ekkert frá ári til árs en árið 2016 er einstakt í íslenskri knattspyrnusögu. Því skora ég á KSÍ að gera hlé á mótinu á meðan á riðlakeppni EM stendur. Þó að ég hafi fulla trú á að íslenska liðið fari lengra í keppninni þá er skiljanlegt að ekki sé hægt að gera ráð fyrir lengra hlé en í þá tólf daga sem riðlakeppnin fer fram.
Ef að KSÍ gerir ekki hlé og spilað verður í Íslandsmótinu á meðan EM er í gangi er ljóst að aðsókn á þá leiki verður mun minni en venjulega, fjölmiðlaumfjöllun um leikina verður ekki í sama klassa og starfsfólk í kringum liðin og jafnvel leikmenn verða fjarri góðu gamni. Ég get einfaldlega ekki séð hvernig íslenskur fótbolti hagnast á því. Í 4. deild hef ég heyrt dæmi um nánast heilu liðin sem ætla að skella sér á EM. Eiga þau að gefa leiki á Íslandsmótinu af því að leikmenn vilja fara út styðja íslenska landsliðið? Vonandi ekki.
Í Pepsi-deild karla var gert tveggja vikna hlé á mótinu í kringum EM U21 árs landsliða árið 2011 og þvi er búið að sýna fram á að auðveldlega sé hægt að gera hlé í júní þar og finna lausnir á því. Í öðrum deildum er ljóst að færa þyrfti eina til tvær umferðir til ef hlé yrði gert á mótinu í kringum EM. Hafandi spilað í neðri deildunum í mörg ár þá get ég vottað að leikjaálag er ekki eitthvað sem menn hafa kvartað yfir hingað til. Að færa eina eða tvær umferðir í aðra mánuði yfir sumartímann er eitthvað sem ætti að vera leikur einn í öllum deildum. Þá er einnig hægt að hefja mótið viku fyrr, bara í þetta eina skipti.
Í yngri flokkunum er búið að innleiða sumarfrí í júlí og hægt er að færa það fram í júní , bara í þetta eina skipti. Það hentar vel fyrir marga því að reikna má með Frakkland verði vinsælasti staðurinn til að fara í sumarfrí næsta sumar.
Íslenska landsliðið á það skilið að allra augu beinist að því á meðan á EM stendur og KSÍ getur ýtt ennþá frekar undir áhugann á landsliðinu með því að gefa því alveg sviðið í júní. Vonandi komast sem allra flestir Íslendingar út til Frakklands á leik næsta sumar en þeir sem eiga ekki kost á því geta fylgst með af athygli heima, án þess að lenda í árekstri við leiki á Íslandsmótinu.
Áfram Ísland!
Athugasemdir