Darri Bergmann Gylfason var í gær kynntur sem nýr leikmaður Stjörnunnar en markmaðurinn kemur til félagsins frá Augnabliki.
Augnablik er venslafélag Breiðabliks og samkvæmt heimildum Fótbolta.net hafði Breiðablik áhuga á því að fá Darra í aðalliðið sitt, en hann eltir þjálfarann, Hrannar Boga Jónsson, og fer í Garðabæ.
Augnablik er venslafélag Breiðabliks og samkvæmt heimildum Fótbolta.net hafði Breiðablik áhuga á því að fá Darra í aðalliðið sitt, en hann eltir þjálfarann, Hrannar Boga Jónsson, og fer í Garðabæ.
„Ég er mjög ánægður að vera mættur í Stjörnuna og er gríðarlega spenntur fyrir komandi tímum," segir Darri sem er 24 ára uppalinn Bliki sem hefur staðið vaktina hjá Augnabliki síðustu fjögur tímabil.
„Stjarnan er frábært lið sem ætlar sér stóra hluti, mikið af flottum ungum leikmönnum í bland við marga frábæra reynslumikla leikmenn."
„Ég var að ræða við önnur félög sem höfðu áhuga, Hrannar heyrði svo í mér því þeir voru í leit að markmanni. Ég fór og ræddi við þá og leist mjög vel markmið þeirra og framtíðarplön."
Stjarnan var í markmannsleit eftir að Aron Dagur Birnuson var lánaður til Þróttar.
Hrannar Bogi hefur þjálfað Augnablik undanfarin ár en var í vetur ráðinn aðstoðarþjálfari Stjörnunnar. Þar er Jökull Elísabetarson við stýrið en hann er líka fyrrum þjálfari Augnabliks.
„Jökull og Hrannar eru að sjálfsögðu stór partur af því að mig langaði að koma í Stjörnuna. Jökull var sá sem fékk mig upphaflega í Augnablik og ég hef verið með Hrannar sem þjálfara síðan hann fór yfir. Þeir eru báðir frábærir þjálfarar sem ég hef mikla trú á."
„Ég æfði með Stjörnunni veturinn 2022 og kynntist mörgum af strákunum og umgjörðinni í kringum klúbbinn á þeim tíma."
Erfitt að fara frá Augnabliki
„Að sjálfsögðu er það erfitt að fara. Ég hef verið í Augnablik í fimm ár og mun sá tími alltaf vera mér mjög dýrmætur. Við stefndum á það að fara upp í ár, mættum vel undirbúnir og byrjuðum virkilega vel, vorum taplausir eftir fyrri hlutann. Við enduðum þremur stigum frá öðru sæti sem var virkilega svekkjandi, þar sem við klúðruðum þessu eiginlega á nokkrum klaufalegum jafnteflum."
Darri var valinn besti leikmaður Augnabliks tímabilið 2022 sem var hans fyrsta heila tímabil í meistaraflokki.
Makmannsþjálfari í hæsta gæðaflokki og frábær markmaður
Hver eru markmiðin með Stjörnunni?
„Markmið félagsins er að sjálfsögðu að berjast um titla og komast eins langt og hægt er í Evrópu."
„Mín persónulegu markmið eru að halda áfram að bæta og þróa minn leik og veita Árna (Snæ Ólafssyni) samkeppni um markmannsstöðuna. Stjarnan eru með markmannsþjálfara í hæsta gæða flokki í Rajko (Stanisic) og frábæran markvörð í Árna sem ég tel mig geta lært mikið af," segir Darri.
Athugasemdir


