Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   sun 12. júní 2022 20:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Erum að hjálpa Sádí-Arabíu í hvítþvættinum - „Er ekki allt í lagi?"
Íslenska landsliðið mun mæta Sádí-Arabíu í nóvember.
Íslenska landsliðið mun mæta Sádí-Arabíu í nóvember.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jamal Khashoggi og unnusta hans, Hatice Cengiz.
Jamal Khashoggi og unnusta hans, Hatice Cengiz.
Mynd: Hatice Cengiz / Google
Úr landsleik hjá Sádí-Arabíu á HM 2018.
Úr landsleik hjá Sádí-Arabíu á HM 2018.
Mynd: Getty Images
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, og Borghildur Sigurðardóttir, sem situr í stjórn sambandsins.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, og Borghildur Sigurðardóttir, sem situr í stjórn sambandsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við sem þjóð erum að fara að taka þátt í einhverjum mesta íþrótta hvítþvotti heims," sagði Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær.

Þannig er mál með vexti að KSÍ er búið að samþykkja að spila landsleik við Sádí-Arabíu í Abú Dabí í nóvember.

Við neituðum að spila við Rússland fyrr á þessu ári vegna innrásar þeirra inn í Úkraínu, en af einhverri ástæðu var það samþykkt að við skyldum leika vináttulandsleik gegn Sádí-Arabíu, þjóð sem er þekkt fyrir það að þykja ekkert sérlega vænt um mannréttindi.

„Er ekki allt í lagi eða?"

„Ég veit ekki hvar maður á að byrja með þetta. Ef ég væri KSÍ og ef ég hefði fengið boð um að spila á móti Sádí-Arabíu í dag, þá annað hvort svararðu ekki póstinum eða segir bara nei. Þetta er 'basically' versta þjóð heims í dag. Mannréttindi eru ekki til þarna, þau koma verr fram við konur en hunda. Þetta eru menn sem stunda aflimanir svona á föstudögum," sagði Tómas.

„Hefur fólk í KSÍ aldrei séð sjónvarpsþátt eða lesið blað? Hvað er í gangi?"

Árið 2018 var blaðamaðurinn Jamal Khashoggi myrtur út af skipun frá stjórnvöldum í Sádí-Arabíu. „Hann var bútaður niður því þeim leist ekki nægilega vel á hann."

„Vanda Sigurgeirsdóttir mætir þarna inn og tekur á mesta vandamálinu sem var þessi kynferðisbrot og það sem var í gangi. Hún gerði það listavel; stöndum með þolendum, tökum þetta regluverk og gerum þetta almennilega. Svo snýr hún sér við og segir að KSÍ styður ekki við kvenréttindi því hún ætlar að fara að spila við Sádí-Arabíu," segir Tómas og bendir á að þessi þjóð sé mikið í því að stunda svokallað 'sportwashing' þar sem er reynt að bæta orðspor með einhvers konar þáttöku í íþróttum.

„Mér var sagt að okkur vantaði einhvern leik til að spila út af sjónvarps samningi og það var í boði langt ferðalag á móti óspennandi mótherjum. En svo hafi Sádí-Arabía komið og boðist til að borga allan brúsann. Ef við viljum fara til Sádí-Arabíu og spila við þessa konunga mannréttindabrota í dag af því að það kostar ekki neitt og við verðum að uppfylla samning - og við höfum ekki peninga til að eyða í þetta - þá þarf bara að segja það. Að við ætlum að leggja hér gildin okkar hvað varðar almenn mannréttindi - sem ég hélt að væru einhver - til hliðar því við höfum ekki efni á að spila við eitthvað annað en Sádí-Arabíu."

„Ég hugsaði líka að með Vöndu sem formann að þetta væri einmitt eitthvað sem hún væri að standa sem sterkust í," sagði Elvar Geir Magnússon.

„Ég er sammála þér. Ég hélt frekar að hún myndi hlæja að þessu og senda til baka 'nei takk'. Mér finnst þetta ótrúlegt. Af hverju heldurðu að Ísland sé líka að mæta þarna? Hvar er Ísland númer eitt eða tvö í heiminum? Jú í jafnrétti. Hvað er þá betra í þessum hvítþætti sem Sádí-Arabía er að stunda en að spila við jafnréttisþjóð á meðan þeir eru með konurnar sínar faldar á bak við luktar dyr? Þeir eru bara að reyna að hvítþvo sig fyrir heiminum," sagði Tómas.

Hvað er Vanda búin að segja?
Vanda, formaður KSÍ, er búin að tjá sig um málið. Hún ræddi við fréttastofu RÚV í síðustu viku.

„Þeir höfðu samband og óskuðu eftir leik. Þeir eru að undirbúa sig fyrir HM í Katar," sagði Vanda. „Ég skil alveg spurningarnar. En við höfum trú á að samtalið og samræðan geti skilað ennþá meiri árangri. Að nota fótboltann sem verkfæri til félagslegra breytinga. Við ætlum að nýta tækifærið í haust til að koma alls konar skilaboðum á framfæri og ég trúi því að það hafi meiri áhrif og mikil áhrif."

Hvernig ætlar KSÍ að koma einhverjum skilaboðum áleiðis fyrir þennan leik?

„Við erum til dæmis með konu sem formann, konu sem varaformann, konu sem framkvæmdastjóra. Við getum mætt og tekið í höndina á þeim. Ég get haldið ræður og sent út skilaboð, við getum verið með skilaboð á vellinum og það er ýmislegt sem við getum gert og ætlum okkur að gera."

Sjá einnig:
Kærasta Khashoggi niðurbrotin eftir að Sádarnir keyptu Newcastle.
Útvarpsþátturinn - Landsliðin og Víkingar með Arnari Gunnlaugs
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner