Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   lau 12. júlí 2014 09:00
Andrés Pétursson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Endurtekur sagan frá Mexíkó 1986 sig?
Andrés Pétursson
Andrés Pétursson
,,Mér var hins vegar nánast hent öfugum út úr höfuðstöðvum skipuleggjenda keppninnar í janúar 1986. Þeir sögðu að ég væri allt of seinn að sækja um blaðamannapassa þrátt fyrir að Moggamenn könnuðust ekki við að hafa fengið neitt boð. Ekki í fyrsta skipti sem útlendingar gleyma stórþjóðinni Íslandi í skipulagningu stórviðburða!''
,,Mér var hins vegar nánast hent öfugum út úr höfuðstöðvum skipuleggjenda keppninnar í janúar 1986. Þeir sögðu að ég væri allt of seinn að sækja um blaðamannapassa þrátt fyrir að Moggamenn könnuðust ekki við að hafa fengið neitt boð. Ekki í fyrsta skipti sem útlendingar gleyma stórþjóðinni Íslandi í skipulagningu stórviðburða!''
Mynd: Úr einkasafni
Miðinn á opnunarleikinn á Heimsmeistaramótinu í Mexíkó 1986.
Miðinn á opnunarleikinn á Heimsmeistaramótinu í Mexíkó 1986.
Mynd: Úr einkasafni
Hópur Íslendinga sem mætti til Mexíkó til að upplifa mótið. Rúnar, Albert, Ásgeir Sighvatsson, Andrés og Jónas.
Hópur Íslendinga sem mætti til Mexíkó til að upplifa mótið. Rúnar, Albert, Ásgeir Sighvatsson, Andrés og Jónas.
Mynd: Úr einkasafni
,,Ég þræddi leikina, sá hið frábæra danska lið rúlla upp Uruguay en fá síðan skell gegn gamminum Butrageneo og félögum hans í spænska landsliðinu.''
,,Ég þræddi leikina, sá hið frábæra danska lið rúlla upp Uruguay en fá síðan skell gegn gamminum Butrageneo og félögum hans í spænska landsliðinu.''
Mynd: Úr einkasafni
Birna Ýr Thorsdóttir, Andrés og Elías Georgsson eiginmaður Birnu.
Birna Ýr Thorsdóttir, Andrés og Elías Georgsson eiginmaður Birnu.
Mynd: Úr einkasafni
Ég heiti Andrés Pétursson og er knattspyrnufíkill! Ég ákvað að viðurkenna þetta fyrir sjálfum mér og öðrum þegar ljóst var að Argentína og Þýskalands myndu mætast í úrslitum á HM í Brasilíu. Ekki þannig að þetta komi konunni minni, börnum, vinum og vandamönnum á óvart. Samt sem áður er gott að viðurkenna þetta fyrir sjálfum sér.

Ég veit líka hvenær það var sem ég sýktist endanlega af knattspyrnuveirunni. Það var á Azteka leikvanginum í Mexíkóborg 29. júní 1986 þegar ég var einn af 114.600 áhorfendum sem sáu Argentínumenn leggja V-Þjóðverja af velli 3:2 í mögnuðum úrslitaleik.

Forsaga málsins var sú að ég var væflast í Árnagarði í Háskóla Íslands í septembermánuði 1985 og sá plakat frá UNAM háskólanum í Mexíkó þar sem verið var að auglýsa nám í spænsku fyrir útlendinga. Ég var í sjálfu sér ekkert að hugsa málið neitt mjög lengi og í janúar 1986 var ég mættur galvaskur til Mexíkóborgar. Námið gekk í sjálfu sér vel en aðaltilgangurinn var að sjálfsögðu að undirbúa mig undir HM í knattspyrnu sex mánuðum síðar!

Það gekk nú ekki þrautalaust fyrir sig. Ég hafði verið lausamaður í íþróttaskrifum á Morgunblaðinu í nokkurn tíma og Skapti vinur minn þáverandi yfirmaður íþróttadeildar blaðsins var tilbúinn að skrifa upp á að ég yrði fréttaritari þeirra á meðan á keppninni stæði. Mér var hins vegar nánast hent öfugum út úr höfuðstöðvum skipuleggjenda keppninnar í janúar 1986. Þeir sögðu að ég væri allt of seinn að sækja um blaðamannapassa þrátt fyrir að Moggamenn könnuðust ekki við að hafa fengið neitt boð. Ekki í fyrsta skipti sem útlendingar gleyma stórþjóðinni Íslandi í skipulagningu stórviðburða!

Ræðismaðurinn reddaði málum
Ég lagðist í smá þunglyndi í nokkra daga en ákvað að kaupa mér stórt svart hvítt sjónvarpstæki (litasjónvarp var of dýrt) og njóta keppninnar í sjónvarpi í staðin. En sem betur fer kynntist ég David Weisley, ræðismanni Íslands i Mexíkó á þeim tíma. Hann var mikill Íslandsvinur og vildi allt fyrir Ísland og Íslendinga gera. Þegar hann frétti að yfirvöld ætluðu að ekki að hleypa einum íslenskum blaðamanni á leikina hugsaði hann sig um í smá stund og sagði svo stundarhátt; ,,konan mín spilar golf með konu innanríkisráðherra Mexíkó. Sjáum hvort við getum ekki gert eitthvað í málinu!“.

Það liðu ekki margir dagar þangað til David hringdi i mig afskaplega glaður og sagði ,,Andrés, farðu á Calle De Mexico 245 og þar verður þessi kippt í liðinn fyrir þig!“
Ég reyndi að malda í móinn og sagði að þar hefði mér verið afskaplega illa tekið um ½ mánuði áður. ,,Reyndu aftur“, sagði David kíminn á svip. Og hann hafði rétt fyrir sér. Þegar ég mætti á staðinn var mér tekið með opnum örmum og fékk ég A-passa sem gilti á alla leiki.

Til að gera langa sögu stutta þá var þessi tími í Mexíkó ógleymanlegur. Ég lærði spænsku, fékk námið í UNAM metið til eininga, sá flesta frægustu staði landsins og kynntist heillandi menningu Mexíkó. Ég upplifði líka skuggahliðar landsins eins og mútuþægni lögreglunnar, vasaþjófum, hróplegu misræmi í kjörum landsmanna og fékk að kenna á hefnd Moctezuma (matareitrun!) En allt var þetta hluti af lífsreynslunni.

Júnímánuður var síðan ein knattspyrnuveisla bæði innan vallar sem utan. Ég þræddi leikina, sá hið frábæra danska lið rúlla upp Uruguay en fá síðan skell gegn gamminum Butrageneo og félögum hans í spænska landsliðinu. Ég sá líka flesta leiki Argentínu í keppninni m.a. hinn fræga leik gegn Englendingum þar sem Maradona beitti hendi Guðs sér til hjálpar. Og svo stóð maður hljóður og hrærður á hinum stórkostlega Aztekaleikvangi í lok júnímánaðar þegar rúmlega 114 þúsund manns fögnuðu heimsmeistaratitli þeirra blá/hvítu.

Ómögulegt er að spá fyrir hvort sagan endurtekur sig á sunnudaginn. Að þessu sinni eru Þjóðverjar sigurstranglegri. En Argentínumenn eru nánast á heimavelli og munu sjálfsagt flestir á leikvanginum styðja þá. En eitt er þó ljóst að nánast allir þeir tæplega 90 þúsund áhorfenda sem munu troðfylla Maracana leikvanginn á sunnudaginn munu fá knattspyrnuvírusinn beint í æð. En sem betur er þessi vírus jákvæður, uppbyggilegur og skemmtilegur.

Ég vil því hvetja knattspyrnuáhugafólk á öllum aldri að byrja að undirbúa sig undir keppnina í Rússlandi 2018 og/eða Quatar 2022. Sannir múslimar þurfa að fara að minnsta kosti einu sinni á ævinni til Mekka. Sannir knattspyrnufíklar ættu líka að að sjá að minnsta kosti eina HM á ævi sinni! Ég sé að minnsta kosti ekki eftir því og hef lært að lifa með þessum knattspyrnuvírus alla ævi!
Athugasemdir
banner
banner
banner