Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
banner
   mið 12. nóvember 2014 10:35
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Stóru strákarnir vilja spila við okkur
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Guardian hefur verið hér á landi að vinna að umfjöllun um íslenskan fótbolta.
Guardian hefur verið hér á landi að vinna að umfjöllun um íslenskan fótbolta.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Ísland glímir við Eden Hazard í kvöld.
Ísland glímir við Eden Hazard í kvöld.
Mynd: Getty Images
Eins og margoft hefur verið tuggið ofan í þig þá hefur áhuginn á íslenska landsliðinu aldrei verið meiri. Erlendir fjölmiðlamenn hafa flykkst til Íslands og allir vilja fá töfrasvarið við árangri landsliðs okkar fámennu þjóðar.

Sem dæmi hefur Jonathan Fisher, fréttamaður Guardian, verið hér á landi síðustu vikuna eða svo að kynna sér íslenskan fótbolta og notið aðstoðar Fótbolta.net í því.

Fólk fær ekki nóg af fréttum og umræðu um landsliðið meðan svona vel gengur en liðið hefur fullt hús og hreint búr eftir þrjá leiki í undankeppni EM eins og allir vita.

Tæplega 700 Íslendingar verða í Plzen á sunnudag þegar leikið verður gegn Tékklandi og hefur mætingin aldrei verið eins góð á útileik Íslands. Þá verður einnig sett fjölmiðlamet en aldrei hafa jafnmargir íslenskir fréttamenn ferðast í útileik til að fjalla um hann.

RÚV sýnir leikinn beint, 365 verður með her manna og lýsir leiknum beint á Bylgjunni, Fótbolti.net verður með fjóra starfsmenn í Tékklandi og auk þess verða fulltrúar frá Morgunblaðinu og 433.is. Alls um 20 manns.

Betri árangur hefur að sjálfsögðu í för með sér aukinn áhuga og eftirspurn. Í kvöld er leikinn vináttuleikur gegn Belgíu sem er fjórða besta landslið í heimi samkvæmt styrkleikalista FIFA. Ekki eru mörg ár síðan það þótti afar illfært að fá stórþjóð til að taka leik við Ísland.

Hlutirnir eru fljótir að breytast og leikurinn að vissu leyti merki um breytta tíma. Stóru strákarnir eru tilbúnir að spila við okkur.

„Það er augljóst að þessi árangur hefur haft það í för með sér að sterkari þjóðir vilja frekar spila við okkur. Þannig er það. Það hafa verið spilaðir æfingaleikir reglulega en ekki við eins sterkar þjóðir og okkur býðst nú," segir Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ.

Leikurinn gegn Belgum í kvöld hefst klukkan 19:45. Þó Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerback haldi sig við það að tilkynna liðið ekki fyrr en tæpum tveimur tímum fyrir leik hefur ekki verið haldinn neinn feluleikur varðandi það að menn sem hafa minna spilað fá tækifæri til að sýna sig og sanna.

Fyrir vikið verður leikurinn um margt forvitnilegur og áhugi íslenskra fótboltaáhugamanna minnkar ekki þegar horft er til þess að átta leikmenn í byrjunarliði Belga eru fastagestir í stofum landsmanna þegar enski boltinn er spilaður. Enski boltinn er jú oft nefndur þjóðaríþrótt Íslands.
Athugasemdir
banner
banner
banner