Íslenski landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson var gestur í hlaðvarpsþættinum Chess After Dark og ræddi þar um áhugaverðan tíma í Hollandi áður en hann færði sig yfir til Ítalíu þar sem hann spilar í dag.
Albert gekk ungur að árum til Heerenveen frá KR, þaðan fór hann til PSV og síðan AZ Alkmaar þar sem Arne Slot, núverandi stjóri Liverpool, var við stjórnvölin. Albert sagði að hann væri besti stjórinn sem hann hefur spilað fyrir á ferlinum.
Samningur Alberts við AZ var að renna út um sumarið 2022 en hann samdi við Genoa í janúar sama ár.
„Það voru samningsviðræður í gangi. Arne Slot var rekinn af því hann var kominn í viðræður við Feyenoord. Ég ákvað að neita að skrifa undir samning af því Slot sendi mér skilaboð stuttu eftir að hann var rekinn og sagði 'Ertu ekki að renna út á samning og viltu ekki koma til Feyenoord næsta sumar?'"
„Ekki að það hafi selt mig einn tveir og þrir en það heillaði mig, það er næs að renna út á samning og vera heitasta gellan á ballinu. Þá fékk ég hótun að ég væri ekki að fara spila."
Hann fékk að lokum tilboð frá Genoa í lok janúar 2022 sem hann samþykkti.
Tíminn í Hollandi var upp og niður
Albert var spurður að því hvort hann hafi fundið fyrir uppgjöf þar sem hann sýndi mögulega ekki það sem búist var við af honum í Hollandi.
„Tíminn í Hollandi var mjög upp og niður. Ef ég rýni aðeins í þetta þá á ég geggjað tímabil með varaliði PSV og kemst upp aðalliðið og fæ ekkert alltof marga sénsa. En árið sem við verðum meistara spila ég tíu leiki, sem er alveg gott en ekki alltof margar mínútur," sagði Albert.
Í kjölfarið fór hann til AZ þar sem hann meiddist og í kjölfarið skall Covid á. Þá var einnig rætt um hugarfarið hans en hollenski landsliðsmaðurinn fyrrverandi Ronald de Boer gagnrýndi Albert á sínum tíma fyrir að tala ensku í viðtölum og setja í sig demants eyrnalokka.
„Ég myndi segja að ég hafi verið mjög faglegur, tók það kannski of mikið í öfgar. Stundum þarf maður að kúpla sig út úr þessu lífi, fá sér einn kaldann eða taka spa með fjölskyldunni," sagði Albert.
„Það var einn tímapunktur hjá AZ þar sem ég var ekki að spila vel en ég var að gera alla hluti, sofa vel, borða vel og drekka vel. Slot kom með punkt, 'prófaðu að kúpla þig út og tékka hvort það hjálpi þér einn á vellinum og setji ekki of mikla pressu á þig.' Ég skildi hann ekki þá, ég hugsaði að ég ætlaði að halda áfram að vera faglegur."
Athugasemdir



