„Ég er hrikalega ánægður með leikinn. Mér fannst fyrstu tíu mínúturnar ekkert sérstakar en heilt yfir virkilega góð frammistaða frá liðinu," sagði Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, eftir sigur liðsins gegn FH í dag.
Lestu um leikinn: Vestri 1 - 0 FH
„Við vissum að það væru ákveðnir veikleikar á þeim varnarlega, sérstaklega ef þeir myndu stíga upp í pressu. Þeir gerðu það aðeins í fyrri hálfleik og það voru svæði fyrir okkur að stíga inn í. Mér fannst við leysa það gríðarlega vel en kannski smá ósáttur að við hefðum ekki náð inn tveimur mörkum í fyrri hálfleik, það hefði sett okkur í töluvert þægilegri stöðu," sagði Davíð.
Daði Berg Jónsson kom frá Víkingum á láni til Vestra en hann var hetja liðsins í dag og skoraði eina mark leiksins.
„Einstakur leikmaður og með framtíðina fyrir framan sig. Hann þarf að taka hæg en góð skref. Mér finnst hann hafa sýnt það hver hann er sem persóna að hafa komið hingað og þorað að fara í alvöruna. Það var jákvætt skref fyrir hann og hans feril," sagði Davíð.
„Hann sýnir í dag að hann er tilbúinn fyrir okkur. Það má ekki bara tala um það hvað hann gerir fram á við því hann sinnir sínum varnarskyldum gríðarlega vel, hann spilar í báðar áttir og það er gott sérstaklega á þessum aldri."
Athugasemdir