Síðastliðinn föstudag birtist pistill sem ég skrifaði undir heitinu „Ég áfrýja“ hér á fotbolti.net. Einhverjir lesendur virðast hafa misskilið tilganginn, aðrir komu með hin ódýru „voðalegt væl er þetta“ viðbrögð og gleymdu þar með aðalatriðinu, sem er að tímabært og nauðsynlegt er að fram fari umræða innan knattspyrnuhreyfingarinnar um málefnið sem ég var að tjá mig um. Þá á ég ekki við að menn skiptist á skoðunum um hvort ákveðið spjald átti rétt á sér eða ekki, heldur að fólk átti sig á því að við lifum á 21. öldinni og tæknin er önnur og betri en þegar gul og rauð spjöld og leikbönn voru fyrst notuð í refsingarskyni í fótbolta.
Vissulega urðu þessi tilteknu spjöld (seinna gula og rautt) og þar með leikbann Gísla Páls Helgasonar í mikilvægum leik kveikjan að því að ég skrifaði áðurnefndan pistil. Ritstjóri fotbolti.net hafði áður skrifað pistil undir heitinu „KSÍ – árið er 2015“ og rifjaði hann þar upp afdrifaríkt spjald sem hafði álíka afleiðingar og hitt – leikbann á leikmann Þórs í grannaslagnum við KA. En hann var líka að kalla eftir umræðu og að KSÍ tæki nú skrefið inn í tækniöldina. Einhvers staðar (mjög sennilega í athugasemdum á Fb eða Twitter) var gefið í skyn að verið væri að biðja um að dómarar höguðu spjöldum eftir því hvaða leikur væri næst á dagskrá hjá viðkomandi liði. Það er auðvitað reginmisskilningur og útúrsnúningur að halda því fram að ég eða aðrir séum að biðja um slíkt. Þeir sem fara út á þessa braut í umræðunni og/eða svara með „voðalegt væl er þetta“ eru einfaldlega að forðast umræðuna um það sem máli skiptir.
Það að ég skrifaði greinina sem „áfrýjun“ til aganefndar KSÍ með „kröfu“ um að spjald og leikbann yrði fellt niður var auðvitað bara aðferð til að nýta þá athygli sem þessi leikur, grannaslagur Þórs og KA, fær í fjölmiðlum. Auðvitað datt mér aldrei í hug að þessi pistill hefði þau áhrif að Gísli Páll fengi að spila leikinn við KA. Pistillinn var skrifaður til að vekja knattspyrnuáhugafólk og knattspyrnuforystuna til umhugsunar um notkun tækninnar og hvernig hægt væri að leiðrétta augljós mistök eftir á með því að leyfa aganefnd KSÍ (og jafnvel skylda hana til) að horfa á myndbönd þegar ástæða þætti til eða eftir því væri óskað.
Og því kalla ég enn eftir viðbrögðum, umræðu og greinaskrifum um kjarna málsins, hvort ekki sé rétt að fara að stíga inn í 21. öldina og nýta myndbandatæknina meira og betur við ákvörðun refsinga í knattspyrnu. Ég kalla líka eftir því að þessi umræða verði tekin innan KSÍ og helst að hún verði til lykta leidd á næsta ársþingi KSÍ.
Ég veit satt að segja ekki hvað ætti að koma í veg fyrir þessa breytingu á vinnuaðferðum og reglum aganefndar. Það væri mjög auðvelt að setja utan um þetta hæfilegan ramma þar sem fram kæmi hver hefði rétt á að áfrýja, hvernig og innan hvaða frests. Sömuleiðis er barnaleikur að búa til ramma eða viðmiðunarreglur fyrir aganefnd til að vinna eftir þegar slíkar áfrýjanir kæmu inn á borð nefndarinnar.
Stígum skrefið í stað þess að staðna.
Haraldur Ingólfsson, Þórsari.
Athugasemdir