fös 13. júlí 2018 19:03
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimild: Thorsport 
Íslandsmeistararnir semja við markvörð (Staðfest)
Stephanie Bukovec.
Stephanie Bukovec.
Mynd: Thorsport.is
Íslandsmeistarar Þórs/KA voru að semja við markvörðinn Stephanie Bukovec. Samningurinn gildir út yfirstandandi leiktíð.

Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs/KA, talaði um það í viðtali við Fótbolta.net eftir sigur á Stjörnunni í vikunni að hann ætlaði sér að bæta við markverði í hópinn og núna er það klappað og klárt.

„Já, það má eiga von á því að við fáum annan markmann til liðs við okkur og verðum með góða samkeppni um þá stöðu," sagði Donni í viðtalinu en sænski markvörðurinn Johanna Henriksson kom fyrir tímabilið og hefur staðið vaktina hingað til eftir að Helena Jónsdóttir sleit krossband á undirbúningstímabilinu.

Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir var í markinu hjá Þór/KA í fyrra þegar liðið varð Íslandsmeistari en hún hætti í fótbolta eftir síðasta tímabil. Hún tók hanskana af hillunni eftir að Helena sleit krossband og spilaði fyrstu leiki tímabilsins áður en Johanna tók við.

Johanna er núna komin með samkeppni í formi Stephanie Bukovec. Stephanie kemur frá hollenska félaginu Pec Zwolle eftir eins árs dvöl þar, en hefur áður komið við sögu hjá sænska liðinu Tocksfors, Belmont Bruins í Nashville og liði Oakland-háskóla í Kaliforníu.

Stephanie er fædd 1995. Hún er frá Toronto í Ontario-fylki í Kanada, en á króatíska móður og hóf að leika með króatíska landsliðinu 2017.

Hún er meðal annars þekkt fyrir mikla boltafimi (freestyle football) og var á meðal þeirra sem sýndu listir sínar í tengslum við HM sem fram fór í Kanada 2015 segir í tilkynningu frá Þór/KA.

Í fréttailkynningunni er jafnframt greint frá því að samningur við Johönnu Henriksson hafi verið framlengdur út leiktíðina en upphaflega var samið við hana til tveggja mánaða.

Þór/KA er í öðru sæti Pepsi-deildar kvenna, einu stigi á eftir Breiðabliki. Framundan er hörð barátta um Íslandsmeistaratitilinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner