Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   mán 14. september 2015 16:36
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Af svindlurum og sérfræðingum
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Greinarhöfundur, Ívar Bragason.
Greinarhöfundur, Ívar Bragason.
Mynd: Aðsend
Hjörtur Hjartarson (til vinstri).
Hjörtur Hjartarson (til vinstri).
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Kassim í leiknum gegn ÍBV í gærkvöldi.
Kassim í leiknum gegn ÍBV í gærkvöldi.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Í gær sunnudag fór fram leikur FH og ÍBV í Kaplakrika. Sá sem hér skrifar mætti að sjálfsögðu á leikinn ásamt dóttur sinni sem er á sjöunda ári. Í leiknum gerðist umdeilt atvik þegar leikmenn ÍBV töldu að Kassim Doumbia, leikmaður FH, hafði handleikið boltann á marklínu. Dómari leiksins sá hins vegar ekkert athugavert og dæmdi ekkert. FH vann að lokum leikinn 3-1.

Síðar um kvöldið voru Pepsí-mörkin á dagskrá Stöðvar 2 sport. Í settinu voru, ásamt þáttastjórnandanum Herði Magnússyni, „sérfræðingarnir“ Hjörtur Júlíus Hjartarson og Kristján Guðmundsson. Í upphafi þáttarins fóru þeir yfir leik FH og ÍBV og að sjálfsögðu varð mikil umræða um hið umdeilda atvik í leiknum. Samkvæmt myndum af atvikinu sem sýndar voru í þættinum má ætla að Doumbia hafi slegið boltann með hendinni, hvort sem boltinn var kominn yfir marklínuna eða ekki. Taldi þáttastjórnandinn og sérfræðingar þáttarins ótrúlegt að dómarinn hafi ekki dæmt á atvikið. Samkvæmt myndum sem sýndar voru í þættinum má þó sjá að leikmenn beggja liða koma væntanlega í veg fyrir það að bæði dómari leiksins og aðstoðarmaður hans sjái atvikið greinilega. Um þetta voru sérfræðingarnir sammála en spurðu þá, hvar skilningur dómaranna á leiknum væri. Voru sérfræðingarnir þá væntanlega að gefa i skyn að dómari eða aðstoðardómari leiksins hefðu átt að dæma á atvikið byggt á líkum einum saman. Á það verður þó ekki lagt mat hér. En samkvæmt áliti sérfræðinganna átti dómari leiksins annað hvort að dæma mark og gefa þá Doumbia gult spjald fyrir að handleika knöttinn eða dæma víti og vísa Doumbia af velli með rautt spjald. Undirritaður hefur ekkert út á framangreint álit sérfræðinga þáttarins að setja og er í raun að flestu leyti því sammála.

Hins vegar á undirritaður erfitt með að lýsa vonbrigðum sínum með það hvernig Hjörtur Júlíus hafði uppi aðdróttanir í garð Doumbia og kallaði varnarmanninn knáa svindlara. Orðrétt sagði Hjörtur Júlíus m.a. í þættinum: „en það segir enginn neitt orð um það hversu mikill svindlari Doumbia er, hann er að svindla þarna“. Þá taldi Hjörtur Júlíus að Doumbia hafi viljandi verið að blekkja dómara leiksins og að taka ætti alveg eins á því og þegar menn væru að henda sér niður inni í teig. Þetta væri „brútal svindl“ eins og Hjörtur Júlíus segir orðrétt í þættinum. Um er að ræða grafalvarlegar ásakanir af hálfu Hjartar Júlíusar sem vega að heiðri leikmannsins.

Í Knattspyrnulögunum 2014/2015 er ekki minnst á hugtakið „svindl“, hins vegar er oft fjallað um „óíþróttamannslega framkomu“ leikmanns. Hér skulum við gefa okkur að Doumbia hafi viljandi handleikið knöttinn í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að ÍBV skoraði mark. Samkvæmt Knattspyrnulögum hefði dómaranum í slíku tilviki borið að vísa Doumbia af velli með rautt spjald og dæma vítaspyrnu. Í Knattspyrnulögunum er hins vegar ekkert minnst á að slíkt brot feli í sér óíþróttamannslega framkomu af hálfu þess sem handleikur knöttinn. En óíþróttamannsleg framkoma telst t.d. þegar leikmaður handleikur knöttinn viljandi í því skyni að reyna skora mark, sbr. 12. gr. Knattspyrnulaganna. Hér má bæta við að samkvæmt Knattspyrnulögunum er refsing við hvers konar óíþróttamannslegri framkomu iðulega gult spjald.

Samkvæmt framangreindu gera Knattspyrnulögin því ráð fyrir að það sé ákvörðun hvers og eins leikmanns hvort hann reyni að bjarga marki með því að verja boltann með hendinni. Það er ekkert óíþróttamannslegt við þá ákvörðun. Slík ákvörðun getur oft talist eðlilegur hluti af leiknum og er í raun auðvelt að hugsa sér mörg dæmi þar sem slík ákvörðun ætti fyllilega rétt á sér. Hér má nefna sem dæmi þegar staðan er jöfn á loka mínútum í framlengingu í 8 liða úrslitum á heimsmeistaramóti, sbr. Luis Suarez gegn Ghana á HM í Suður Afríku 2010. Að sjálfsögðu ber þó að refsa viðkomandi leikmanni fyrir brotið.

Að mati undirritaðs var fullyrðing Hjartar Júlíusar, um svindl Doumbia, ekki sett fram af yfirvegun. Fullyrðingin var óskýr, ekki studd neinum rökum og á samkvæmt því sem rakið var hér að framan sér enga stoð í Knattspyrnulögunum. Einnig verður ekki annað séð en að afstaða Hjartar Júlíusar byggi á því að hann viti að það hafi verið hreinn og beinn ásetningur Doumbia að svindla, sbr. mjög svo gildishlaðna yfirlýsingu um „brútal svindl“. Þetta er gríðarlega alvarleg ásökun af hálfu sérfræðingsins. Fyrir mér eru svindlarar í íþróttum fólk eins og Ben Johnson, Lance Armstrong, Justin Gatlin og Jane Blalock (golfari sem færði alltaf boltann sinn). Það er ekki svindlari sem fórnar sér fyrir liðið sitt í lokabaráttu um titil. Þá er það ekki við Doumbia að sakast að dómarinn hafi ekki dæmt á atvikið í þessu tilfelli. Sá sem þetta skrifar telur ljóst að Hjörtur Júlíus hafi þarna farið fram úr sér. Það er eitt að hafa skoðun á frammistöðu og hegðun leikmanna og setja hana fram á hlutlægan og gagnrýnin hátt, en það er allt annað að saka menn um „brútal svindl“ án þess að hafa nokkuð fyrir sér í þeim efnum. Í raun er um fráleit vinnubrögð að ræða af hálfu sérfræðingsins sem réttast væri að hann bæði Doumbia afsökunar á.

Að lokum vill undirritaður taka fram að hann horfði á umræddan þátt af Pepsí-mörkunum ásamt áðurnefndri dóttur sinni, sem er mikill fótboltaáðdáandi og æfir hjá 7. fl. FH. Þátturinn var fyrr á ferðinni en ella og stökk hún til þegar hún sá að umfjöllun um leikinn var í upphafi þáttar, beið með að fara að sofa og sat stutta stund yfir þættinum. Það er skemmst frá því að segja að pabbi hennar átti erfitt með að útskýra það sem þar fram fór. Það að knattspyrnumaður sem hún lítur á sem fyrirmynd í knattspyrnuiðkun sinni hafi verið kallaður „svindlari“, ekki bara einu sinni heldur aftur og aftur reyndi á hana. Pabbi hennar reyndi þó eins og hann gat að gera sem minnst úr aðstæðum. Það var þó ljóst að þessum unga fótboltaiðkanda sárnaði töluvert hvernig fjallað var um helstu fyrirmynd hennar í fótboltanum. Af þessu tilefni má benda á að það fylgjast fleiri með íslenskri knattspyrnu en karlmenn á aldrinum 16-45, þótt þáttagerðarmenn haldi stundum annað.
Góður þáttur er sá sem beitir jákvæðri gagnrýni þar sem þáttastjórnandi og sérfræðingar haga orðum sínum í samræmi við efnið. Þar hefur mér þótt Arnar Gunnlaugsson bera höfuð og herðar yfir aðra sérfræðinga í annars ágætum þætti.

Kveðja,
Ívar Bragason, stuðningsmaður FH
Athugasemdir
banner
banner
banner