Höfum tekið ótrúlegan þroska sem fótboltaþjóð
Það er ekki langt síðan íslenskir fótboltafíklar hreinlega kviðu fyrir landsleikjahléum því þá voru þeirra lið í enska boltanum ekki í eldlínunni. Í versta falli voru þeirra uppáhalds stjörnur að meiðast í landsleikjum og gátu ekki spilað með Liverpool eða Manchester United helgina eftir.
Starfandi á fótboltamiðli þýddu landsleikjahlé líka mun dræmari aðsókn og lesendatölur tóku dýfu.
Nú er staðan önnur. Í gær fór Fótbolti.net hreinlega á hliðina vegna gríðarlegs áhuga landsmanna á að lesa sem mest um magnaðan sigur gegn Hollandi. Við höfum eignast landslið sem stórskemmtilegt er að horfa á og leikmenn eins og Gylfi, Aron og Kolbeinn eru orðnir meiri fyrirmyndir íslenskra krakka en leikmenn sem eru fæddir í Englandi eða Brasilíu.
Landsleikjahlé er orð sem farið er að hafa jákvæða merkingu og íslenska landsliðið er á allra vörum, líka erlendis eins og glögglega má sjá á fjölmiðlum víða um heim.
Hlaupabrautin nánast hvarf
Stemningin á vellinum í gær var hreinlega sturluð. Tólfan stóð sig stórkostlega í að fá allan völlinn með sér og þar á meðal stúkuna beint á móti. Allir á vellinum gengu í Tólfuna meðan á leik stóð. Við höfum tekið hreint ótrúlegan þroska sem fótboltaþjóð.
Það hefur gerst sem ég hélt að væri ekki hægt. Með þessum stuðningi er búið að gera Laugardalsvöll að alvöru heimavelli. Erlendir lýsendur töluðu um að það hefði verið eins og fólksfjöldinn á vellinum hefði margfaldast. Hlaupabrautin ömurlega nánast hvarf. Pælið í því ef völlurinn væri hringbyggð gryfja án hlaupabrautar? Stemningin hefði toppað heitustu nágrannaslagi Tyrklands.
Forréttindi
Það eru hrein forréttindi að starfa sem íþróttafréttamaður og fá að fylgja þessu landsliði eftir, bæði hér heima og erlendis. Liðið er ótrúlega samstillt, jarðbundið og faglegt auk þess að sjálfstraustið geislar af leikmönnum sem gera sér alveg grein fyrir því hversu langt þetta lið getur náð.
Síðasta föstudag mættum við Lettum. Í Lettlandi búa meira en 2 milljónir en samt pökkuðu þeir í vörn og vonuðu það besta á eigin heimavelli gegn einhverri eyju norður í hafi. Forvitnin erlendis frá er rosaleg. Hvað er Ísland að gera sem svínvirkar svona?
Stökkið upp heimslistann er engin tilviljun. Það eru margar ástæður eins og knatthallir, gæði í þjálfun yngri flokka og sú menning að hér á landi er auðvelt fyrir krakka að fara á fótboltaæfingar og í raun fáir strákar sem alast upp án þess að prófa að mæta á æfingar.
Litla Canon myndavélin
Koma Lars Lagerback á auðvitað risastóran þátt en öll fagmennska kringum landsliðið var rifið upp um mörg stig með komu hans. Samstarf hans og Heimis Hallgrímssonar hefur gengið nánast fullkomlega. Teymið í kringum liðið er miklu fámennara en hjá stærstu landsliðunum en þeir sem þar eru vinna margra manna vinnu.
Félagi minn Dagur Sveinn Dagbjartsson skrifaði eftirfarandi á Facebook:
„Ég starfa sem leikgreinir íslenska landsliðsins í fótbolta. Við það nota ég litla Canon vél og sendi Heimi þjálfara upptökuna eftir leik. Hollendingar voru samtals með fimm myndavélar til að leikgreina og tvo starfsmenn sem leikgreindu í tveimur tölvum í rauntíma. Gátu t.d. farið með upplýsingar inn í klefa í hálfleik. Öllu til tjaldað hjá Hollandi en Ísland vann samt 2-0. Merkasti sigur í sögu fótboltans á Íslandi."
Það var erfitt að sofna eftir leikinn í gær. Maður vildi einfaldlega meira og er strax farinn að telja niður í næsta landsleikjahlé. Vonandi er þetta bara byrjunin.
Athugasemdir