Þrír á förum frá Man City - Dalot orðaður við Real Madrid - Framherji West Ham til Milan?
   sun 14. desember 2025 13:40
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Erfitt og skrítið að skipta um félag: Vegferðin, aðstaðan og Gunnar Heiðar heilluðu
Lengjudeildin
Njarðvíkingurinn er mættur í HK.
Njarðvíkingurinn er mættur í HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: HK
Heldur áfram að spila undir stjórn Gunnars Heiðars.
Heldur áfram að spila undir stjórn Gunnars Heiðars.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Tilfinningin er mjög góð að vera kominn í HK, allir hafa tekið mjög vel á móti mér og mér líst mjög vel á þetta," segir Svavar Örn Þórðarson sem gekk í síðasta mánuði í raðir HK frá uppeldisfélaginu Njarðvík.

Hann er hægri bakvörður en spilaði talsvert sem miðvörður og á miðjunni í yngri flokkunum.

„Eftir að ég byrjaði að æfa með meistaraflokki hef ég verið í bakverðinum og er mjög hrifinn af þeirri stöðu."

Svavar Örn er 21 árs og kom við sögu í sextán leikjum í Lengjudeildinni í sumar.

Af hverju er hann kominn í HK?

„Ég er í raun mættur í HK vegna þess að vegferðin sem þeir eru á er mjög spennandi og mér fannst þetta vera rétta skrefið á þessum tímapunkti á mínum ferli."

„Það sem heillar mig mest er klúbburinn í heild sinni, mér finnst mikil stemning í hópnum og hjá öllum innan HK. Síðan er aðstaðan klárlega stór plús og hafði alveg eitthvað að segja."

„Aðdragandinn var í raun bara sá að ég vildi halda öllu opnu eftir síðasta tímabil og var bara sjá hvað væri í boði,"
segir Svavar sem nýtti sér riftunarákvæði í samningi sínum við Njarðvík.

„Það var alveg eitthvað sem kom upp en HK heillaði mig mest og sýndi langmestan áhuga."

HK réði Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem þjálfari en Gunnar Heiðar hafði þjálfað Svavar í Njarðvík síðustu tímabil.

„Að Gunnar Heiðar fór yfir í HK spilaði auðvitað stóran part, ég er búinn að vera hjá honum síðustu tvö ár hjá Njarðvík og hef fundið fyrir miklu trausti frá honum og teyminu þannig að tækifærið að halda því áfram var bara frábært."

Ræddir þú við einhvern áður en þú tókst ákvörðunina?

„Já, ég ræddi mikið við umboðsmanninn minn Óla og hann hjálpaði mér mikið, síðan ræddi ég auðvitað við mína nánustu sem að voru líka sammála um að þetta væri rétt skref fyrir mig á þessum tímapunkti."

„Ég þekkti engan í HK áður en ég skrifaði undir en hef spilað á móti þessum strákum oft áður þannig ég vissi alveg hverjir þetta voru, síðan kom auðvitað Dominik Radic inn sem var hjá Njarðvík og ég þekki hann vel þannig að þetta leggst bara mjög vel í mig."


Skrítið að skipta um félag
Hvernig er að yfirgefa uppeldisfélagið?

„Það var mjög erfitt og mjög skrítið fannst mér að skipta um lið og það verður mjög skrítið að fara spila á móti uppeldisliðinu í sumar. En það verður líka bara skemmtileg og þetta var bara breyting sem mér fannst ég þurfa að taka til að taka næsta skref á mínum ferli."

Njarðvík var í toppbaráttu allt tímabilið en það hallaði undan fæti undir lok tímabils og liðið komst ekki upp úr Lengjudeildinni. Hvernig fannst þér tímabilið í ár?

„Sumarið 2025 var fáránlega skemmtilegt fannst mér þrátt fyrir glataðan endi, við spiluðum skemmtilegan fótbolta og vorum bara hörku lið."

„Það var mikil stemning hjá okkur utan og innan vallar en það voru lykilaugnablik sem við náðum ekki að klára. Við lærðum allir af þessu og Njarðvík verða með hörku lið í sumar býst ég við og get ekki beðið eftir að mæta þeim."

„Þetta er svona fyrsta alvöru tímabilið mitt í meistaraflokk þar sem ég byrja flesta leiki og ég fékk mikla reynslu og bætti mig mikið og síðan er líka hellingur sem hægt er að bæta."


Ætlar sér upp í Bestu
Hver eru markmiðin með HK?

„Markmiðin hjá mér eru í raun bara að halda áfram að spila og bæta mig, ég á ekki mikið af leikjum í meistaraflokki og langar að halda áfram að spila og verða betri og spila bara á eins háu leveli og mín geta nær."

„Fyrir þetta tímabil sé ég klárlega markmið HK og mitt að spila í Bestu deildinni eftir sumarið og halda sér þar eftir í Bestu. HK var mjög nálægt því að fara upp í ár, eins og við í Njarðvík, þannig það eru allir tilbúnir að byggja á því og komast lengra,"
segir Svavar Örn.
Athugasemdir
banner