Lækka verðmiðann á Garnacho - Arsenal hefur áhuga á Coman - Frankfurt setur verðmiða á Ekitike
   þri 15. apríl 2025 14:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Fyrrum liðsfélagi átti stóran þátt í að Römer endaði á Akureyri
Marcel Römer.
Marcel Römer.
Mynd: Lyngby
Eggert Gunnþór Jónsson.
Eggert Gunnþór Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eggert og Haddi á landsliðsæfingu árið 2008.
Eggert og Haddi á landsliðsæfingu árið 2008.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Römer gæti spilað sinn fyrsta leik á föstudag.
Römer gæti spilað sinn fyrsta leik á föstudag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marcel Römer var í gær tilkynntur sem nýr leikmaður KA en hann kom til bikarmeistaranna frá Lyngby þar sem hann var fyrirliði. Römer er 33 ára danskur miðjumaður sem getur einnig spilað í hjarta varnarinnar.

Hann var með lausan samning í lok tímabilsins en fékk að fara til KA á þessum tímapunkti eftir að hafa verið í litlu hlutverki með Lyngby á þessu tímabili.

Hann ræddi við bold.dk um félagaskiptin og sagði frá því að fyrrum samherji hans hafi spilað stóran þátt í félagaskiptunum. Á árunum 2017-2019 lék hann 48 leiki með Eggerti Gunnþóri Jónssyni en þeir voru liðsfélagar hjá SönderjyskE.

„Þetta kom upp úr þurru. Ég skrifaði til góðs vinar míns, Eggerts Jónssonar, sem er á Íslandi. Það var fyrir tveimur eða þremur vikum og átti í raun bara að vera grín. Það þekkjast allir á Íslandi," sagði Römer og hló.

„Ég spurði hann hvort hann gæti ekki spurst fyrir á Íslandi og fundið eitthvað fyrir mig á Íslandi þegar samningurinn rynni út."

Það sem byrjaði sem létt grín raungerðist svo. Eggert, sem er í dag þjálfari KFA, talaði við sinn fyrrum liðsfélaga í landsliðinu, Hallgrím Jónasson, og úr varð að Haddi fékk sexuna sem hann var að leita að til Akureyrar.

„Eggert hringdi í mig síðasta mánudag og sagðist hafa fundið félag. Svo þetta gerðist mjög hratt. Eggert er góður vinur Hallgríms Jónassonar sem er þjálfari KA. Þá vantaði sexu og það hentaði mér vel."

Hann var á stefnumóti með kærustunni í Malmö þegar Eggert hringdi í sig. „Eggert hringir ekki á hverjum degi svo þegar ég sá að þetta var hann þá varð ég að svara um leið. Ég var á stefnumóti í Malmö, vorum að skoða búðir, en ég þurfti að taka mér hlé. Þetta var sérstakt. En ég verð líka að viðurkenna að ég var eiginlega gripinn um leið og þetta kom upp. Þegar samskiptin byrjuðu við KA þá fann ég að þetta var eitthvað sem mig virkilega langaði og sem betur fer náðum við samkomulagi," sagði Römer sem hafði dreymt um að spila erlendis.

„Held að við séum ekki að gera okkur grein fyrir hvað þetta er stór prófíll"
Valur Gunnarsson ræddi um komu Römer til KA í Innkastinu þar sem 2. umferðin í Bestu deildinni var gerð upp.

„Þeir eru að fá fyrirliða Lyngby. Ég heyrði í Frey Alexanderssyni fyrir þátt og spurði út í hann. Þetta er djúpur miðjumaður sem sem getur spilað hafsent eða framarlega á miðjunni. Hann er frábær á boltann, góður í föstum leikatriðum og karakter til að deyja fyrir. Geggjaður gæi."

„Hann var fyrirliði í dönsku úrvalsdeildinni og á örugglega eftir að gera helling fyrir þá. Hann er búinn að kynna sér Akureyri vel og hlakkar til að spila þarna. KA þarf helling miðað við leikinn gegn Víkingi."

„Ég er rosalega ánægður með að hann sé að fara í KA. Ég held að við séum ekki að gera okkur grein fyrir því hvað þetta er stór prófíll. Ég er ánægður með að hann sé að fara í KA, það er leiðinlegt þegar menn eru að fara alltaf í sömu liðin. Þetta ætti að auka skemmtanagildið við að fylgjast með KA,"
segir Valur.

Römer kemur til Akureyrar á morgun og gæti spilað sinn fyrsta leik með liðinu gegn KFA í Mjólkurbikarnum á föstudag.
Innkastið - Fyrirliðinn missir hausinn og meistarar hrynja
Athugasemdir
banner
banner