Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 15. desember 2015 12:25
Björn Már Ólafsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Undraland Ranieris
Björn Már Ólafsson
Björn Már Ólafsson
 Hæfileikar Ranieris sem þjálfari eru óumdeilanlegir.
Hæfileikar Ranieris sem þjálfari eru óumdeilanlegir.
Mynd: Getty Images
Ranieri er fæddur og uppalinn Rómverji.
Ranieri er fæddur og uppalinn Rómverji.
Mynd: Getty Images
Hvernig týpa er Ranieri sem þjálfari?
Hvernig týpa er Ranieri sem þjálfari?
Mynd: Getty Images
Ranieri náði sér ekki á strik hjá Inter.
Ranieri náði sér ekki á strik hjá Inter.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Vardy þakkar Ranieri fyrir traustið.
Vardy þakkar Ranieri fyrir traustið.
Mynd: Getty Images
Ranieri á æfingasvæðinu.
Ranieri á æfingasvæðinu.
Mynd: Getty Images
Gengi Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í ár hefur komið öllum á óvart og nú viku fyrir jól situr félagið á toppi deildarinnar eftir að hafa hrist af sér falldrauginn á síðasta tímabili með stórkostlegum hætti. Ekki einu sinni hörðustu stuðningsmenn félagsins gætu logið að mér að þessi velgengni hafi gert boð á unda sér og kannski er um tímabundinn árangur að ræða.

Það breytir því ekki að bæði leikmenn og stuðningsmenn Leicester City munu njóta þess að eyða jólunum í undralandi. Undralandi Claudio Ranieris.

Ranieri þekkja bæði áhugamenn um ítalska- og enska knattspyrnu vel. En hvers konar týpa er þessi geðþekki Ítali? Í fjölmiðlum er honum oft lýst sem rólegum, ekki ósvipuðum og Carlo Ancelotti. Veiklunda jafnvel? En er hann raunverulega þessi rólyndis maður eða býr meira að baki velgengni Leicester heldur en vinalegur afi með fjölbreytta reynslu?

Ranieri er fæddur og uppalinn Rómverji og á sex leiki fyrir höfuðborgarliðið. Leikmannaferill hans var hins vegar ekki upp á ýkja marga fiska hjá félögum á borð við Catanzaro og Sikileyjarfélögin Catania og Palermo. Hann sneri sér að þjálfun um leið og leikmannaferli hans lauk árið 1986 og hefur líkt og flestir aðrir ítalskir þjálfarar unnið sig upp frá neðri deildum. Fyrst þjálfaði hann smáklúbbana Lametini og Puteolana en það var ekki fyrr en hjá sardiníska félaginu Cagliari sem hann kom sér á kortið. Á tveimur tímabilum komst félagið úr C-deild upp í A-deild og fékk hann strax í kjölfarið tækifærið hjá Napoli. Þar var hann í tvö tímabil og náði þokkalegum árangri með liðið sem var í basli eftir að hafa misst átrúnaðargoðið Diego Maradona. Ranieri ákvað að hinn ungi Gianfranco Zola væri sá sem ætti að taka við þunganum í sóknarleik liðsins. Ákvörðun sem flestum eftirá spámönnum hlýtur að þykja hafa verið rétt.

Eftir að hafa þjálfað Napoli í tvö ár tók hann við liði Fiorentina sem var þá í B-deildinni. Hann kom þeim upp og vann síðan tvo titla, bikarinn og ofurbikarinn. Lið Fiorentina var á þessum tíma skipað frábærum leikmönnum á borð við Rui Costa, heimsmeistarann Marcio Santos, Francesco Baiano sem hafði skotist upp á stjörnuhimininn með hinu léttleikandi liði Foggia undir stjórn Zdenek Zemans og svo ljónsmakkanum Gabriel Omar Batistuta. Það er skemmtileg staðreynd að Batistuta skoraði einmitt í 11 leikjum í röð undir stjórn Ranieris, líkt og Jamie Vardy gerði nú nýverið. Ranieri lét einmitt þau orð falla, aðspurður um framistöðu Vardys að nú mætti loks nefna Vardy og Batistuta í sömu setningu.

Ranieri fékk nú tækifæri til þess að takast á við ennþá stærra verkefni, nefnilega hjá Valencia á Spáni. Þar var hann við stjórnvölinn í tvö ár, frá 1997-1999. Þar lagði hann grundvöllinn að liðinu sem síðar vann spænsku deildina og komst í úrslit Meistaradeildarinnar skömmu síðar með því að gefa ungum leikmönnum á borð við Santiago Canizares, Miguel Angulo og Gaizka Mendieta. (hér er rétt að færa til bókar að átt er við um þann Mendieta sem var einn besti leikmaður á Spáni, en ekki þann Mendieta sem síðar varð miðlungsleikmaður í Middlesborough.

Árið 1999 tók hann við Atletico Madrid en félagið var á þessum tíma í miklum vanda, bæði fjárhagslegum og stjórnunarlegum. Áður en tímabilinu lauk hafði Ranieri sagt upp störfum áður en eigandi liðsins, sem var þekktur fyrir að vera það sem á ítölsku kallast „mangia allenatori” eða „þjálfarabani” (bein þýðing: sá sem borðar þjálfara).

Feril Ranieris eftir dvöl hans hjá Atletico Madrid þekkja flestir íslenskir aðdáendur vel enda tók hann nú við liði Chelsea. Hann átti upphaflega í miklum vandræðum með tungumálið en vann ötullega að því að ná tökum á enskunni. Chelsea var á þessum tíma þekkt ítölsk nýlenda þar sem Roberto Di Matteo, Gianfranco Zola og Gianluca Vialli höfðu allir gert garðinn frægan, meðal annars sá síðastnefndi sem þjálfari liðsins. Samuel Dalla Bona er annar Ítali sem er freistandi að nefna í þessu samhengi en hentar af augljósri ástæðu ekki inn í þessa upptalningu á stórkostlegum leikmönnum.

Við komu Ranieris hófst mikil uppsveifla hjá liðinu og má færa afar sterk rök fyrir því að hann hafi lagt grunninn að gullaldartímabili liðsins sem náði ekki hámarki fyrr en Mourinho tók við liðinu. Hann fékk til liðsins þá Frank Lampard, Emmanuel Petit, Jesper Gronkjær og William Gallas. Þá er hann einnig sagður eiga þátt í þróun John Terrys sem leikmanns. Árið 2004, eftir að Roman Abramovich hafði átt félagið í eitt ár endaði Chelsea í öðru sæti í deildinni á eftir hinu óstöðvandi liði Arsenal og komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar þar sem liðið beið lægri hlut gegn Monaco.

Það var ekki nóg fyrir hinn kröfuharða Abramovich sem gaf Ranieri stígvélið. Hann sneri þá aftur til Valencia þar sem hann tók við af Rafael Benitez sem hafði náð stórkostlegum árangri með félagið. Í þetta sinn átti Ranieri eftir að taka ákvarðanir sem vörðuðu leikmannakaup sem líta afar illa út séð með augum eftirá spámannsins. Ítalirnir Stefano Fiore, Bernado Corradi og Emiliano Moretti verða seint sakaðir um að gera tilkall til sæta í frægðarhöll spænska boltans. Árangurinn Valencia varð eftir því og var Ranieri látinn fara vorið eftir þegar liðið var í sjötta sæti.

Hann tók sér þá hvíld frá knattspyrnu um hríð áður en hann sneri aftur til heimalandsins, nánar tiltekið til Parma. Félagið var þá í bullandi fallbaráttu en með tilkomu Ranieris hófst björgunaraðgerð sem vakti mikla athygli. Liðið bjargaði sér frá falli með frábærum sigrum. Svo mikla athygli vakti framistaða hans að við lok tímabilsins var tilkynnt um að hann væri næsti þjálfari Juventus.

Juventus var þá nýkomið upp í Serie-A á nýjan leik eftir skömmustufulla dvöl í B-deildinni eftir Calciopoli. Strax á fyrsta tímabilinu endaði liðið í þriðja sæti. Árið eftir endaði félagið í öðru sæti en þá var farið að gæta á nokkurri ókyrrð í herbúðum liðsins og var hann látinn fara sama dag og Inter Milan undir stjórn Jose Mourinhos voru krýndir meistarar.

Hann var þó ekki atvinnulaus lengi því strax í september 2009 tók hann við uppeldisliðinu Roma. Dvöl hans þar markaðist af ókyrrð í félaginu en er hann þó talinn eiga talsverðan þátt í því að innleiða mun betri menningu hjá félaginu en áður þekktist hjá félaginu. Árið eftir tók hann við Inter Milan en heldur ekki þar náði hann þeim árangri sem til var ætlast. Það má þó taka fram að á þessum tíma var eigandi Inter Milan farinn að loka peningaveskinu og árangurinn eftir því.

Árið 2012 tók hann við liði Monaco í B-deildinni í Frakkandi. Hann kom þeim strax upp í deild þeirra bestu og endaði liðið í þriðja sæti á sínu fyrsta tímabili þar áður en hann var látinn fara árið eftir eftir lakt gengi. Þá beið hans starf þjálfara gríska landsliðsins. Þeirri dvöl vill hann sennilega helst gleyma enda rekinn eftir aðeins örfáa leiki, sér í lagi vegna neyðarlegs taps gegn frændum okkar í Færeyjum.

Engir sóknarbakverðir eða léttleikandi miðverðir

En spurningunni er þá ósvarað: Hvernig týpa er Ranieri sem þjálfari?

Norðmaðurinn Tor-Kristian Karlsen var á sínum tíma yfirmaður íþróttamála hjá Monaco þegar Ranieri var við stjórnvölinn. Í nýlegu viðtali við norska TV2 lýsir Karlsen Ranieri sem fagmanni fram í fingurgóma. Þá blæs Karlsen einnig á þá gagnrýni að Ranieri sé og veiklundaður til að stjórna stóru knattspyrnuliði.

Karlsen segir að það sé vissulega sannleikskorn í því að Ranieri sé mikið fyrir að rótera mannskapnum á milli leikja. (þessi árátta Ranieris að gera miklar breytingar á liðinu á milli leikja er ástæða viðurnefnisins „Tinkerman”) Hins vegar sé það aðeins til þess að kynnast öllum leikmönnunum og komast að því hvernig karakter þeir hafi að geyma. „Þegar kemur að leikkerfum, þá er Ranieri afar ítalskur með gott varnarskipulag. Hann er heldur ekki þekktur fyrir að notast við sókndjarfa bakverði eða léttleikandi miðverði. Fyrir Ranieri skiptir mestu máli að nýta sér ójafnvægi í röðum andstæðinganna og refsa þeim með hröðum sóknum með snöggum sendingum fram völlinn,” segir Karlsen. Það er erfitt að vera ósammála því þegar litið er til leikstíls Leicester það sem af er tímabils. Vardy virðist henta fullkomlega í þennan leikstíl Ranieris og undirritaður hefur ekki tölu yfir þau skipti sem lýsendur segja Vardy hafa „refsað” andstæðingunum með réttu hlaupi á réttum tíma inn fyrir sofandi vörn andstæðinganna.

Hreinsar til hratt og örugglega

Karlsen vill þó benda á annan kost Ranieris sem hans helsta styrkleika og það eru samskiptahæfileikar hans. „Ef það er eitthvað ójafnvægi í leikmannahópnum sem þarf að laga, þá veit hann hvernig á að gera það,” segir Karlsen og nefnir dæmi um ungan leikmann sem hafi verið til trafala hjá Monakó.

„Einn leikmaður stóð sig vel inni á vellinum en var næstum því alltaf of seinn á æfingar. Sem yfirmaður íþróttamála talaði ég oft við leikmanninn en það hafði engin áhrif á hann. Leikmenn fóru margir að efast um leiðtogahæfileika Ranieris enda virtist hann ekkert skipta sér að hegðun leikmannsins.”

„En allt í einu opnaðist félagsskiptaglugginn og leikmanninum var hent öfugum út og nýr leikmaður kom inn í staðinn. Í stað þess að láta tilfinningar stjórna sér, tók hann pragmatíska ákvörðun sem gagnaðist félaginu gríðarlega. Leikmannahópurinn meðtók skilaboðin. Þetta er dæmi um góða leiðtogahæfileika,” segir Karlsen.

Karlsen bendir einnig á Riyadh Mahrez sem hinn fullkomna leikmann fyrir leikstíl Ranieris, snöggur, góða tækni og leitar alltaf í átt að markinu. Hann bætir raunar glettilega við að það búi „lítill djöfull” í Mahrez og að það sama megi segja um Ranieri.

Gabriel Omar Vardy

Annar sem hefur tjáð sig um stíl Ranieris er markahrókurinn sjálfur, Jamie Vardy. Vardy hefur eins og kunnugt er þakkað Ranieri fyrir traustið á þessu tímabili með óskiljanlegu markameti.

Við gefum Vardy orðið: „Við einbeitum okkur að varnarmönnum andstæðinganna og kortleggjum veikleika þeirra. Hvor hliðin þeirra sé veikari hliðin og hvort þeir séu oft að henda sér í tæklingar.”

Hæfileikar Ranieris sem þjálfari eru óumdeilanlegir og skilningur hans á bæði leiknum sjálfum og hugarfari leikmanna sömuleiðis. Það áhugaverðasta við feril hans er þó það hvernig hann hefur lagt áherslu á langtímauppbyggingu, og sérstaklega gefið ungum eða óreyndum leikmönnum tækifæri. Það kann að stinga í stúf við núverandi gengi Leicester, enda er hann aðeins á sínu fyrsta tímabili. En takist honum að halda þróuninni áfram og fleiri leikmenn fara að springa út er ekkert því til fyrirstöðu að Leicester geti fest sig í sessi á efri hluta stigatöflunnar á komandi árum. Leynist kannski einhver Mendieta, Lampard eða Zola í núverandi leikmannahópi Leicester? Tinkerman einn veit svarið.

http://www.tv2.no/a/7260838 - http://www.mirror.co.uk/sport/football/news/leicesters-jamie-vardy-reveals-huge-6880118
Athugasemdir
banner
banner
banner