Amorim hleypir Mainoo ekki burt - Tottenham vill Van Hecke og Thiago - Gæti Xavi tekið við Tottenham?
   mán 15. desember 2025 17:00
Kári Snorrason
Viðtal
Dagur Dan fer yfir skiptin - „Óskhyggja að vera í hverjum einasta landsliðshóp“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: CF Montre?al
Mynd: EPA
Dagur Dan Þórhallsson færði sig nýverið um set í MLS deildinni er hann skipti frá Orlando til Montreal. Dagur, sem er 25 ára, lék 116 leiki fyrir Orlando en hann kom til félagsins 2023 frá Breiðabliki.

Montreal endaði í 28. sæti af 30 liðum MLS-deildarinnar á þessu tímabili. Dagur skrifaði undir samning við Montreal til 2028 með möguleika á framlengingu til 2029, Fótbolti.net ræddi við Dag um skiptin til Montreal.

Áhuginn mikill
„Það má segja að þetta hafi átt sér alveg langan aðdraganda. Það kom strákur upp úr akademíu Orlando á árinu. Virkilega góður og ungur Bandaríkjamaður sem þeir vildu ýta áfram. Hann stóð sig hrikalega vel og átti það bara skilið. Hann tók stöðuna mína í byrjun árs og ég hugsaði að ég þurfti að skoða mig um.

Þá kom Montreal upp, þeir vildu fyrst fá mig í sumar. Á þeim tíma sagði ég nei, og ætlaði að sjá hvort að það kæmi eitthvað upp í Evrópu. Síðan kom þannig séð ekkert upp, síðan sýndu þeir alltaf meiri og meiri áhuga. Mér fannst spennandi hvað þeir höfðu mikinn áhuga á að fá mig, þannig að ég fór á fund með þeim. Eftir það kom þetta 'trade', og í október, nóvember vissi ég að þetta myndi gerast.“


„Þjálfarinn hringdi í mig nokkrum sinnum og sýndi mér mikinn áhuga. Ég var líka búinn að heyra að borgin væri falleg, evrópskt umhverfi aðeins öðruvísi en í Bandaríkjunum. Þegar maður er kominn með fjölskyldu og barn spilar það stóran þátt í ákvörðuninni. Ég er mjög glaður með þetta.“

Leitaði hugurinn til Evrópu?

„Mig langar alveg að spila í Evrópu. Draumurinn er að spila í eins góðri deild og ég get, eins háu 'leveli' og ég get í Evrópu. Það hefur ekki komið hingað til. Það var einhver áhugi á síðasta ári, en ég spilaði minna á þessu ári þannig það var ekki mikill áhugi frá liðum sem heilluðu mig. Það var einhver áhugi frá Skandinavíu en ég var spenntari að spila í MLS.“

Yfir hundrað leikir í MLS
Hvernig horfiru á tímann í Orlando?

„Þetta var besta ákvörðun sem ég hef tekið á ferlinum. Spilaði nánast í hverjum einasta leik og ef ég byrjaði á bekknum þá kom ég nánast alltaf inn á. Spilaði helling þar til í byrjun þessa árs, síðan var aðstaðan geggjuð og alltaf sól og sumar. Það var ekki hægt að kvarta, yndislegt.“

„Óskhyggja að vera í hverjum einasta landsliðshóp“
Dagur hefur verið í einum landsliðshóp frá því að Arnar Gunnlaugsson tók við stjórnartaumunum á landsliðinu. Dagur á að baki sjö landsleiki.

„Auðvitað væri ég til í að vera í þessum hóp. Ég fékk að fara í eitt verkefni, sem var ótrúlega skemmtilegt. Þetta eru allt vinir mínir og eitt það skemmtilegasta sem maður gerir. Það væri óskhyggja að vera í hverjum einasta hóp. Þetta er bara gamla tuggan að við erum með marga góða leikmenn, leikmenn sem spiluðu meira en ég á þessu tímabili.

Ég var ekkert að krefjast þess að vera í hópnum, út af ég var að spila minna en síðustu ár. Eins og síðustu tvö ár þá hefði ég verið meira pirraður, en núna hugsaði ég að ég væri ekki að spila nóg og ekkert sem ég get sagt.“


„Skiptin til Montreal eru auðvitað gerð með þetta í huga, út frá því að komast í þennan hóp. Um leið og ég byrja að spila meira og skora þá er ég allaveganna kominn á blað hjá landsliðinu aftur. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta næsta ár fer,“ sagði Dagur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner