Bruno vill ekki fara frá Man Utd - Enzo Fernandez orðaður við PSG - Atletico vill Gomes
   fös 16. janúar 2026 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Tekst Wenger að breyta rangstöðureglunni?
Arsené Wenger er 76 ára gamall og er enn að hafa áhrif á fótboltaheiminn.
Arsené Wenger er 76 ára gamall og er enn að hafa áhrif á fótboltaheiminn.
Mynd: EPA
Breytist rangstöðureglan eins og við þekkjum hana á næstu árum? Síðasta stóra reglubreytingin kom árið 1990 eftir hundleiðinlegt heimsmeistaramót á Ítalíu.
Breytist rangstöðureglan eins og við þekkjum hana á næstu árum? Síðasta stóra reglubreytingin kom árið 1990 eftir hundleiðinlegt heimsmeistaramót á Ítalíu.
Mynd: Raggi Óla
Arsené Wenger, fyrrum þjálfari Arsenal, starfar í dag sem yfirmaður hjá Alþjóðafótboltasambandinu FIFA og hefur verið duglegur í að setja mark sitt á íþróttina með ýmsum hugmyndum og reglubreytingum.

Í næstu viku verður tillaga Wenger varðandi rangstöðuregluna rædd aftur en hún hefur verið umtöluð síðastliðin sex ár eftir að fyrst var talað um hana á fundi FIFA 2020.

Wenger vill að sóknarmenn fái að njóta vafans með þeim hætti að þeir séu ekki rangstæðir ef einhver líkamspartur þeirra er í línu við einhvern líkamspart aftasta varnarmanns.

Wenger er þreyttur á naumum rangstöðudómum þar sem er aðeins spursmál um millimetra. Hann vill auka markaskorun með því að gefa sóknarmönnum aukið forskot.

Þegar Wenger var ráðinn sem yfirmaður fótboltaþróunar hjá FIFA í nóvember 2019 var eitt af hans meginmarkmiðum að finna leiðir til að gera fótbolta að skemmtilegri íþrótt með því að hvetja til meiri sóknarbolta.

Það er mikil tregða hjá fótboltayfirvöldum við að innleiða hugmynd Wenger vegna þess að þetta yrði mjög stór breyting á rangstöðureglunni. Þetta yrði fjórða stærsta breyting á reglunni frá því að hún var sett fyrst á laggirnar árið 1863.

Umtal um breytingar á rangstöðureglunni dóu niður með innleiðingu og bætingu á hinum ýmsu rangstöðukerfum, hvort sem þau eru sjálfkrafa eða hálfsjálkrafa, en núna er umræðan að spretta aftur upp á yfirborðið og því verður málið tekið fyrir á fundi FIFA í næstu viku.

Umræðan er að spretta upp útaf mikið af naumum rangstöðudómum sem VAR-kerfin hafa átt í vandræðum með að skera úr um án aðstoðar frá mannfólki. Til dæmis tók fimm og hálfa mínútu að dæma mark af Manchester City gegn Newcastle í deildabikarnum í miðri viku þegar leikmennirnir voru alltof nálægt hvorum öðrum og útaf því virkaði hálfsjálfvirka kerfið ekki.

Atvikið í deildabikarnum er langt frá því að vera einsdæmi í evrópska boltanum þar sem í flestum tilvikum taka dómarateymin uppá því að notast við gamla kerfið sitt þar sem VAR-dómarar teikna línur til að skera úr um atvikið. Það tekur sinn tíma sem er neikvætt fyrir leikinn.

Þó að reglunni yrði breytt er ljóst að áfram þyrfti að notast við VAR-kerfið til að skera úr um vafaatriði.
Athugasemdir
banner
banner