Man Utd íhugar að gera 40 milljóna punda tilboð í Delap - Liverpool tilbúið að bjóða Nunez upp í Isak - Tottenham horfir til stjóra Bournemouth
   sun 16. febrúar 2025 09:00
Elvar Geir Magnússon
Aþenu
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Stór hluti Aþenubúa vonast eftir sigri Víkings
Elvar Geir Magnússon
Ferðin er auðvitað líka notuð til að túristast.
Ferðin er auðvitað líka notuð til að túristast.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Víkingur vann 2-1 sigur í Helsinki.
Víkingur vann 2-1 sigur í Helsinki.
Mynd: Víkingur
„Ég held einmitt með Víkingi!" sagði gríski bílstjórinn við mig og benti á lyklakippuna sína sem var með merki Olympiakos.

Bílstjórinn sem sótti mig á flugvöllinn eftir að ég lenti í Aþenu er í harðkjarna stuðningssveit Olympiakos og notaði tækifærið þegar við vorum fastir í leiðinlegum umferðarteppum Aþenuborgar í að sýna mér myndbönd sem hann hefði tekið á leikjum liðsins. Rauð blys, mikil læti, mikil stemning.

Stuðningsmenn Olympiakos vonast til þess að Víkingur slái út erkifjendurna í Panathinaikos á fimmtudaginn. Bílstjórinn góði spurði mig hvort ég gæti reddað sér Víkingstreyju, ekki síst til að stríða vinum sínum sem halda með Panathinaikos. Hann horfði á fyrri leikinn og var ekki sammála vítadómnum.

Grannaslagur hinna eilífu óvina
Panathinaikos og Olympiakos, sigursælustu og vinsælustu lið Grikklands, eru hatrammir erkifjendur. Talað er um 'grannaslag hinna eilífu óvina' þegar liðin mætast og oft eru mikil læti í kringum leikina, sæti brotin, kveikt á blysum og stundum er slegist á götum úti.

Í 40 mínútna kennslustund sem ég fékk frá bílstjóranum um grískan fótbolta sagði hann að hjartað og einkennið í grískum fótbolta væru stuðningsmennirnir. Frekar en gæði fótboltans væri það ástríðan í fólkinu í stúkunni sem sé undirstaðan. Ég held að það sé mikið til í þeim orðum.

Aþena er gríðarleg fótboltaborg og á svæðinu búa um 4 milljónir. Auk fyrrnefndra félaga er AEK þriðja stóra félagið í borginni. Að hingað séu Víkingar frá Reykjavík mættir og það með forystu í einvígi gegn Panathinaikos er algjörlega ævintýralegt. Maður getur ekki beðið eftir fimmtudeginum.
Athugasemdir
banner
banner
banner