Óeirðarmaðurinn Ivan Bogdanov hefur oft verið notaður sem andlit ofbeldisfullra boltabullna og húliganisma. Hann varð heimsfrægur þegar allt fór í háaloft í leik Ítalíu og Serbíu í undankeppni EM árið 2010 og sat inni í kjölfarið.
Ivan var mættur aftur á völlinn þegar Serbía mætti Albaníu í umtöluðum leik á þriðjudagskvöldið síðasta. Hann var bókstaflega mættur inn á völlinn. Hvernig getur það gerst að þessi maður fær inngöngu inn á leik milli tveggja þjóða sem hafa verið í hatrömmum deilum?
Það vakti athygli þegar harðkjarna stuðningsmenn Rauðu stjörnunnar frá Belgrad voru skyndilega mættir til Genóa að fylgjast með ítalska landsliðinu mæta því serbneska fyrir fjórum árum. Þessi hópur var ekki vanur því að fylgja landsliðinu. Kenningar hafa verið uppi um að hópurinn hefði fengið borgað fyrir að sjá til þess að leikurinn yrði stöðvaður. Ekki hefur það verið sannað.
Boltabulluhópurinn er að mestu skipaður einstaklingum sem ólust upp við erfiðar aðstæður og óvissu. Foringi hópsins er umræddur Ivan Bogdanov og hann var ansi áberandi í Genóa. Sérstaka athygli vakti hversu óhræddur hann var við lögregluna og afleiðingar þess sem hann var að gera.
Fyrir leik brutust út slagsmál milli áhorfenda og lögreglu en inni á sjálfum leikvangnum fór allt í bál og brand. Ivan var með lambhúshettu á höfðinu og klifraði upp á girðingu sem aðskildi stuðningsmenn
Fjöldaslagsmál brutust út og þegar blysum var kastað inn á völlinn og að stuðningsmönnum Ítalíu var leikurinn flautaður af, aðeins sjö mínútum eftir að hann var flautaður á. Fjöldi fólks slasaðist og margir voru handteknir. Seinna kom í ljós að lætin voru vandlega skipulögð af Ivan og hans mönnum.
Fangageymslur í Genóa urðu heimili Ivan Bogdanov næstu mánuði eftir atburðinn en var svo framseldur heim til Serbíu þar sem hans beið lengri fangelsisvist fyrir önnur ofbeldisbrot.
Ivan var nýlaus úr fangelsinu þegar hann var mættur aftur í fréttirnar fyrir slagsmál sem brutust út á leik Rauðu stjörnunnar. Í flestum löndum Evrópu hefði hann fengið ævilangt bann frá fótboltavöllum eftir atvikið í Genóa en ekki í Serbíu.
Leikur Serbíu og Albaníu síðasta þriðjudag hefur verið mikið í umræðunni eftir að hann var flautaður af vegna óeirða sem brutust út í kjölfar þess að fána "Stóru-Albaníu" var flogið yfir völlinn með dróna.
Ivan Bogdanov var í stúkunni. Hann var ekki eins áberandi og í Genóa fyrir fjórum árum en komst framhjá öryggisgæslunni og hljóp inn á völlinn þegar lætin voru sem mest.
Kominn er mikill þrýstingur á knattspyrnusambandið og yfirvöld í Serbíu að fara að bregðast við af krafti og setja manninn í bannið sem hann á skilið. Fróðlegt verður að sjá framhald málsins.
Heimildir:
Guardian
BBC
avaz.ba
Athugasemdir