Haaland að fá nýjan risasamning - Ruud í molum - Llorente aftur í úrvalsdeildina? - Cherki til Liverpool?
   sun 17. nóvember 2024 17:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Aron Dagur ætlar sér byrjunarliðssæti: Risastór klúbbur og eitt besta lið landsins
Aron leikið með Grindavík síðustu fjögur tímabil.
Aron leikið með Grindavík síðustu fjögur tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Lék á sínum tíma 15 leiki með unglingalandsliðunum.
Lék á sínum tíma 15 leiki með unglingalandsliðunum.
Mynd: KA.is
Þreytti frumraun sína með KA og var eitt tímabil á láni hjá Völsungi.
Þreytti frumraun sína með KA og var eitt tímabil á láni hjá Völsungi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rajko Stanisic er markmannsþjálfari Stjörnunnar.
Rajko Stanisic er markmannsþjálfari Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni Snær Ólafsson.
Árni Snær Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haraldur Árni Hróðmarsson, Halli, tók við Grindavík í júní af Brynjari Birni Gunnarssyni.
Haraldur Árni Hróðmarsson, Halli, tók við Grindavík í júní af Brynjari Birni Gunnarssyni.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Aron Dagur Birnuson var í síðasta mánuði tilkynntur sem nýr leikmaður Stjörnunnar. Hann kemur í Stjörnuna frá Grindavík þar sem hann hefur spilað í Lengjudeildinni síðustu fjögur tímabil. Aron, sem er 25 ára, er uppalinn hjá KA og steig þar sín fyrstu skref í meistaraflokki. Hann er með sterka tengingu við Grindavík og hélt þangað fyrir tímabilið 2021 og var aðalmarkvörður liðsins.

Hann semur við Stjörnuna til þriggja ára og ætlar sér að verða aðalmarkvörður liðsins. Aron ræddi við Fótbolta.net um félagaskiptin og tímann með Grindavík.

„Það er frábær tilfinning að vera orðinn leikmaður Stjörnunnar, risastór klúbbur og eitt besta lið landsins sem er með mikinn metnað í að gera vel," segir Aron sem segir að ekkert annað félag hafi reynt að fá sig núna í haust.

„Það voru engin félög sem höfðu samband þar sem ég var ennþá á samningi hjá Grindavík og átti þannig séð eitt ár eftir. Ég var með ákvæði í samningnum þar sem ég gat sagt honum upp eftir 2024 tímabilið, sem ég nýtti mér og skrifaði undir eiginlega strax í kjölfarið hjá Stjörnunni."

Aron var orðaður við KA í haust. Var eitthvað til í því?
„Ég heyrði aldrei neitt frá KA, engin samtöl milli mín og þeirra."

Í samkeppni við einn fremsta markmann landsins
Árni Snær Ólafsson hefur verið aðalmarkvörður Stjörnunnar síðustu tvö tímabil. Hvernig leggst það í Aron að fara í samkeppni við Árna?

„Mjög vel, Árni er búinn að sanna sig sem einn fremsti markmaður landsins síðustu ár og er búinn að vera frábær fyrir Stjörnuna. Það er því alvöru áskorun að fara í samkeppni við hann og fullt af hlutum sem ég er að fara læra af honum, þannig að ég er mjög spenntur fyrir því."

Leið eins og hann hefði það of gott
Aron var orðaður við félagaskipti síðasta vetur, möguleg skipti í Bestu deildina. Hvernig var staðan?

„Staðan var þannig að mig langaði að fara hærra, spila í Bestu deildinni og komast í öðruvísi umhverfi. Mér fannst eins og ég þyrfti að stíga upp til að bæta mig ennþá meira, mér leið kannski eins og ég hafði það of gott hjá Grindavík."

„Ég var þannig séð ekki nálægt því að fara annað þrátt fyrir að hafa átt einhver samtöl, ég átti þá eitt ár eftir af samningi og ekkert ákvæði á þeim tíma sem ég gat nýtt mér."


Eftirsjá að fara án þess að hafa gert eitthvað með liðinu
Aron var spurður út í tíma sinn með Grindavík.

„Tíminn hjá Grindavík var mjög mikið upp og niður þar sem öll fjögur tímabilin voru mjög kaflaskipt og árangurinn kannski ekki verið mikill, þannig það er alveg smá eftirsjá að fara án þess að hafa gert eitthvað með liðinu."

„Það hefur verið mjög mikil hreyfing á hópnum síðan ég kom, oft tíu manns inn og tíu út og alls fimm þjálfarar á fjórum árum sem er ekki ákjósanlegt fyrir fótboltalið. En persónulega hefur þetta verið mjög fínn tími þar sem ég hef bætt mig helling og spilað nánast hvern einasta leik."


Gengið batnaði eftir þjálfaraskiptin
Jarðhræringar síðasta árið við Grindavík settu heldur betur risastórt strik í reikninginn hjá Grindvíkingum.

„Tímabilið 2024 var mjög skrýtið svo vægt sé til orða tekið, við vorum að æfa 4-5 sinnum í viku á 3-4 mismunandi stöðum síðasta vetur, mismunandi undirlag fyrir hverja æfingu og margt fleira sem erfitt er að aðlagast."

„Mér fannst við koma inn í mótið í frekar mikilli óvissu þar sem það voru nýir leikmenn að detta inn frekar seint og við höfðum ekki spilað mikið saman, þannig það var brekka í byrjun. Mér fannst við samt geta lagt meira á okkur, fannst eins og við værum með lið sem gæti unnið hvern sem er í deildinni ef allir væru 100%."

„Síðan kemur smá innspýting þegar Halli kemur inn, eins og gerist hjá öllum liðum þegar þeir fá nýjan þjálfara. Menn þurfa að sanna sig upp á nýtt og leggja extra mikið á sig til að vera í liðinu, þá fór að ganga betur."


Mörg rauð spjöld um mitt mót
Það var kafli á síðasta tímabili þar sem Grindvíkingar fengu mörg rauð spjöld. „Á kafla fengum við endalaust af rauðum spjöldum, margir meiddust og við töpuðum fimm leikjum í röð sem er dýrt í 22 leikja móti. Mér fannst þessi rauðu spjöld sem við fengum oft á tíðum algjört rugl, fengum fjögur rauð í fjórum leikjum minnir mig og sami dómarinn gefur okkur þrjú rauð."

Magnað fólk í kringum liðið - Ánægður með markmannsþjálfarann
„Þegar ég hugsa til baka yfir síðasta tímabil, þá var ég sáttur miðað við allt sem við gengum í gegnum, ég ásamt flestum í liðinu að flýja heimilin okkar, mikið af breytingum og eiginlega magnað að fólkið í kringum okkur hafði orku í að hugsa svona vel um okkur í kringum fótboltann þegar það voru miklu stærri vandamál í gangi."

„Persónulega fannst mér ganga mjög vel, fékk nýjan markmannsþjálfara frá Spáni, Karim the dream eins og hann er oft kallaður. Mjög óhefðbundnar æfingar hjá honum og allt aðrar áherslur en maður er vanur, en það var geggjað fyrir mig að fá að vinna með honum þar sem ég lærði eitthvað nýtt á hverjum degi og bætti mig helling hjá honum."


Stefnir á að verða aðalmarkvörður
Hvað langar Aron að afreka hjá Stjörnunni?

„Fyrst og fremst langar mig að spila hvern einasta leik og sýna öllum hvað ég get, einnig langar mig að spila í Evrópukeppni og keppast um efsta sætið, sem ég held að verði góður möguleiki á í Stjörnunni þar sem það eru 2-3 geggjaðir leikmenn í hverri stöðu."

Geggjað að fara í Rakjo skólann
Jökull Elísabetarson er þjálfari Stjörnunnar og Rajko Stanisic er markmannsþjálfari. Hvernig leggst það í Aron að vinna með þeim?

„Mjög vel, ég tók fund með Jökli áður en ég skrifaði undir og mér fannst það heilla mjög mikið hvernig þeir spila og hvað þeir leggja upp með."

„Einnig verður geggjað að fara í Rajko skólann, þekki hann aðeins eftir að hann tók nokkrar æfingar með okkur í Grindavík þegar Bjössi Hreiðars var að þjálfa. Það verður alvöru ákefð og hár standard sem mér líst mjög vel á,"
segir Aron að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner