
Valsmenn hafa verið magnaðir í Bestu deildinni en voru slegnir niður á jörðina í dag þegar þeir töpuðu 1-3 fyrir Lengjudeildarliði Grindavíkur. Arnar Grétarsson þjálfari Vals biður stuðningsmenn liðsins afsökunar á frammistöðunni.
Lestu um leikinn: Valur 1 - 3 Grindavík
„Maður er búinn að sjá fyrsta markið þeirra aftur og það var mjög ódýrt. Það er alltaf erfitt að lenda undir gegn liði sem fellur svona til baka. Svo gefum við þeim annað mark úr föstu leikatriði. Við vorum svo hægir að færa og sköpuðum okkur rosalega lítið," segir Arnar.
„Þriðja markið sem Óskar skoraði drap allan neista sem var til staðar þá. Frammistaðan í dag var alls ekki nægilega góð, það er sárt því við ætluðum okkur að fara alla leið í þessari keppni. Þetta sýnir okkur að við getum tapað gegn hverjum sem er ef við erum ekki í standi.
„Fyrir stuðningsmenn Vals er þetta virkilega svekkjandi, maður biður þá bara afsökunar á þessari frammistöðu. Þetta var það dapurt."
Athugasemdir