Guehi til sölu - Everton hafnaði fyrirspurnum í Branthwaite - Wharton falur fyrir 70 milljónir
   lau 18. október 2025 23:30
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Frakkland: Greenwood skoraði fjögur er Marseille fór á toppinn
Mynd: EPA
Mason Greenwood var í stuði þegar Marseille komst á toppinn í frönsku deildinni eftir öruggan sigur gegn Le Havre.

Marseille fékk tækifæri til að komast á toppinn en PSG hefur gert tvö jafntefli í röð.

Le Havre komst yfir en Gautier Lloris, bróðir Hugo Lloris, fyrrum markvarðar Tottenham og franska landsliðsins, fékk að líta rauða spjaldið eftir rúmlega hálftíma leik.

Marseille fékk þá vítaspyrnu og Greenwood jafnaði metin. Marseille var komið í 4-1 þegar stundafjórðungur var til loka venjulegs leiktíma en Greenwood skoraði öll mörkin.

Hinn 18 ára gamli Robinio Vaz bætti fimmta markinu við eftir undirbúning Pierre-Emerick Aubameyang. Le Havre skoraði svo sárabótamark en Michael Murillo skoraði sjötta mark Marseille, 6-2 lokatölur.

Marseille er með 18 stig eftir átta umferðir en PSG er með 17 stig. Lyon tapaði gegn Nice í dag. Lyon er í 4. sæti með 15 stig en Nice í 8. sæti með 11 stig. Mónakó gerði 1-1 jafntefli gegn Angers. Mónakó er með 14 stig í 5. sæti en Angers í 17. og næst neðsta sæti með sex stig.
Athugasemdir
banner