Rashford vill fara til Barcelona - Man Utd gæti reynt að skipta á Rashford og Osimhen - Ferguson og Williams orðaðir við Arsenal
   mið 20. febrúar 2019 12:00
Magnús Már Einarsson
Lára opnar sig um matarfíkn: Vanlíðan, feluleikur og stuldur
Lára í bikarúrslitaleik Stjörnunnar og Breiðabliks síðastliðið sumar.
Lára í bikarúrslitaleik Stjörnunnar og Breiðabliks síðastliðið sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lára í leik með Aftureldingu árið 2013.
Lára í leik með Aftureldingu árið 2013.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lára í leik með Stjörnunni árið 2014.
Lára í leik með Stjörnunni árið 2014.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lára í leik með Stjörnunni árið 2015.
Lára í leik með Stjörnunni árið 2015.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lára í leik gegn Val síðastliðið sumar.
Lára í leik gegn Val síðastliðið sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það var í kringum tvítugt sem ég fór að hugsa að þetta væri alls ekki eðlileg hegðun og fór að skoða þetta betur," segir Lára Kristín Pedersen, miðjumaður Þór/KA í hlaðvarpsþættinum Miðjunni en þar opnar hún sig um baráttu við matarfíkn.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Láru í Miðjunni

„Þetta lýsir sér í óeðlilegu sambandi við mat, óeðlilegri hegðun í kringum mat og óeðlilegri löngun. Þetta er ekki bara það að þér finnist gott að borða. Þú breytir allri þinni hegðun í kringum mat."

Fór ein að Hafravatni til að borða pizzu
Lára er 24 ára gömul í dag en hún segist hafa verið lengi að glíma við matarfíkn.

„Þegar ég var 16-17 ára man ég eftir skiptum þar sem ég keyrði upp að Hafravatni eftir æfingu með Aftureldingu og borðaði Domino's pizzu í laumi. Ég hélt að ég vildi einveru og frið og eitthvað. Síðan fer þetta stigmagnandi og þetta verður verra og verra. Loturnar í átinu verða oftar og oftar og þetta fer að taka yfir meira af lífi manns," segir Lára í Miðjunni.

„Ég á ennþá erfitt með að útskýra fyrir fólki hversu illa manni líður þegar maður er í sinni neyslu. Þetta er bara neysla þó að neysla sé svolítið hardcore orð. Maður er fastur í viðjum neyslunnar og þetta hefur áhrif á alla þætti í lífinu."

Stal mat af vinkonum sínum
Lára Kristín náði lengi að halda matarfíkninni leyndri fyrir sínum nánustu og segist stanslaust hafa verið í feluleik. Lára fór í háskóla til Bandaríkjanna þar sem hún spilaði fótbolta. Þar fór matarfíknin að aukast.

„Ég bjó með sjö öðrum stelpum þarna. Öll mín dvöl snerist um að það væri enginn annar væri staddur í húsinu svo ég gæti borðað allt sem ég vildi borða. Þetta var ekki hollur matur. Þú ert að troða í því sem veitir þér mesta kickið," sagði Lára.

„Ég var svo ánægð með að ég bjó með sjö stelpum. Ég gat dreift því þegar ég var að stela mat af þeim. Ég myndi ekki stela af þessum stelpum penna en það var ekkert mál að stela eða ljúga um mat."

Hélt hún væri þunglynd
Matarfíknin hélt áfram að hafa áhrif á Láru eftir háskóladvölina í Bandaríkjunum. Hún samdi við Stjörnuna þegar heim var komið en missti af Evrópuleik með liðinu haustið 2014.

„Ég treysti mér ekki til þess að spila og hélt að þetta væri þunglyndi að hrjá mig," útskýrir Lára en hún hélt sjálf lengi vel að hún væri að glíma við þunglyndi. Árið 2015 áttaði Lára sig hins vegar á því að um matarfíkn væri að ræða.

Byrjaði að skoða hjálp eftir vitðalið við Þórð
Lára hafði oft misst af æfingum vegna matarfíknarinnar og fyrir bikarúrslitaleik Stjörnunnar og Selfoss árið 2015 var hún tekin út úr byrjunarliðinu.

„Það var mikill skellur og tók mjög mikið á. Á þessum tíma hélt maður að fótbolti væri allt og ég held að ég hafi þurft að fá skellinn í fótboltanum," segir Lára.

„Eftir tímabilið las ég viðtal við Þórð (Ingason) markvörð í Fjölni þar sem hann var að opna sig um áfengisvanda sín. Ég hugsaði 'Guð minn góður, hann er að lýsa mínu sumri. Þú þarft bara að setja inn Lára í staðinn fyrir Þórður og matur í staðinn fyrir áfengi. Þá hugsaði ég að þetta myndi ekki ganga svona áfram og í kjölfarið byrjaði mitt ferli í að leita aðstoðar við þessu en ekki einhverju öðru sem ég hélt að væri að mér."

Erfiður vetur þar sem átið tók yfir
Lára vissi á þessum tímapunkti hvert vandamálið væri en hún átti hins vegar mjög erfitt uppdráttar veturinn 2016/2017. Matarfíknin tók þá alveg yfir í nokkra mánuði.

„Sá vetur var sá langerfiðasti. Þá var þetta búið að taka það mikið yfir. Dagarnir voru allir eins. Maður vaknaði og ætlaði að hætta þessu loksins en það liðu kannski ekki meira en tíu mínútur áður en maður var farin út í ruslatunnu að ná í það sem maður henti kvöldinu áður og ætlaði ekki að snerta. Ég bý við hliðina á ömmu og afa og þá fór ég yfir til þeirra og stal einhverju af þeim. Maður var á beit allan daginn. Fór kannski í Hagkaup Garðabæ og nokkrum tímum seinna pantaði maður sér pizzu," sagði Lára.

Lára var að þjálfa 4. flokk kvenna hjá Stjörnunni á þessum tíma og hún mætti ítrekað ekki á æfingar vegna matarfíknarinnar. Það sama átti við um æfingar með meistaraflokki Stjörnunnar.

„Þarna var þetta farið að taka yfir allt sem maður var að gera. Þetta tímabil sýndi mér hvað þetta er alvarlegri sjúkdómur en maður gerir sér grein fyrir í fyrstu. Mér var sama um liðið og sama um vinina. Ég var að særa fjölskylduna mikið og var sama um það. Maður nær sér ekki út úr þessu og þetta tekur mann alveg yfir," sagði Lára.

Fann hjálp
Árið 2017 fann hún síðan loksins leið sem hefur hjálpað sér mikið í baráttunni.

„Það er til meðferð á Íslandi við matarfíkn. Ég leitaði til konu sem rekur matarfíknarmiðstöð á Íslandi. Þar fann ég varanlega lausn sem ég hef unnið í á hverjum degi síðan þá."

„Þetta kallast fráhald, þá heldur maður sig frá ákveðnum matartegundum sem valda fíkn, eins og alkahól fyrir alkahólistann. Þú vigtar allar þinn mat. Borðar þrjár nokkuð stórar máltíðir á dag og vigtar hvert einasta gramm."


Lára mætir reglulega á fundi út af matarfíkninni og hefur meðal annars neyðst til að sleppa æfingum vegna þeirra. „Ég hef alveg dottið í einhverja sjálfsvorkun. Hvað er ég að eyða tíma í svona þegar ég er á besta aldri og get æft eða hitt vini á kvöldin? Maður þarf að ná sér út úr því og átta sig á því hvað þetta er að gera fyrir mann."

Vill hjálpa öðrum í sömu sporum
Lára veit af fleiri íþróttamönnum sem glíma við matarfíkn en sjálf vonast hún til að geta hjálpað öðrum í sömu sporum í framtíðinni.

„Ég er ánægð hvar ég stend í dag. Bæði hvað kemur af fótboltanum og hvar ég er stödd með þetta," segir Lára.

„Ég hef fundið það á síðustu tveimur árum að ég fæ mikið úr því að hjálpa fólki þegar kemur að þessu. Ég gæti séð fyrir mig að starfa við þetta í framtíðinni. Ég hef verið opnari með þetta síðustu mánuði, í vinnunni og annað, og hef séð magnaða hluti gerast, bara með því að vera hreinskilin með þetta. Það er gott að hjálpa fólki í sömu sporum."

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Láru í Miðjunni
Athugasemdir
banner
banner
banner