Gary Martin - Víkingur R.
„Ég held að þetta sé sanngjörn spá. Spár eru hluti af fótboltanum og ekkert segir að þær muni rætast en mér finnst þetta vera eðlileg spá," segir Gary Martin framherji Víkings R. um að liðinu sé spáð sjötta sæti í Pepsi-deildinni í sumar.
„Við höfum góðan hóp og mjög góðan þjálfara. Við höfum náð góðum úrsltium á undirbúningstímabilinu og tilfinningin er góð í liðinu. Við bíðum spenntir eftir að tímabilið byrji. Markmið liða er alltaf að gera betur en á síðasta tímabili og það er ekkert öðruvísi hjá okkur."
Gary kom til Víkings frá KR í vetur en hver eru markmið hans með nýju félagi?
„Mitt aðalmarkmið er að vera glaður, fá gleðina aftur, og njóta fótboltans. Mér líður vel hér og ég er aftur farinn að verða besta útgáfan af sjálfum mér. Þú getur bara spilað þinn besta fótbolta þgar þú ert ánægður, hefur traust frá þjálfaranum og passar vel inn með liðsfélögum þínum. Ég ætla að spila aftur upp á mitt besta og hjálpa liðinu eins mikið og ég get," sagði Gary sem stefnir á að skora mikið í sumar.
„Ég set alltaf miklar kröfur á sjálfan mig og stefni á að skora í öðrum hverjum leik ef ég er alltaf í byrjunarliðinu. Þá skiptir ekki máli hvort ég spili númer 10, á köntunum eða frammi. Ég vil líka leggja upp mörg fyrir liðsfélagana og ég tel að það sé betra að vera þekktur sem leikmaður sem getur spilað margar stöður og skapað og skorað frekar en að vera bara markaskorari. Ég er ekki með neitt markmið fyrir þetta tímabil, ég vil bara vera ánægður og spila fótbolta. Þá ætti frammistaðan og mörkin að koma og vonandi náum við oft í þrjú stig."
Gary mætir sínum gömlu félögum í KR í úrslitum Lengjubikarsins annað kvöld en þessi sömu lið mætast 2. maí á KR-velli í 1. umferð Pepsi-deildarinnar.
„Auðvitað verður skrýtið að mæta KR tvisvar á svona stuttu tímabili. Leikurinn á fimmtudag verður alvöru leikur á alvöru tempói. Enginn vill samt meiðast og ég held að bæði lið viti að leikurinn 2. maí er mikilvægari en fimmtudagskvöldið," sagði Gary.
Athugasemdir