Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   mán 20. maí 2024 18:15
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Langþráður fyrsti sigur KA kom gegn Fylki
Daníel Hafsteinsson skoraði tvö fyrir KA
Daníel Hafsteinsson skoraði tvö fyrir KA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn kom inn af bekknum og lagði upp fjórða mark KA
Viðar Örn kom inn af bekknum og lagði upp fjórða mark KA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA 4 - 2 Fylkir
1-0 Sveinn Margeir Hauksson ('3 )
2-0 Daníel Hafsteinsson ('25 )
2-0 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('45 , misnotað víti)
3-0 Daníel Hafsteinsson ('45 )
3-1 Matthias Præst Nielsen ('53 )
3-2 Aron Snær Guðbjörnsson ('75 )
4-2 Ásgeir Sigurgeirsson ('89 )
Lestu um leikinn

KA vann í dag sinn fyrsta leik í Bestu deild karla á tímabilinu er það lagði Fylki að velli, 4-2, á Greifavellinum á Akureyri.

Fram að þessum leik hafði KA tapað fjórum og gert tvö jafntefli í deildinni á meðan Fylkir hafði tapað fimm og gert eitt jafntefli.

Heimamenn byrjuðu vel. Sveinn Margeir Hauksson skoraði á 3. mínútu eftir sendingu Ívars Arnar Árnasonar. Sveinn virkaði rangstæður en markið dæmt gott og gilt.

Daníel Hafsteinsson tvöfaldaði forystuna á 25. mínútu. Hallgrímur Mar Steingrímsson lagði boltann inn í teiginn og lét Andri Fannar Stefánsson boltann fara í gegnum klofið á sér þannig Daníel gæti afgreitt boltann í netið. Einstaklega vel gert.

Sveinn Margeir komst nálægt því að bæta við öðru marki sínu undir lok hálfleiksins. Steinþór Már Auðunsson, markvörður KA, átti langan bolta fram og náði Sveinn að leika á Ólaf Kristófer Helgason í marki Fylkis, en skotið hafnaði í þverslá.

Stuttu síðar fengu KA-menn vítaspyrnu. Ólafur Kristófer varði vítaspyrnu Hallgríms en Daníel var fyrstur að átta sig og náði að setja frákastið í netið.

Fylkismenn komu ákveðnir inn í síðari hálfleikinn. Matthias Præst minnkaði muninn með laglegu skoti fyrir utan teig á 53. mínútu og þá náði Aron Snær Guðbjörnsson í annað mark með skalla þegar stundarfjórðungur var eftir.

Ómar Björn Stefánsson kom sér í ágætis færi til að jafna leikinn þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma en boltinn framhjá markinu.

Þegar lítið var eftir gulltryggði Ásgeir Sigurgeirsson fyrsta sigur tímabilsins hjá KA. Viðar Örn Kjartansson hafði komið inn á sem varamaður, en hann sendi Ásgeir í gegn sem vippaði boltanum yfir Ólaf og í netið.

Fyrsti sigur KA staðreynd og heldur langþráður sigur. Liðið er nú með 5 stig í næst neðsta sæti en Fylkir áfram á botninum með aðeins eitt stig.
Athugasemdir
banner
banner