Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   fim 22. febrúar 2024 12:44
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stara Pazova
Stelpurnar okkar æfa og spila í „húsi fótboltans" í Stara Pazova
Icelandair
Frá æfingu Íslands í dag en Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, nýr styrktarþjálfari landsliðsins, stýrði upphituninni.
Frá æfingu Íslands í dag en Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, nýr styrktarþjálfari landsliðsins, stýrði upphituninni.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Íslenska kvennalandsliðið er mætt til Serbíu þar sem liðið mætir heimakonum í fyrri leik liðanna í umspili Þjóðadeildarinnar á morgun.

Liðið dvelur í höfuðborginni Belgrað en í um hálftíma akstursfjarlægð er leikvöllurinn Sportski centar FSS í Stara Pazova. Liðið æfði á þeim velli í morgun. Hann er ekki í fullkomnu ástandi en lítur betur út en æfingavöllur Rauðu stjörnunnar sem liðið æfði á í gær.

Fréttamaður Fótbolta.net lenti í Belgrad í gær og ferðaðist svo yfir til Stara Pazova, en það er ekki hægt að segja hér sé mjög líflegt.

Það er mikill sveitabragur yfir bænum en hér er knattspyrnusamband Serbíu með aðstöðu sem kölluð er „hús fótboltans". Sambandið ræður yfir landsvæði og á því er flott hótel og nokkrir æfingavellir. Og einn fótboltavöllur með flottri stúku þar sem kvennalandslið Serbíu spilar leiki sína.

Stjórnvöld í Serbíu byggðu þetta flotta svæði upp með hjálp frá FIFA og UEFA, en það opnaði árið 2011.

Það verður að segjast að það er kannski erfitt að mæla með heimsókn til Stara Pazova en leikurinn á morgun verður virkilega áhugaverður, og mikilvægur. Á eftir birtast viðtöl og fleiri fréttir frá Serbíu og á morgun er svo leikurinn en Fótbolti.net verður auðvitað með beina textalýsingu frá leiknum.


Athugasemdir
banner
banner
banner