Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 22. maí 2023 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rosenborg í krísu en telur að Íslendingunum verði sýnd þolinmæði
Kristall Máni Ingason.
Kristall Máni Ingason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Snær Þorvaldsson.
Ísak Snær Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur gengið erfiðlega hjá norska stórliðinu Rosenborg í upphafi tímabilsins, svo sannarlega. Félagið er það sigursælasta í Noregi en er sem stendur í ellefta sæti af 16 liðum þegar liðið er búið að spila átta leiki í norsku úrvalsdeildinni.

Norski fjölmiðlamaðurinn Stian André de Wahl hjá Nettavisen segir í samtali við Fótbolta.net að félagið sé í krísu.

„Þetta er krísa fyrir félagið. Liðinu skortir kraft í sóknarleik sinn. Þeir misstu fjóra mikilvæga leikmenn frá síðasta tímabili og töldu sig geta leyst þá af hólmi með ungum leikmönnum úr smærri deildum. Sú strategía hefur mistekist hingað til og það er ákveðið paníkk í kringum félagið akkúrat núna. Þjálfarinn er reyndur og reynir að vera rólegur, en fjölmiðlar og stuðningsmenn hafa gagnrýnt stöðu félagsins mjög," segir Stian.

Maður sér að það býr mikið í þeim
Tveir af þessum ungu leikmönnum sem félagið sótti eru Íslendingarnir Kristall Máni Ingason og Ísak Snær Þorvaldsson. Kristall gekk í raðir liðsins á miðju síðasta tímabili og Ísak fyrir þessa leiktíð. Þeir hafa báðir fengið gagnrýni fyrir spilamennsku sína með liðinu, eins og aðrir leikmenn. Kristall er búinn að gera eitt mark í fimm leikjum í norsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili á meðan Ísak hefur spilað sjö leiki og á enn eftir að skora fyrir félagið.

„Eins og liðið í heild þá hafa þeir verið upp og niður í sinni frammistöðu," segir Stian. „Þeir hafa sýnt góð gæði inn á milli en heilt yfir hefur þetta verið miðlungs. Til varnar þeim, þá hefur ekki verið auðvelt að standa sig í Rosenborg á þessu ári þar sem liðið er ekki á góðum stað."

„Maður sér að það býr mikið í þeim tveimur og mikil gæði. Kristall er með tækni, snerpu og ákveðinn x-faktor í sínum leik á meðan Ísak er með sterka nærveru og mikinn líkamlegan styrk. Það er erfitt að dæma þá þegar tímabilið er svona ungt."

Hefur trú á að þeir fái þolinmæði
Eins liðið í heild sinni þá hafa Ísak og Kristall verið gagnrýndir af stuðningsmönnum Rosenborg á samfélagsmiðlum. Stian segir það eðlilegt þegar það gengur illa hjá eins stóru félagi og Rosenborg, en hann hefur trú á því að Íslendingarnir geti náð árangri hjá norska stórveldinu á næstu árum þegar þeir hafa fengið tíma til að aðlagast.

„Rosenborg er stórt félag. Þeir hafa báðir verið gagnrýndir. Dýfan sem Kristall tók hjálpaði honum ekki neitt. Félagið tekur ekki vel í leikaraskap og talaði opinskátt um atvikið. Ég held að því máli sé samt lokið núna og menn halda áfram. Ég held að Kristall sé með stuðning hjá félaginu," segir Stian og bætir við að lokum:

„Ég held að stuðningsmenn muni sýna þeim þolinmæði þar sem þeir eru ungir leikmenn sem eru að þróa sinn leik, og geta bætt sig mikið. Vandamálið núna er að Rosenborg er í vandræðum með að skapa færi og liðið er ekki að fúnkera vel. Þegar, ef, það batnar þá held ég að þeir fái báðir meiri möguleika til að sýna hvað í þeim býr. Hingað til hefur þetta ekki verið gott hjá þeim né hjá öðrum leikmönnum liðsins."
Athugasemdir
banner
banner