Palace opið fyrir því að selja enska tvíeykið - Real Madrid vill að Man Utd nýti endurkaupsrétt sinn á Alvaro - Vardy orðaður við Leeds
   þri 22. ágúst 2023 15:34
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Freysi: Félagið hefur ekki náð því í 25 ár
Þeir eru með ógnvænlega sterkt lið
Þeir eru með ógnvænlega sterkt lið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Held að þeir séu með það sterkt lið að þeir eigi nokkurn veginn að hlaupa með þetta mót
Held að þeir séu með það sterkt lið að þeir eigi nokkurn veginn að hlaupa með þetta mót
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net ræddi við Frey Alexandersson, þjálfara Lyngby, og var þjálfarinn spurður út í byrjunina á tímabilinu, sölur á leikmönnum, íslensku deildina og ýmislegt annað.

Viðtalinu er skipt upp í fjóra hluta og hér er fyrsti hluti viðtalsins.

Lyngby hefur unnið tvo leiki, gert eitt jafntefli og tapað tveimur leikjum í upphafi tímabilsins. Er Freysi ánægður með stigasöfnunina?

„Ég er mjög ánægður með stigasöfnunina. Fjögur af þessum fimm liðum sem við höfum mætt voru í topp sex á síðasta tímabili. Fimmta liðið er Midtjylland sem á alltaf að vera í topp þremur, en var ekki í topp sex í fyrra. Við erum búnir að spila við mjög sterk lið en erum samt með sama meðaltal af stigum fyrir hvern leik og við vorum með seinni hluta tímabilsins í fyrra - sem var mjög vel heppnaður. Þetta er gott framhald af því og ég er mjög sáttur við stigasöfnunina hingað til. Spilamennskan hefur kannski verið upp og niður, verið frábærir kaflar og líka minna góðir kaflar, heilt yfir gott skref fram á við."

Ef horft er í lokatölurnar gegn Bröndby, 3-0 tap, lenti liðið á vegg þar?

„Nei, við lentum manni færri eftir 50 mínútur. Við höldum leiknum í járnum þangað til á 85. mínútu, þá reynum við að kýla á þetta og reyna taka stigið. Við opnum okkur og fáum tvö mörk í andlitið í staðinn. Það var bara útreiknuð áhætta hjá mér að reyna fá allavega eitt stig með heim. Hvort við töpuðum 1-0 eða 2-0 skipti ekki öllu máli, en eitt stig hefði verið helvíti gott eftir að hafa spilað lengi manni færri."

Í síðasta leik vann Lyngby 1-0 sigur gegn Randers, varstu ánægður með þann leik?

„Ég var mjög ánægður með seinni hálfleikinn, við vorum góðir í seinni hálfleik, vorum betra liðið allan leikinn svo sem en fyrri hálfleikurinn var mjög hægur og leiðinlegur - veit ekki hvort það var andstæðingurinn að hægja á leiknum eða sú staðreynd að við vorum án þriggja lykilmanna frá byrjun tímabilsins. En svo vorum við bara drullugóðir í seinni hálfleik og sigurinn mjög mikilvægur. Við settum pressu á okkur að við yrðum að vinna þennan leik og við gerðum það. Þeir fengu eitt færi í öllum leiknum, við vorum mjög þéttir og fagmannlegir í því sem við vorum að gera."

Lykilmennirnir sem Freysi talar um eru Kolbeinn Birgir Finnsson sem var í leikbanni og þeir Lucas Hey og Alfreð Finnbogason sem voru seldir í þessum mánuði.

Hinn tapleikurinn hjá Lyngby var gegn FCK í fyrstu umferð. FCK er með fullt hús stiga eftir fimm umferðir. Eru tvöföldu meistararnir að fara hlaupa með deildina?

„Það er líklegt að þeir geri það. Við spiluðum frábæran leik á móti FCK og það er kannski sá leikur sem ég er mest svekktur með að hafa ekki fengið neitt út úr. Þeir eru með ógnvænlega sterkt lið og við vorum klárlega ekki lakari aðilinn í þeim leik. Það hefði verið gaman að vinna þann leik því ég held að þeir séu með það sterkt lið að þeir eigi nokkurn veginn að hlaupa með þetta mót. Auðvitað geta þeir lent í einhverjum meiðslum og veseni og hökti aðeins, en þeir eru mjög öflugir."

„Ég sé fram á að deildin verði svolítið tvískipt svolítið fljótt, það eru fimm-sex lið sem eru með það sterka leikmannahópa að við hin eigum mjög erfitt með að keppa við þau eins og staðan er núna."


Dönsku deildinni er skipt upp í efri og neðri helming eftir 22 umferðir. Sjöunda sætið gefur umspilssæti um sæti í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Það er því ekkert sérstaklega eftirsóknarvert að enda í sjötta sæti.

„Það eru fimm risalið, en ef þú nærð góðu skriði eins og Viborg í fyrra sem endaði í fjórða sæti, þá er þetta hægt. En það er kannski styttri leið í Evrópu að reyna ná sjöunda sæti og taka svo einn úrslitaleik við 3. eða 4. sætið um sæti Evrópu, það er ekkert vitlausara kannski."

Hvað er opinbert markmið Lyngby fyrir tímabilið? Liðið er með sjö stig í sjöunda sæti sem stendur.

„Það er að lifa af í deildinni, að vera í fyrsta skiptið í 25 ár þrjú ár í röð í Superliga. Það er aðalmarkmiðið, en svo erum við með drauma, erum með metnaðarfulla leikmenn og höfum trú á okkur. En við þurfum líka að vera auðmjúkir og byrja á því að sjá til þess að við tryggjum veru klúbbsins í deildinni en á sama tíma bætum okkur á öllum sviðum; bætum leikmennina, klúbbinn, höldum áfram að slá aðsóknarmetið og fá frekari innkomu í gegnum leikdagstekjur og sjónvarpsrétt. Það er fullt af smáum markmiðum sem við erum með sem við þurfum að ná. Svo erum við með drauma um að fara hærra í töflunni."

„Eins og staðan er núna þá er ég búinn að selja tvo lykilleikmenn í þessum glugga og gæti alveg misst fleiri. Svo er annar gluggi í janúar. Það er því ofboðslega erfitt að meta hver styrkleiki hópsins verður. Við erum líka búnir að vera mjög góðir á markaðnum, búnir að ná í góða leikmenn fyrir lágar upphæðir. Ef við höldum því áfram þá veit maður aldrei hvað gerist,"
sagði Freysi.

Sjá einnig:
Leið næstum yfir Freysa - „Ótrúlega stoltur að hafa staðið með sjálfum mér"
Athugasemdir
banner