fim 01.maí 2025 17:00 Mynd: Raggi Óla |
|

Spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeild kvenna: 3. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeild kvenna í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð í deildinni. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í fjórða sæti er ÍBV frá Vestmannaeyjum.
Olga Sevcova hefur alla burði til að vera besti leikmaður deildarinnar.
Mynd/Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
1.
2.
3. ÍBV, 108 stig
4. Grótta, 107 stig
5. Fylkir, 95 stig
6. HK, 84 stig
7. Grindavík/Njarðvík, 66 stig
8. KR, 62 stig
9. Haukar, 61 stig
10. Afturelding, 26 stig
3. ÍBV
ÍBV er á leið inn í sitt annað tímabil í Lengjudeildinni eftir að hafa fallið úr Bestu deildinni sumarið 2023. Þetta er staður sem þær vilja eflaust ekki vera á mikið lengur og í sumar er ágætis trú á liðinu, rétt eins og fyrir síðasta sumar. Það fór hins vegar ekki allt eftir plani í fyrra og stundum er það þannig í fótboltanum. ÍBV endaði að lokum í sjötta sæti eftir erfiðan endasprett. Síðasta sumar var fyrsta tímabilið 2010 þar sem ÍBV var ekki með lið í efstu deild kvenna og það var örugglega ákveðið högg, en liðið var búið að hóta fallið í nokkurn tímann og svo kom það 2023. Núna er verið að vinna í því að reisa liðið aftur upp og er ÍBV spáð fínu gengi í sumar.
Þjálfarinn: Jón Óli Daníelsson tók aftur við ÍBV fyrir síðasta tímabil og gerði langan samning við félagið. Jón Óli er öllum hnútum kunnugur hjá félaginu en hann þjálfaði meistaraflokk kvenna frá 2007 til 2014 og svo aftur 2019 ásamt því að hafa verið yfirþjálfari félagsins. Síðast gekk liðinu vel undir stjórn Jóns Óla - var meðal annars í toppbaráttu í efstu deild - og félagið er að vonast til að það verði þannig aftur núna. Sigríður Lára Garðarsdóttir, ein besta fótboltakona sem hefur komið frá Vestmannaeyjum, er aðstoðarþjálfari sem er mjög skemmtilegt.
Stóra spurningin: Hvað gerir Olga Sevcova í sumar?
Þau sem hafa fylgst með kvennaboltanum síðustu ár vita hversu góður leikmaður Olga Sevcova er. Hún var virkilega góð þegar hún spilaði með ÍBV í Bestu deildinni og í fyrra gerði hún níu mörk í 17 deildarleikjum. Undirritaður gerir kröfu á það að hún fari yfir tveggja stafa tölu í sumar, hún er það góður leikmaður. Hún á að geta skorað meira en tíu mörk og lagt upp meira en tíu mörk. Henni líður vel í Vestmannaeyjum og á að geta notið sín vel í þessari deild.
Lykilmenn: Guðný Geirsdóttir og Olga Sevcova
Guðný á að geta verið besti markvörður deildarinnar en það er ekki svo langt síðan hún var valin í A-landsliðið. Einn besti íslenski markvörðurinn og er með mikið Eyjahjarta. Eins og segir hér að ofan þá er Olga leikmaður sem á að geta verið best í þessari deild. Með gríðarlega mikla hæfileika framarlega á vellinum og Eyjafólk á að setja kröfur á að hún standi sig. Er búin að spila lengi í Vestmannaeyjum og þekkir það vel að spila þarna.
Gaman að fylgjast með: Kristín Klara Óskarsdóttir
Það eru nokkrar efnilegar stelpur í Eyjaliðinu sem fengu tækifæri í fyrra og núna í vetur á undirbúningstímabilinu. Kristín Klara er þar fremst í flokki en hún er fædd 2009 og spilaði flesta leiki í fyrra. Hún er gríðarlega efnileg og mun lílkega fá enn stærra hlutverk í sumar en í fyrra. Hefur verið viðloðandi yngri landslið Íslands. Þá er komin TikTok stjarna til Vestmannaeyja, Allison Lowrey, sem verður örugglega skemmtilegt að fylgjast með innan sem utan vallar í sumar.
Komnar:
Allison Grace Lowrey frá Bandaríkjunum
Allison Patricia Clark frá Kýpur
Avery Mae Vanderven frá Bandaríkjunum
Farnar:
Alexus Nychole Knox til Ástralíu
Ágústa María Valtýsdóttir í KH (Var á láni)
Madisyn Janae Flammia til Ástralíu
Allir að taka stig af öllum
Jón Óli, þjálfari ÍBV, segir að spáin komi ekki mikið á óvart.
„Spáin kemur mér ekki á óvart en mér sýnist sama og í fyrra að það munu allir vera taka stig af öllum," segir Jón Óli.
Hann segir að síðasta tímabil hafi verið mjög erfitt.
„Síðasta tímabil var mjög erfitt. Mikið ójafnvægi á liðinu en þegar við fundum taktinn og unnum fimm leiki í röð þá misstum við okkar besta leikmann ásamt öðrum byrjunarliðsleikmanni og áttum hreinlega ekki möguleika eftir það."
„Undirbúningstímabilið núna hefur gengið sæmilega. Því miður hafa of margir leikmenn misst af of mörgum leikjum vegna landsleikjaverkefna og leikja í öðrum greinum. En við áttum mjög góða æfingaferð núna fyrir páska sem vonandi skilar sér vel."
Nokkrar breytingar eru á liðinu. „Það eru töluverðar breytingar á liðinu. Við höfum þurft að spila mjög ungum leikmönnum sem hafa stimplað sig mjög vel inn hjá okkur. Við erum einnig mjög ánægðar með liðsstyrkinn sem við höfum fengið."
Sumarið er að byrja. Hvernig býst þú við því að þessi deild muni spilast? Hver eru ykkar markmið?
„Eins og áður segir þá tel ég að liðin munu týna stig hvert af öðru. Okkar markmið eru skýr, það er að við tökum einn leik fyrir í einu og reynum að vinna hann," segir Jón Óli og bætti hann við að lokum.
„Til stuðningsmanna að mæta á völlinn og styðja sitt lið. Góður stuðningur úr stúkunni er ómetanlegur. Að lokum, kæra knattspyrnufólk, gleðilegt frábært knattspyrnusumar."
Fyrstu þrír leikir ÍBV:
3. maí, Grindavík/Njarðvík - ÍBV (JBÓ völlurinn)
8. maí, ÍBV - Grótta (Hásteinsvöllur)
16. maí, Haukar - ÍBV (BIRTU völlurinn)
Athugasemdir