Palace opið fyrir því að selja enska tvíeykið - Real Madrid vill að Man Utd nýti endurkaupsrétt sinn á Alvaro - Vardy orðaður við Leeds
   lau 03. maí 2025 14:24
Brynjar Ingi Erluson
Amanda einum sigri frá titlinum
Kvenaboltinn
Amanda Andradóttir á möguleika á því að vinna deildina eftir tvær vikur
Amanda Andradóttir á möguleika á því að vinna deildina eftir tvær vikur
Mynd: Twente
Amanda Andradóttir og stöllur hennar í Twente eru nú einum sigri frá því að vinna hollensku deildina eftir að liðið vann sannfærandi 3-0 sigur á PEC Zwolle í dag.

Twente hefur verið í æsispennandi titilbaráttu við PSV og Ajax en nú er ljóst að þetta verður tveggja hesta barátta eftir úrslit dagsins.

Amanda kom inn af bekknum í síðari hálfleik í þriggja marka sigri og er liðið nú á toppnum með 54 stig. PSV er í öðru sæti með jafnmörg stig en Twente með mun betri markatölu.

Twente mætir AZ Alkmaar í lokaumferðinni þann 17. maí á meðan PSV spilar við Feyenoord. Sigur þar mun færa Twente titilinn annað árið í röð og í tíunda sinn í sögunni.

Sveindís Jane Jónsdóttir lék allan leikinn í fremstu víglínu hjá Wolfsburg sem vann 4-0 sigur á Potsdam á útivelli í þýsku deildinni. Sigurinn tryggir endanlega Meistaradeildarsæti Wolfsburg fyrir næstu leiktíð en það situr í 2. sæti deildarinnar með 48 stig, fjórum meira en Eintracht Frankfurt sem er í þriðja.

Sædís Rún Heiðarsdóttir kom inn af bekknum hjá Vålerenga þegar sjö mínútur voru eftir venjulegum leiktíma í 2-0 sigri liðsins á Stabæk í norsku úrvalsdeildinni. Vålerenga er í 3. sæti með 18 stig.

María Catharina Ólafsdóttir Gros lék allan leikinn hjá Linköping sem gerði 1-1 jafntefli við Malmö í sænsku úrvalsdeildinni. Linköping situr í 12. sæti með 5 stig.

Ingibjörg Sigurðardóttir og Hafrún Rakel Halldórsdóttir byrjuðu báðar hjá Bröndby sem lagði Nordsjælland að velli, 1-0, í meistarariðli dönsku úrvalsdeildarinnar. Bröndby er með 33 stig í 3. sæti deildarinnar.

Málfríður Anna Eiríksdóttir lék allan leikinn hjá B93 sem tapaði fyrir ASA Aarhus, 1-0, í fallriðli úrvalsdeildarinnar. Liðið er í 4. sæti fallriðilsins með 5 stig.
Athugasemdir
banner