Newcastle vill læra af síðasta sumri - Arsenal í baráttu við PSG um leikmann - Man Utd búið að krækja í ungan leikmann
   fös 02. maí 2025 10:40
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Besta sem ég hef séð frá Man Utd undir stjórn Amorim"
Mynd: EPA
„Þetta var það besta sem ég hef séð frá Manchester United undir stjórn Ruben Amorim," sagði fyrrum markmaðurinn Paul Robinson sérfræðingur BBC eftir 0-3 útisigur United á Athletic Bilbao í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar.

„Liðið var frábært - auðvitað að spila gegn einungis tíu leikmönnum, en þeir þurftu samt að klára verkið."

Bruno Fernandes skoraði tvö mörk og Casemiro skoraði eitt eftir frábæran undirbúning frá Harry Maguire og skalla frá Manuel Ugarte.

„Fólk mun benda á að Bilbao var með einungis tíu menn en þetta var stórkostleg frammistaða. Bilbao fær varla á sig mark, ein besta vörn í Evrópu og að koma hingað og skora þrjú mörk, gjörsamlega frábær frammistaða," sagði Robbie Savage, fyrrum miðjumaður United, á TNT eftir leikinn.

Gengi United undir stjórn Amorim hefur verið erfitt. Nánast ekkert gengur upp í ensku úrvalsdeildinni en í Evrópudeildinni hefur gengið vel og er liðið taplaust í keppninni í vetur. Amorim hefur unnið sjö af níu Evrópuleikjum sínum en einungis sex af 23 deildarleikjum sínum sem stjóri United.

Amorim sagði sjálfur eftir leikinn að þetta hefðu verið bestu úrslitin undir hans stjórn því enginn átti von á þessu. Portúgalinn benti svo í kjölfarið á að einvígið væri ekki búið því seinni leikurinn er eftir.
Athugasemdir