Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 10. nóvember 2020 16:30
Magnús Már Einarsson
EM ævintýri Íslands - Ólæti Ungverja og svekkjandi jafntefli
Icelandair
Smá töf varð á leiknum eftir jöfnunarmark Ungverja.  Stuðningsmenn þeirra hentu þá blysum inn á völlinn.
Smá töf varð á leiknum eftir jöfnunarmark Ungverja. Stuðningsmenn þeirra hentu þá blysum inn á völlinn.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Aron Einar fiskar vítaspyrnuna.
Aron Einar fiskar vítaspyrnuna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi skorar úr spyrnunni.....
Gylfi skorar úr spyrnunni.....
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
....og fagnar fyrir framan hörðustu stuðningsmenn Ungverja.
....og fagnar fyrir framan hörðustu stuðningsmenn Ungverja.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður var með fyrirliðabandið í þann tíma sem hann spilaði.
Eiður var með fyrirliðabandið í þann tíma sem hann spilaði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Svekkelsið var mikið í leikslok.
Svekkelsið var mikið í leikslok.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir EM 2016 var Fótbolti.net með upprifjun um alla leikina á því magnaða móti. Í tilefni af leik Ungverjalands og Íslands í umspili um sæti á EM rifjum við nú upp viðureign liðanna á EM árið 2016.



Ísland 1 - 1 Ungverjaland (18. júní)
1-0 Gylfi Þór Sigurðsson (´39, víti )
1-1 Birkir Már Sævarsson (88, sjálfsmark )
Lestu nánar um leikinn
Margir Íslendingar voru mjög svekktir eftir 1-1 jafnteflið í Marseille. Ungverjar jöfnuðu leikinn í blálokin og tryggðu sér um leið sæti í 16-liða úrslitunum.

Ísland komst yfir í fyrri hálfleik þegar Gylfi Þór Sigurðsson skoraði úr vítaspyrnu framhjá Gabor Kiraly í gráu buxunum. Vítaspyrnan var dæmd eftir að brotið var á Aroni Einari Gunnarssyni í kjölfarið á hornspyrnu.

Ungverjar sóttu stíft undir lokin og uppskáru jöfnunarmark á 88. mínútu. Ungverjar komust þá upp hægra megin og áttu fyrirgjöf sem Birkir Már Sævarsson stýrði í netið þegar hann reyndi að koma í veg fyrir að boltinn myndi berast á mann á fjæstönginni.

Tryllt fagnaðarlæti Ungverja urðu til þess að smá töf varð á leiknum en blysum var hent inn á völlinn og talsverður reykur myndaðist í kjölfarið.

Í viðbótartíma fékk íslenska liðið möguleika á að tryggja sér sigurinn. Gylfi Þór Sigurðsson átti aukspyrnu rétt fyrir utan teig en boltinn fór í varnarvegginn. Þaðan fór boltinn á Eið Smára Guðjohnsen sem skaut í varnarmann og horn. Í kjölfarið var flautað af.

Neðst í fréttinni má sjá svipmyndir úr leiknum

Ólæti Ungverja trufluðu íslenska stuðningsmenn
Margir stuðningsmenn Íslands komust ekki inn á völlinn fyrr en leikurinn var byrjaður eða rétt fyrir leik. Ástæðan var sú að slagsmál brutust út í stúkunni fyrir leik. Harðkjarna hópur stuðningsmanna ungverska liðsins réðist þá inn í hólf Íslands og áttu í höggi við öryggisverði. Af öryggisástæðum var allt stöðvað fyrir utan völlinn um tíma og áhorfendur fengu ekki að fara inn.

Innkomu Eiðs fagnað eins og marki
Eiður Smári Guðjohnsen náði loksins að upplifa þann draum að spila með Íslandi á stórmóti. Eiður fékk frábærar móttökur á vellinum en stuðningsmenn Íslands fögnuðu innkomunni líkt og mark hefði verið skorað. „Ég iðaði á bekknum að fá að fara inn á. Mér leið frábærlega þegar ég kom inn á og það var ekki fyrr en það var búið að flauta af sem það var smá vanlíðan og svekkelsi. Heilt yfir var þetta æðislegt," sagði Eiður eftir leik.

Raggi bestur
Í einkunnagjöf Fótbolta.net eftir leik var Ragnar Sigurðsson maður leiksins með 8 í einkunn. Birkir Bjarnason fékk einnig 8 í einkunn fyrir frammistöðu sína.

Stuðningsmennirnir
9000 Íslendingar voru á leiknum á Stade Vélodrome á móti 21 þúsund Ungverjum. Samtals voru 34,424 áhorfendur á leiknum.

Alfreð í bann
Alfreð Finnbogason fékk sitt annað gula spjald í keppninni og því varð ljóst að hann yrði í banni í lokaleik riðilsins gegn Austurríki. Alfreð kom inn á sem varamaður í fyrstu tveimur leikjunum. Hann fékk gult spjald fyrir hendi gegn Portúgal og gegn Ungverjum fékk hann gult fyrir að brjóta á Ungverjum á leið í skyndisókn. „Við erum búnir að horfa á leikinn aftur og þetta er kjánalegasta gula spjald sem ég hef séð," sagði Lars Lagerback ósáttur með spjaldið í viðtali daginn eftir leik.

Aron gat ekki klárað leikinn
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, var að glíma við meiðsli á mótinu. Hann stífnaði upp gegn Ungverjum og Emil Hallfreðsson tók stöðu hans á 65. mínútu. „Ég er allur að koma til. Þetta var bara stífleiki. Mér fannst ég vera farinn að verða farþegi í lokin og blása svolítið mikið. Ég held að það hafi þurft að fá ferskleika inn á miðjuna," sagði Aron í viðtali eftir leik.

Ljóst að það þyrfti stig gegn Austurríki
Eftir leikinn varð ljóst að Ísland þyrfti að minnsta kosti stig gegn Austurríki til að komast áfram í 16-lið úrslitin. Fyrir lokaumferðina í öllum riðlunum var óvíst hvort þrjú stig myndi duga sem besti árangur í þriðja sæti. Því var strax öll einbeiting á að sigur þyrfti gegn Austurríki til að komast áfram. Eftir því sem hinir riðlarnir spiluðust áfram varð hins vegar ljóst fyrir leikinn gegn Austurríki að stig myndi nægja til að fara áfram.

Misheppnuð hráka Jóns Daða trendaði
Misheppnuð hráka Jóns Daða Böðvarssonar vakti mikla athygli og trendaði á netinu eins og sjá má hér.

Sagt eftir leik

Aron Einar Gunnarsson
„Þetta var öfugt við Portugal leikinn. Við unnum þar 1-1 en töpuðum í dag 1-1."

Kolbeinn Sigþórsson
„Þetta er eins og tap. Eina sem ég get sagt er að okkur líður eins og við höfum tapað. En við erum ennþá ósigraðir og getum verið jákvæðir og förum fullir sjálfstraust í síðasta leikinn."

Birkir Már Sævarsson
„Ég var fyrir framan minn mann þá kom boltinn inn og ég ætlaði bara að hreinsa honum í burtu. Ef ég hefði verið heppinn þá hefði ég náð honum út í Hannes og eitthvað í burtu en ég hitti hann ekki nógu vel því miður."

Hannes Þór Halldórsson
„„Mér hefur aldrei liðið eins illa yfir því að fá á mig mark. Það var eins og það væri verið að sprauta sprautu í mig sem dreifði ógeðistilfinningu um allan líkamann."

Emil Hallfreðsson
„Þetta gerðist hratt en minn maður slapp innfyrir mig, ég bjóst ekki við sendingunni. Þeir voru búnir að liggja svolítið á okkur allan seinni hálfleikinn en ef þið viljið klína þessu marki á mig þá get ég alveg tekið það á mig."

Twitter færslur leiksins





Svipmyndir úr leiknum:

Athugasemdir
banner
banner