lau 18. júní 2016 19:28
Magnús Már Einarsson
Stade Velodrome
Hannes: Aldrei liðið eins illa yfir því að fá á mig mark
Icelandair
Hannes svekktur eftir leik.
Hannes svekktur eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér hefur aldrei liðið eins illa yfir því að fá á mig mark. Það var eins og það væri verið að sprauta sprautu í mig sem dreifði ógeðistilfinningu um allan líkamann," sagði Hannes Þór Halldórsson, markvörður Íslands, eftir 1-1 jafntefli gegn Ungverjalandi í kvöld.

Ungverjar jöfnuðu undir lokin þegar Birkir Már Sævarsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

„Það var hræðilegt að fá mark á sig á þessum tímapunkti. Þetta var líka óvænt því að síðustu fjögur árin höfum við alltaf náð að sigla leikjunum heim þegar við erum að með úrslit sem við erum að reyna að hala á síðustu mínútunum. Þeir voru ekki að skapa sér neitt sérstakt og þetta var hræðileg tilfinning."

Íslenska liðið var mun minna með boltann í leiknum í kvöld, líkt og gegn Portúgal.

„Það var ekki planið. Leikurinn þróaðist svona og við erum ekki ánægðir með það. Við hefðum átt að sýna betri hliðar í dag, við vorum ekki nægilega góðir."

„Engu að síður náðum við að koma leiknum í það far að við eigum að geta spilað á okkar styrkleikum og siglt leiknum heim. Við vorum grátlega nálægt því en við þurfum að skoða af hverju við náum ekki tempói fyrir spilið og laga fyrir leikinn á móti Austurríki."


Ljóst er að örlög Íslands í riðlinum ráðast í lokaumferðinni gegn Austurríki á miðvikudag.

„Það kemst voða lítið annað að núna en svekkelsi þegar við erum svona grátlega nálægt þessu. Ég get lofað því að við gírum okkur upp og við ætlum að klára þetta á móti Austurríki," sagði Hannes brattur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner