„Ég er mjög svekktur," sagði Birkir Már Sævarsson eftir svekkjani 1-1 jafntefli Íslands og Ungverjalands á Evrópumótinu í Frakklandi en jöfnunarmark Ungverja var sjálfsmark hans í lokin.
„Ég var fyrir framan minn mann þá kom boltinn inn og ég ætlaði bara að hreinsa honum í burtu," segir Birkir þegar hann útskýrir hvað gerist í markinu og heldur áfram.
„Ef ég hefði verið heppinn þá hefði ég náð honum út í Hannes og eitthvað í burtu en ég hitti hann ekki nógu vel því miður."
Íslenska liðið lá mikið til baka og varðist í leiknum, var það uppleggið?
„Uppleggið var kannski ekki að liggja allan seinni hálfleikinn í vörn en þegar við unnum boltann náðum við ekki að halda honum nógu vel og svo fengum við alltaf nýja og nýja sókn á okkur."
„Mér fannst þeir samt ekki skapa neina stóra sénsa svo við vörðumst mjög vel, en hefðum viljað halda boltanum aðeins betur."
Ísland hefur gert tvö 1-1 jafntefli á mótinu, gegn Portúgal og Ungverjalandi og leikur lokaleik í riðli gegn Austurríki 22. júní.
„Það er ömurlegt að vera taplausir en samt einhvern veginn finnst okkur sem við höfum tapað þessum leik. Það er bara næsti leikur."
„Það verður ekkert erfitt að mótivera liðið fyrir síðasta riðlaleikinn, það verður bara að ná í þrjú stig þar og ekkert annað."
Athugasemdir