Ruud van Nistelrooy var bókstaflega hataður af leikmönnum Arsenal. Arsene Wenger hafði árið áður kallað hann svindlara eftir leik liðana.
Í dag eru 10 ár liðin frá einum frægasta leik sem spilaður hefur verið í ensku úrvalsdeildinni frá stofnun hennar. Um er að ræða viðureign Manchester United og Arsenal sem fram fór þann 24. október 2004 og allir sem fylgdust með enska boltanum á þeim tíma muna eftir leiknum.
Skytturnar frá London mættu til Manchester eftir að hafa farið í gegnum tímabilið á undan ósigraðir, fyrstir allra í sögu deildarinnar. Liðið hafði ekki tapað heilum 49 leikjum í röð og hefði leikurinn á Old Trafford því geta orðið sá 50. í röðinni.
Liðið var skipað mönnum eins og Thierry Henry, Freddie Ljungberg, Robert Pires, Patrick Vieira, Sol Campbell og Dennis Bergkamp, sem allir voru á hátindi ferils síns, að ógleymdum hinum skapheita Jens Lehman í markinu.
Á þessum tíma höfðu United og Arsenal verið yfirburðalið á Englandi, á meðan hið nýríka Chelsea var að byrja að blanda sér í titilbaráttuna. Árið áður hafði soðið upp úr á milli leikmanna United og Arsenal á sama velli eftir spennuþrunginn leik. Ruud van Nistelrooy fékk þar að finna til tevatnsins af hálfu leikmanna Arsenal og fjórir leikmanna þeirra fengu leikbönn í kjölfarið.
Spennan fyrir leikinn fyrr 10 árum var gríðarleg og stóðst viðureignin allar væntingar. Mönnum var heitt í hamsi og þráðurinn stuttur. Arsenal fékk mörg frábær færi í leiknum, en allt kom fyrir ekki og tókst United það sem margir töldu ómögulegt - að leggja The Invincibles að velli. Lokatölur urðu 2-0 þökk sé mörkum frá Ruud van Nistelrooy og Wayne Rooney í síðari hálfleik. Fögnuður heimamanna var ósvikinn í leikslok.
Uppákoma sem átti sér stað eftir leik vakti ekki síðri athygli en úrslit leiksins. Annað árið í röð sauð upp úr. Leikmenn Arsenal voru brjálaðir, bæði út í dómara leiksins Mike Riley, sem og leikmenn United. Voru mikil læti á göngunum undir áhorfendapöllunum á Old Trafford sem enduðu með því að Sir Alex Ferguson, stjóri United, fékk pizzu í andlitið.
Cesc Fabregas er af mörgum talinn hafa kastað pizzunni, en það hefur enn þann dag í dag ekki fengist staðfest hver sökudólgurinn var. Ferguson hafði farið í búningsklefa Arsenal til að láta Arsene Wenger heyra það, en Skotinn var ósáttur með að Wenger hafði verið að skamma Nistelrooy eftir leik. Ferguson náði þó ekki að ræða málin við Wenger eins og hann hefði kosið vegna pizzunnar. Við skulum grípa niður í frásögn Ashley Cole af atvikinu.
,,Pizzasneiðin kom fljúgandi yfir hausinn á mér og lenti beint í smettinu á Ferguson. Skellurinn bergmálaði um gangana og allt stöðvaðist - öskrin, rifrildin - allt saman. Allir göptu og öll augu beindust að honum þar sem pizzan lak af þessu fræga andliti og niður á fínu jakkafötin hans," sagði Cole í ævisögu sinni, en hann var á þessum tíma leikmaður Arsenal.
Hefur þetta atvikið verið kallað Pizzagate af breskum fjölmiðlum á meðan viðureignin sjálf hefur verið nefnd Battle of the Buffet, eða Bardaginn um hlaðborðið á góðri íslensku.
Það er sterklega mælt með því að horfa á myndbandið hér að neðan fyrir þá sem vilja rifja upp andrumsloftið á Old Trafford fyrir 10 árum.
Athugasemdir